11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1934

Bernharð Stefánsson:

Ég flyt nokkrar brtt. á þskj. 376, en þar eð þær lágu allar fyrir við 2. umr., nema ein, get ég verið fáorður um þær að þessu sinni. Fyrsta brtt. er nr. 3 á þskj. 376, og fer ég þar fram á, að til Öxnadalsvegar verði veittar 10000 kr., í stað 7000. Fyrir þessari brtt. gerði ég fulla grein við 2. umr. og þykist ekki þurfa að endurtaka það nú. Ég tók þessa till. aftur til 3. umr. eins og þeir aðrir, sem fluttu till. um hækkað framlag til vega. Ég hefi ekki orðið þess var, að fjvn. hafi tekið till. mína neitt til greina og ber hana því hér fram.

Ég á einnig 6. brtt. á sama þskj., og gerði ég líka nokkra grein fyrir henni við 2. umr. Hún fer fram á það, að veittar verði 20000 kr. til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, gegn tvöföldu tillagi frá hafnarsjóði Siglufjarðar. Við 2. umr. hafði ég ekki í höndum nóg gögn til að skýra þetta til hlítar. En rétt um það bil, sem 2. umr. var að enda, fékk ég þessi gögn og afhenti fjvn. þau skömmu síðar. Ég þykist þess fullvís, að hún hafi athugað þau vel. Þar voru fyrst og fremst þrír uppdrættir af þessu fyrirhugaða mannvirki, og ýtarleg grg. frá þeim verkfræðing, sem athugað hefir þetta mál og gert um það áætlanir, en það er Finnbogi Rútur Þorvaldsson. Ég skal ekki bæta miklu við það, sem ég sagði um þetta mál við 2. umr., aðeins benda á það, að þessi hafnargarður, sem hér um ræðir, er ætlaður til varnar öllu hafnarsvæði Siglufjarðar fyrir brimi og ís. Hann verður að vera þykkur og traustlega byggður, og hefir því verið áætlað, að líka mætti nota hann fyrir bryggju, án þess að auka að nokkru ráði byggingarkostnaðinn. Um lýsingu á mannvirkinu vil ég vísa til uppdrátta þeirra, sem fjvn. hefir nú með höndum, og grg., sem þeim fylgja. Þó skal ég taka það fram, að garðurinn og sú dýpkun á vissu svæði hafnarinnar, sem stendur í sambandi við hann, er áætlað að komi til með að kosta 600 þús. kr. Þessi till. mín um styrk og önnur, sem ég flyt um ábyrgðarheimild, eru á þessari áætlun byggðar.

3. brtt. mín á þessu þskj. er nr. 27. 1. liður hennar er framhald þeirrar, sem ég hefi nú verið að tala um, og fer fram á ábyrgðarheimild handa stj. fyrir 400 þús. kr. láni til hafnarsjóðs Siglufjarðar, til byggingar öldubrjótsins austur af Siglufjarðareyri. Þessi till. er, eins og ég gat um áður, byggð á þeirri áætlun, að allt verkið kosti 600 þús. kr. Engan þarf að undra, þótt hafnarsjóður Siglufjarðar hafi ekki svo miklu fé úr að spila, að hann geti snarað út 400 þús. kr. í þessu skyni. Það er vitanlegt, að verði í þetta mannvirki ráðizt, verður hafnarsjóðurinn að fá lán fyrir sínum hluta útgjaldanna, og um slíkt lán getur varla orðið að ræða án ríkisábyrgðar. Því er það, að ég ber fram till. um ábyrgðarheimild í þessu skyni. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að hafnarsjóður Siglufjarðar hefir áreiðanlega þær tekjur, að telja má tryggt, að hann standi undir þeim útgjöldum, sem endurgreiðsla slíks láns og hæfilegir vextir af því leggja honum á herðar. Ekki er ætlazt til, að stj. gangi í þessa ábyrgð, nema í móti komi tryggingar, sem hún metur gildar, svo að ábyrgðin ætti ekki að verða hættuleg.

Það er vitanlegt, að eins og nú stendur á, má ríkissjóður ekki við miklum útgjaldaaukningum, og hér er óneitanlega farið fram á talsvert stóra upphæð á einum bletti. En þar má líka taka það til athugunar, að bryggjur bræðslustöðvar ríkisins á Siglufirði eru þær bryggjur, sem í mestri hættu eru af brimi og ísreki. Og eins og ég benti á við 2. umr., gæti það orðið vafasamur gróði að láta allt reka þarna á reiðanum, og missa svo ef til vill bryggjur ríkisbræðslunnar í næsta norðangarði. Þessi till. er því á vissan hátt ráðstafanir til þess að ríkissjóður verndi sína eigin eign. Ennfremur mundi bygging slíks mannvirkis auka mjög atvinnu í þessum umrædda kaupstað, og tel ég víst, að það Alþ., er nú situr, muni ekki skiljast svo frá sínum störfum, að það reyni ekki að ráða bót á því sára atvinnuleysi, sem nú ríkir í bæjum allt í kringum land. Og varla mun hægt að finna hentugra verk til að bæta úr atvinnuleysinu á Siglufirði en einmitt þetta. Ég geri ráð fyrir, að á þessu þingi verði veitt einhver fúlga úr ríkissjóði til atvinnubóta í kaupstöðum, og tel ég sjálfsagt, ef till. mínar verða samþ., að sú upphæð, sem veitt er til öldubrjótsins, verði jafnframt skoðuð sem atvinnubótastyrkur. Með því móti yrði framlagið til öldubrjótsins ekki að öllu leyti bein hækkun á útgjaldalið fjárl.

Þá er 2. liður sömu brtt. Þar er farið fram á, að stjórnin ábyrgist fyrir Tunnuverksmiðju Siglufjarðar, gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar, allt að 70 þús. kr. rekstrarlán, er greiðist upp á hverju ári. Í fyrra á þinginu flutti ég tvær till. um þetta efni. Í fyrsta lagi till. um ábyrgðarheimild fyrir láni til stofnkostnaðar þessa fyrirtækis, allt að 24000 kr., og var sú till. samþ. Svo flutti ég líka svipaða till. þeirri, sem ég flyt nú, um ábyrgð á rekstrarláni til þessa sama fyrirtækis, en sú till. var þá felld. Síðan um þetta var rætt á þinginu í fyrra, hefir það skeð í þessu máli, að verksmiðjunni hefir verið komið upp, og óhætt má fullyrða, að hún noti öll þau beztu og fullkomnustu tæki, sem þekkjast í þessari iðngrein. Ég vil benda á það, að þetta fyrirtæki er samvinnufélag, og er rekið af mönnunum, sem við það vinna og flestir eru fátækir verkamenn. Nú þegar hafa þeir lagt í þetta fyrirtæki um 12000 kr., og hefir mestur hluti þessa fjár verið lagt fram sem vinna. Tunnuverksmiðja Siglufjarðar hefir nú þegar getað útvegað sér nokkuð efni og byrjað tunnusmiði, og hefir vinna verksmiðjunnar hlotið almennt lof og er talin ágætlega af hendi leyst. En vitanlega vantar verksmiðjuna enn rekstrarfé, svo hægt sé að reka hana með fullum krafti og þannig, að hún geti borgað sig. Á umliðnu ári hefir framkvæmdarstjórn félagsins gert tilraunir til að fá nauðsynleg rekstrarlán í bönkum og útibúum, en þótt undarlegt megi virðast, hefir ekki enn tekizt að fá slíkt lán. Haldi því áfram, getur farið svo, að fyrirtækið verði að hætta. En ég hélt, að ekki gæti orkað tvímælis um það, hvílíkur þjóðarhagur það er að láta þessa vinnu fara fram í landinu sjálfu, í stað þess að kaupa allar tunnur frá útlöndum og játa vinnulaunin verða þar eftir. Félagið, sem hér um ræðir, stendur alveg á samvinnugrundvelli. Félagsmenn fá ekki fyllilega borgaða vinnu sína fyrr en öll önnur gjöld, er á fyrirtækinu hvíla, eru greidd. Og geti fyrirtækið ekki haldið áfram, er ekki annað sjáanlegt en að þeir félagsmenn, sem lagt hafa vinnu sína í þetta verk, tapi kaupi sínu að meira eða minna leyti, og virðist það ekki sanngjarnt. Nú er á það að líta, að stj. hefir þegar gengið í ábyrgð fyrir nokkurri upphæð, þar sem er stofnkostnaður þessarar verksmiðju. Ef fyrirtækið yrði nú að hætta vegna skorts á rekstrarfé, þá gæti farið svo, að ríkissjóður yrði í hættu með að skaðast á ábyrgð sinni fyrir stofnkostnaðinum. Ég held, að eina hættan, sem geti mætt þessu unga samvinnufélagi, sé sú, að það verði að hætta sökum skorts á rekstrarfé. Samkv. l. félagsins lendir eini skellurinn, sem getur orðið af rekstri þess, á félagsmönnum sjálfum. Ég sé því ekki, að um neina áhættu fyrir ríkissjóð geti verið að ræða, þó að Alþ. samþ. þessa ábyrgðarheimild. Þvert á móti eru það nokkurskonar varúðarráðstafanir til að tefla ekki í tvísýnu fé, sem ríkissjóður hefir áður lagt í þetta fyrirtæki. Ég vona, að hv. fjvn., sem haft hefir till. þessa til athugunar og fengið þau gögn, sem hægt er að fá um þetta mál, sjái sér fært, þrátt fyrir þröngan fjárhag, að mæla með till., og ef hv. fjvn. mælir með henni, þá vona ég, að hv. þdm. bregði ekki fæti fyrir hana.

Ég er að vísu meðflm. að nokkrum fleiri till., en ég veit, að aðalflm. mæla fyrir þeim, svo ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt að þessu sinni.