27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér eru það mikil vonbrigði, að ekki hefir komið fram brtt. um að lækka skattstigann frá því, sem hann er nú í 2. gr. frv. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. þessa máls, hve óhæfilega hár þessi skattstigi væri, jafnvel þó honum væri einungis ætlað að gilda um eitt ár, eins og hæstv. forsrh. sagði við 2. umr. Enn meiri vonbrigði urðu mér þó, er hann bætti því við nú, að þessi skattstigi myndi aldrei komast aftur í gamla horfið, heldur myndi sú reynsla, sem fengist þetta ár, verða notuð sem grundvöllur undir ákvörðun skattstigans í framtíðinni. En ekkert loforð vildi hann gefa um það, að þessi hækkun yrði ekki notuð til frambúðar sem tekjustofn ríkissjóðs.

Nú ber á það að líta, að sé þessi leið farin, þá er verið að taka fyrir sig fram þær tekjur, sem annars mundu koma í ríkissjóð á næstu árum. Þetta dregur því úr tekjum ríkissjóðs í framtíðinni af þessum tekjustofni, og er þó illt að leggja skatta svo á, að þeir dragi úr tekjuvonum síðari ára.

Í grg. frv. er gefið í skyn, að óhætt muni vera að hækka tekju- og eignarskattinn í þetta sinn, vegna þess hve framleiðslufyrirtækin, sjávarútvegur og landbúnaður, beri lítinn tekjuskatt fyrir síðastl. ár. En þess ber að gæta, að til eru ýms önnur atvinnufyrirtæki, sem gengið hefir sæmilega með, og þau verða hart úti. Síðan þetta frv. var borið fram fyrst, hafa í Danmörku, sem er í ýmsu okkar fyrirmynd, gerzt atburðir, sem vert er að athuga. Þar eru það sócíalistar ásamt radikölum, sem stjórna. Þeir þurfa sem fleiri ríki á tekjuauka að halda vegna kreppunnar. En þótt ætla mætti, að þeir væru sízt kröfuvægari en aðrir flokkar til beinna skatta, þá hafa þeir þó látið sér nægja að hækka tekjuskattinn um 40%., en jafnframt hækkað, ýmsa aðra tekjuliði. En hér á að hækka tekjuskattinn um 100% á þeim, sem hafa 922 kr. tekjuskatt og þar yfir. Svo miklu lengra er gengið hér.

Ég heyrði hæstv. forsrh. mæla svo í gærkvöldi, sem líka er rétt, að þótt erfitt væri ástandið í voru landi, þá væri það þó ekki eins hastarlegt og víða annarsstaðar, þar á meðal í nágrannalöndum okkar. Þetta er rétt. En þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort af því megi ekki draga þá ályktun, að ekki sé þörf á að gera radikalari till. hér en í nágrannalöndunum. Og sérstaklega vil ég þó spyrja hann um það, hvort hann geti ekki fallizt á að færa þennan viðbótar- tekju- og eignarskatt niður í 40%. - Það er áreiðanlegt, að ef ekki hefir verið talið viturlegt í Danmörku að fara lengra, þá er það enn siður hér. Ástandið er þó sízt lakara hér og því minni þörf á að fara svo djúpt niður í vasa skattborgaranna sem lagt er til í þessu frv. En það tjáir líklega ekki að deila við dómarann. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. komi fram hverju því, er hann vill, hér í þessari deild. En það mun vera rétt á litið, sem frá hefir verið skýrt í blöðum, að þau tilfelli finnist, þar sem tekjurnar nægja ekki til að greiða þá beinu skatta, sem á eru lagðir til bæjar- og ríkisþarfa á yfirstandandi ári. Sjá allir, að slíkt er of langt gengið. Ég skal aftur undirstrika það, að þessi skattur er einnig óheppilegur fyrir ríkissjóð, þar sem hann skerðir svo mjög tekjustofna næstu ára. Svo hár skattur veldur og skattborgurunum fjárhagslegra erfiðleika. Er því að mínu áliti afaróheppilegt að taka svona háan beinan skatt inn á einu ári.

Það voru mér vonbrigði, að hæstv. forsrh. óskaði eftir því, að frv. gengi fram óbreytt, að undantekinni brtt. á þskj. 816, sem er smávægileg. Ég verð að segja, að svo stórkostleg gjaldahækkun á alla hærri gjaldendur stofnar bæjarsjóði hér í vandræði. Ég álít, að þetta frv. stefni fjármálum Rvíkur í hreinan voða og jafnframt fjármálum ríkisins í framtíðinni, verði það ekki lagfært frá því, sem nú er.