14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og kunnugt er, voru gefin út bráðabirgðalög um breyt. á l. um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi 6. júlí síðastl., og er shlj. frv. hér lagt fyrir Alþingi til staðfestingar, samkv. stjskr. Sjútvn., sem áður hefir yfirleitt verið því fylgjandi, að sú breyt. væri gerð, sem í bráðabirgðalögunum og frv. felst, hefir sömu afstöðu enn í þessu máli. Að vísu vildu tveir af nm. skrifa undir nál. með fvrirvara. En mér vitanlega hefir ekkert verulegt komið fram í sambandi við dragnótaveiðarnar á síðastl. sumri, sem breytt geti afstöðu n. í þessu máli frá því í fyrra. Þessar veiðar báru að vísu ekki eins góðan árangur eins og vænta hefði mátt, ef allt hefði leikið í lyndi. En því munu einkum hafa valdið örðugleikar á að koma vörunni á markað. Dragnótaveiðarnar eru nokkuð nýr atvinnuvegur hér á landi, og e. t. v. er hann þannig lagaður, sem verr á við aflabrögð okkar Íslendinga heldur en margar aðrar veiðiaðferðir. T. d. krefst hann fremur þolinmæði heldur en áhlaupa. En þetta lærist okkur með tímanum, eins og öðrum þjóðum, sem svona veiðar stunda, og eflaust verður þessi veiðiskapur þjóð okkar til meiri hagsældar í framíiðinni heldur en nú er. Við í sjútvn. höfum aldrei haldið öðru fram en að kolaveiðarnar gætu verið mönnum til stuðnings sem hjálparatvinna, þegar öðrum veiðiskap sleppir. En það álítum við, að hann geti orðið til frambúðar. Þess vegna leggjum við til, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ.

Ég vil geta þess, að í bráðabirgðalögunum var gert ráð fyrir, að gefin yrði út reglugerð, þar sem m. a. væri ákveðin möskvastærð netjanna. Þetta mun vera mjög þýðingarmikið atriði, a. m. k. í augum þeirra manna, sem álíta dragnótaveiðarnar hættulegar fyrir það, að þær drepi of mikið af ungviði. Og formælendur kolaveiðanna hafa heldur ekki þá aðstöðu til málsins, að þeir vilji láta drepa smákolann að óþörfu. Nú vitum við í sjútvn. ekki til, að þessi reglugerð hafi verið birt ennþá. Og þar sem n. álítur til bóta að setja föst ákvæði um möskvastærð netjanna, minnist hún á það í áliti sínu, að reglugerðina ætti að birta sem fyrst, ef bráðabirgðalögin annars ná staðfestingu þingsins. En það tel ég alveg víst að verði, þar sem þau eru gefin út samkv. áskorun frá meiri hl. þingsins, eftir að frv. í sömu átt var fyrir óhapp fellt í þessari hv. d.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Málið hefir áður verið þrautrætt hér frá báðum hliðum, svo ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það nú.