02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (2975)

176. mál, mat tekna af eigin húsnæði til tekjuskatts

Fyrirspyrjandi (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Mér mislíkar, að hæstv. ráðh. virðist nú aftur hneigjast að þessari aðferð til þess að reikna tekjur manna af húseignum. Hann sagði, að brunabótamat væri líklega næst kostnaðarverði húsanna. Það á við, þegar hús eru nýmetin. En á verðbreytingatímum þarf ekki lengi að bíða, þangað til þetta er orðið öðruvísi. Hús hafa hér í Rvík oft verið metin 30-40% hærra en kostnaðarverði næmi. Annað, sem taka ber tillit til, er það, hvar húsið stendur. Ef maður á lítið hús á dýrri lóð hérna í miðbænum, er ekki rétt að telja honum sömu tekjur af því og samskonar húsi á Grímsstaðaholti. Af þessari ástæðu er líka óhæft að miða við brunabótamat.

Þá er líka annað. Segjum, að brunabótamatið sé hið sama, hvar sem húsið stendur, hvort sem það er t. d. hér í Rvík eða á Hvammstanga. En fasteignamatið er e. t. v. ekki það sama. Sé svo, þá er ekki sanngjarnt að telja eigendum sömu tekjur af þessum húsum. Verður þá að taka tillit til þessa mismunandi fasteignamats.

Hæstv. ráðh. varðist þess að segja, hvar hann vildi láta festa hundraðstöluna, sem beita ætti í þessu efni um allt land. Ég skil vel, að hann er ekki reiðubúinn að svara því og vill fyrst eiga kost á að heyra, hvað ríkisskattan. og yfirskattan. í Rvík segir um það. Hann lofaði að veita þessu atriði sérstaka athygli, og er þá mínum tilgangi náð: að stuðla að því, að landsmönnum sé ekki vísvitandi mismunað í þessu efni, eftir því, hvar þeir búa.