06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (3094)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég þarf mjög litlu að bæta við það, sem sagt er í nál. minni hl. Þar eru færð, að ég hygg, allskýr rök fyrir því, að innflutningshafta er ekki þörf nú, og líka að því, að þau eru að sumu leyti skaðleg. Það væri nú sök sér, ef hér væri algerlega um óþarfavörur að ræða, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði. En það er langt frá því, að heftur sé innflutningur á algerlega óþörfum vörum aðeins. Það er öllum vitanlegt, að heftur er innflutningur á mörgum mjög nauðsynlegum varningi. Og þegar svo er komið, þá er illt að greina, hvað er meira og hvað er minna nauðsynlegt. Ég veit það t. d. af viðtali við marga menn, að bannaður er innflutningur á vefnaðarvöru, sem er nauðsynleg og ódýrari og betri en annar varningur, sem þó er leyft að flytja.

Annars er aðalatriðið í þessu máli, að það er ekki hætt við neinum stórauknum innflutningi og þá allra sízt af óþarfavöru; verzlanir munu yfirleitt ekki á þessum tímum flytja annað en það, sem fólki er nokkurn veginn nauðsyn að ná i. Að flytja inn vörur, sem eru ónauðsynlegar, til að liggja með þær svo og svo lengi, það get ég ekki hugsað mér, að nokkur verzlandi maður sé svo fávís að gera.

Eins og ég gat um áðan, þá er æðimikill vandi að kveða á um, hvort vara sé meira eða minna nauðsynleg. Sumar dýrar vefnaðarvörur, sem álitnar eru óþarfar, er hagkvæmara að kaupa, sökum endingar, en ódýrari vörur. Á þann hátt verða höftin aðeins til að spilla hagkvæmri verzlun. Hitt er og vitanlegt, að margar hátollavörur eru dýrustu vörurnar, sérstaklega vefnaðarvörur, og gefa ríkissjóði mestar tekjur, jafnframt því að vera hentugastar kaupandanum, þegar til lengdar lætur.

Ekki er þess að dyljast, að það hefir langmest verið heftur innflutningur á þeim vörum, sem þeir menn kaupa, sem ekki eiga fyrir fjölskyldu að sjá, en hafa nóg peningaráð. Og það hefir reynzt erfitt að ná tekjum af þessum mönnum á annan hátt en með tollum. Það hefir sýnt sig, að það hafa oft og tíðum ekki náðst af þeim tiltölulega lág útsvör, vegna þess að þeir eyddu aurum sínum jafnóðum. Eina leiðin til að ná af þessum mönnum tilsvarandi tekjum við það, sem aðrir borgarar greiða, er að þeir kaupi tollskyldar vörur.

Ég er líka þeirrar skoðunar, að gjaldeyrisn. geti haft það eftirlit, sem þarf, og að það sé því bara óþarfa kostnaður að hafa tvær n. við þetta starf.

Það er ekki fleira, sem ég tel ástæðu til að taka fram að svo stöddu, en legg til, að frv. verði samþ.