05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess fyrst, að kreppun. hefir haft daglega fundi um þetta mál og lagt mikla vinnu í afgreiðslu þess. Ég vil einnig geta þess, að n. hefir geymt sér atriði, er hún ætlar sér að taka til nánari athugunar fyrir 3. umr. Svo er t. d. um stjórn kreppulánasjóðs. Ég gat þess við 1. umr., að gerð mundi verða nánari grein fyrir því, hvað það mundi kosta ríkissjóðinn, ef lánum yrði létt af bændum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Til þess að upplýsa þetta atriði hefir verið framkvæmd mikil vinna og skýrsla gerð um það, en þó er eigi hægt að segja um það til fulls, því n. þykir sjálfsagt að breyta fyrsta ákvæði 23. gr. frv., en þar er svo kveðið á, að ársgjöld til kreppusjóðs skuli fyrst endurgreiðast ríkissjóði frá 1. jan. 1941. Hugsun bændan., sem orðaði þá gr., var sú, að mikill kostnaður mundi falla á framlag ríkissjóðs í tilefni af því að geta haft peninga reiðubúna, sem taka þyrfti að láni og kostaði því mikið vaxtatap, ásamt kostnaði við rekstur sjóðsins. Var því þessi tími, 1. jan. 1941, tiltekinn nokkuð af handahófi og með það fyrir augum, að kreppulánasjóður yrði þeim mun öflugri og því færari að standa undir því starfi, sem honum er ætlað. En í þessu sambandi er vert að minna á það, að í þessu frv. er sjóðurinn ráðgerður stærri en upphaflega var lagt til í frv. bændan. Er þegar af þeirri ástæðu vert að taka þetta atriði til nýrrar athugunar.

Ég hefi hér fyrir mér töflu er sýnir, hver útgjöld ríkissjóðs til kreppulánasjóðs verða í þeim tveim tilfellum, að ársgjöldin renni í ríkissjóð frá 1. jan. 1941 eða frá 1. jan. 1935. Nær sú skýrsla til ársins 1973 og er miðað við þann tíma. Á árinu 1940, síðasta árinu, sem árgjöldin eiga ekki að renna til ríkissjóðs samkv. frv., er ríkissjóður búinn að leggja út 5883700 kr. En ef árgjöldin eru látin byrja að renna í ríkisjóð 1935, þá er framlag ríkissjóðs árið 1940 3142660 kr. Mismunurinn er þá um 23/4 millj. kr., og er augljóst, að þetta er meira en þarf til að standast kostnað þeirrar lántöku, er. leiðir af 1. gr. frv. N. fékk þessa skýrslu svo seint, að ekki vannst tími til að athuga þetta nú. Mun hún því gera það fyrir 3. umr. Ég geri ráð fyrir, að n. muni fallast á það, að færa þetta termin eitthvað aftur. Verður þá upphæðin eitthvað á milli þeirra tveggja, er ég nefndi. Tel ég, að ekki þurfi meira um þetta atriði að ræða, fyrr en till. liggja fyrir um það frá n.

Þá vil ég gefa nokkurt yfirlit um það, að hve miklu leyti þetta léttir á bændastéttinni skuldum hennar. Eftir 1. og 3. gr. frv. er áætlað, að sú upphæð, er myndar kreppulánasjóð, nemi um 10 millj. kr. Er það sú upphæð, sem sjóðurinn kemur til með að disponera yfir. Gjöld úr honum samkv. 24. gr., til að greiða vexti og afborganir af fasteignaveðslánum bænda, má áætla 2½ millj. kr. Eftir verða þá um 7½ millj. kr. til kreppulána. Útkoman verður sú, ef vaxtabyrðar eru lækkaðar um 120 þús. kr. árl.

Þá er annar liðurinn sá, að ef samið er um skuldir bænda í 4. flokki, þá er ætlazt til, að kreditorarnir gefi eftir það, sem tapað er af skuldunum. Nemur sú upphæð um 2½ millj. kr., sem þá afskrifast algerlega. Loks er þá hvað kreppulánin skulu vera stór og afskrift gegn þeim mikil. Um það er vitanlega rennt blint í sjóinn, hver hlutföll þar skuli vera. N. hefir talað um 20% í sínum útreikningum. En það má tala um meira. Það má orða, að tekið verði meðaltal, sem þá er 75%. Kreditorarnir gefa þá eftir 25%, og miðað við 7½ millj. kr. verkar það sem 9½ millj. fyrir bændurna. Þetta er í stórum dráttum sú niðurstaða, sem hægt er að komast að eins og málið liggur fyrir nú. Annars geri ég ráð fyrir, að hægt verði að gefa fyllri og gleggri mynd af þessu, þegar n. er búin að gera sínar endanlegu tillögur í málinu, en það verður ekki fyrr en við 3 umr.

Þá hefir verið útbýtt 16 brtt. frá kreppun. á þskj. 538. Eru það mest leiðréttingar, sem ekki hafa bein áhrif á aðalefni málsins. Ég mun því verða frekar stuttorður um þær.

Stærsta brtt., sem n. ber fram við frv., er sú, að felldar verði niður 2. og 25. gr. þess. Þær tvær gr. heyra saman, og eru í raun og veru sjálfstæðar, því gera má ráð fyrir, að tekjuöflunin samkv. 2. gr. gangi til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem gert er ráð fyrir í 25. gr. N. lítur því svo á, að þetta atriði fari betur að koma fram í sérstöku frv. Það tengist við þetta frv., einungis að því leyti, að gert er ráð fyrir, að kostnaður sá, er umræðir í 25. gr., greiðist úr kreppulánasjóði.

Það hefir verið talað um það af ýmsum, hvort ekki gæti verið rétt að sameina öll þessi kreppufrv. í eitt frv. í mörgum köflum. Hvort það telst hagkvæmt eða framkvæmanlegt, verður athugað fyrir 3. umr. En um hitt verður ekki deilt, að ákvæði 25. gr. frv. þessa eru óviðkomandi sjálfum kreppulánasjóðnum. Annars skal ég geta þess, að kreppun. hefir skipað undirn. til þess að fara gegnum og athuga ákvæði 25. gr.

Hinar brtt. n. eru flestar leiðréttingar. Önnur brtt. er t. d. aðeins leiðrétting, sem leiðir af 1. brtt.

Brtt. við 5. gr. er sú fyrst og fremst, að n. leggur til, að niður falli það ákvæði greinarinnar, að umsækjandi úr kreppulánasjóði skuli hafa stundað landbúnað sem aðalatvinnuveg í 3 undanfarin ár, til þess að geta fengið lán úr sjóðnum. Það er nefnilega algengt, að sonur taki við búi eftir föður sinn, og er það þá í raun og veru sami búreksturinn áfram, enda þótt mannaskipti hafi orðið. Verður stjórn sjóðsins því að taka ákvarðanir um réttmæti lánveitinganna í hvert skipti, þegar vafi getur verið á, hvort umsækjandi hefi rétt til þess að fá lán úr sjóðnum eða ekki.

Þá er 4. brtt. n. einnig við 5. gr. frv. Í 2. lið 5. gr. er það sett sem skilyrði fyrir lánveitingum úr kreppulánasjóði, að umsækjandi hafi þann bústofn, sem að áliti sjóðsstjórnarinnar sé nægilegur til framfærslu fjölskyldu hans. Hér leggur n. til, að bætt sé við orðunum „Samhliða öðrum tekjuvonum“. Það eru nefnilega mörg tilfelli, þar sem bændur hafa dálítinn smábátaútveg samhliða búskapnum. Sumir fara í „verið“, sem kallað er, til þess að afla sér dálítilla tekna til styrktar búrekstri sínum, aðrir í vegavinnu o. s. frv. Til slíkra tekna vill n. að tekið sé tillit, þegar kveða skal á um það, hvort hlutaðeigandi umsækjandi muni geta framfært fjölskyldu sína.

Fimmta brtt. er aðeins leiðrétting. Sjötta brtt. hljóðar um það, að sýslunefnd skuli ákveða, hver skuli vera þóknun til nefndarmanna fyrir störf þeirra, og að sá kostnaður, sem verður fram yfir 5 kr. á dag fyrir hvern nefndarmann, skuli greiðast úr sýslusjóði. Að öðru leyti liggur þetta svo skýrt fyrir, að ekki er ástæða til þess að fjölyrða um það.

Sjötta brtt. er við 7. gr. frv. Þar vill n. hafa skýrara orðalag, og það kom jafnvel til orða að bæta þar meiru inn í en gert var. Það er vitanlegt, að þau tilfelli eru mörg, þegar búi er skipt, að fram komi margskonar kröfur, sem undir öðrum tilfellum koma ekki fram. T. d. getur barn, sem lengi hefir unnið hjá foreldrum sínum eftir að það var orðið fullþroska, komið með réttmætar kaupkröfur. Þau tilfellin eru líka mörg, að fram geti komið óréttmætar kröfur. Fyrir þetta getur oft verið erfitt að komast. N. leggur því til, að í skrá þeirri yfir lánardrottna lánbeiðanda, sem um ræðir í 2. lið 7. gr., skuli einnig greind greiðslukjör skuldanna.

Áttunda brtt. er og við 7. gr. Er það lítilsháttar viðbót til skýringar 8. lið greinarinnar, þar sem lagt er til, að hlunnindi jarða séu tekin með, þegar héraðsnefndir eiga að segja um það, hversu háum greiðslum vaxta og afborgana lánbeiðandi geti staðið undir, samhliða lífvænlegum búrekstri.

Níunda brtt. er og líka skýring; að sjóðstjórnin skuli sannprófa, hvort framtalið sé rétt, þegar hún hefir fengið tillögur héraðsnefnda og framtal lánbeiðanda í hendur. Það getur nefnilega komið fyrir, að sjóðstjórnin viti um kröfur á lánbeiðanda, sem ekki hafi komið fram við framtalið. Því þótti rétt að setja þetta ákvæði.

Tíunda og ellefta brtt. n. eru aðeins leiðréttingar, sem stafa af niðurfellingu 2. gr. frv.

Tólfta brtt. er breyt. á orðalagi, til þess að sú hugsun, sem upphaflega vakti fyrir þeim, sem frv. sömdu, komi skýrara fram.

Þrettánda brtt. er við 17. gr. Hún er sömuleiðis skýring á því, sem fyrir þeim mönnum vakti, sem upphaflega sömdu frv. Það er ekki tilætlunin að hindra menn í því að reka eðlilegan atvinnurekstur, að menn megi ekki hafa útborganir vegna afurðasölu sinnar á þessum tíma, heldur aðeins það, að þeir megi ekki inna af hendi óeðlilegar útborganir eftir að þeir hafa sent lánbeiðni til sjóðsstjórnarinnar þar til samningaumleitunum er endanlega lokið. Rýmkun á þessu ákvæði frv. er sett eftir bendingu háttv. þm. Seyðf.

Fjórtánda brtt. er aðeins viðaukatill., sem inniheldur samskonar ákvæði og sett var inn í gjaldþrotaskiptalögin.

Fimmtánda brtt. er aðeins orðabreyt., sem skýrir sig sjálf.

Þá hefir n. ekki borið fram fleiri brtt. við þessa umr. málsins. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ennþá eru ýms atriði þessa máls, sem hún á eftir að athuga og kemur með til 3. umr. Sum þeirra eru mjög þýðingarmikil, og væri því æskilegt að umr. um þau drægjust ekki inn í umr. nú.

Brtt. þær, sem fram hafa komið við frv., hefir n. ekki tekið afstöðu ennþá. Mun ég því ekkert um þær segja fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim.