23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla ekki heldur að fara út í mjög langar umr. um þetta mál. En ég verð að segja, að það fer að verða erfitt fyrir stj. að lifa, ef hún má ekki fara eftir áskorun frá meiri hl. þingsins. Ég skal þó viðurkenna, að mér finnst það óviðkunnanlegt, að svona áskorun komi frá þingmönnum, þegar þinginu er nýslitið. En úr því hún kom, var erfitt fyrir stj. að neita að taka hana til greina. Og sérstaklega var það erfitt í því árferði, sem nú er, þegar menn á stórum svæðum af landinu segjast vera í mestu vandræðum með að komast af. Fjöldi sjómanna kom til stj. áður en bráðabirgðalögin voru gefin út, og sögðust þeir enga atvinnu hafa og að ekki væru líkindi til, að þeir gætu unnið fyrir sér, ef þeir fengju ekki þetta leyfi. Það er hart að neita mönnum um að fá að bjarga sér, ef þeir hafa möguleika til þess. Og þetta voru hreinir Íslendingar, en ekki Færeyingar eða Danir, eins og hv. þm. N.-Þ. var að tala um.

Um það, hvenær Danir hafa fengið vitneskju um lagabreytinguna, þori ég ekkert að fullyrða. Hv. þm. sér, að bráðabirgðalögin eru gefin út í Kaupmannahöfn 6. júlí í sumar. Ég á ekki von á, að það vitnist neitt um það í Danmörku, þó konungur skrifi undir lög héðan. Ástæðan til þess, að dönsku skipin fóru að veiða hér svo fljótt eftir að lögin gengu í gildi, hygg ég að hafi verið sú, að þau hafa verið komin á stað áður. Þau hafa eflaust ekki komið hingað vegna lagabreytingarinnar, heldur hafa þau ætlað hvort sem var.

Ég skil vel, að hv. þm. N.-Þ., sem alltaf hefir verið á móti þessu máli, komi þessi bráðabirgðalög illa. En ég get ekki viðurkennt, að hann með réttu hafi getað sagt kjósendum sínum, að ekki væri neinn efi á því, að bannið gegn dragnótaveiðum stæði óbreytt. Það var vitað, að áskorunum til stj. var safnað síðustu daga þingsins, og hv. þm. hlýtur að hafa orðið þess var, þar sem þetta var orðið allmikið hitamál hér.

Um tilgang bráðabirgðalaganna er það að segja, að hann var eingöngu sá, að útvega sjómönnunum ofurlitla atvinnu í sumar, ef til vill ekki arðvænlega, en sem þeir samt gátu haft uppihald af. Hv. þm. N.-Þ. upplýsti sjálfur eftir blaði sjómannanna, Ægi, að að þessu hefir orðið allmikill styrkur; engin uppgrip að vísu, en þó svo, að þeir, sem dragnótaveiðarnar stunduðu, höfðu af því sitt uppihald. (PO: Það stendur hvergi). Það stendur þar, að það hafi hafzt „talsvert“ upp úr þeim. (PO: Það stendur þar, að það hafi hafzt lítið upp, en verið mikill tilkostnaður). Ég get lesið upp úr Ægi eins og aðrir.

Hv. þm. talaði um, að það væru mótsagnir í því, sem Ægir segir um þetta mál. (PO: Það eru alltaf mótsagnir hjá Fiskifélaginu). En það er þó áreiðanlegt, að að þessari tilslökun varð mikil hjálp. Við meiru er ekki að búast nú, þegar allar vörur okkar hafa fallið mjög í verði. Yfirleitt eru atvinnuvegirnir svo staddir, að gott þykir, ef menn geta af þeim lifað, þó ekki sé um ágóða að ræða.

Út af ræðu hv. þm. Borgf. þarf ég ekki að segja margt. Það er ekki að fara í bága við vilja þingsins, þó stj. geri það, sem fyrir liggja áskoranir um frá meiri hl. beggja deilda. Hitt er rétt, að vilji þingsins í þessu máli hefir ekki komið fram á hinn fyrirskipaða hátt. Og ég get gjarnan viðurkennt, að sú aðferð, sem hér var viðhöfð, á ekki að tíðkast eða vera almenn. En það, sem reið baggamuninn hjá mér, var það, að mér fannst ekki hægt, í slíku árferði sem nú er, að taka frá sjómönnum þessa leið til atvinnu, sem er þó fullkomlega lögleg.

Það yrði of langt mál að fara út í það nú, hvort það er skemmdarverk eða ekki gagnvart fiskistofninum að leyfa kolaveiðar í landhelgi á þeim tíma, sem frv. gerir ráð fyrir. Um það hefir áður verið svo mikið deilt hér á þingi, að ég býst ekki við, að úr því yrði fremur skorið nú.

Ég læt hér því staðar numið, en ef ég fyndi gott „citat“ í Ægi, skal ég lofa hv. þm. N.-Þ. og Borgf. að heyra það.