27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

167. mál, kreppulánasjóð

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 817 við 3. gr. frv. Ég geri ráð fyrir því, að frv. eigi greiða leið gegnum þingið, þó að ég fyrir mitt leyti sé í vafa um það, að hér sé farið inn á rétta braut. Mér finnst réttara að gera verksvið þessarar starfsemi heldur þrengra en víðtækara, og held ég, að þessi brtt. verði í þá átt að takmarka möguleika þess, að hægt sé að nota skuldabréf kreppulánasjóðs sem greiðslueyri upp í skuldir. Held ég, að það sé heppilegri aðferð í þessu máli að koma fram nauðasamningum um skuldir manna, er þeir geta ekki risið undir, og láta töpin lenda á lánveitanda, en ekki ríkissjóði eins og þetta frv. miðar að. Er samkv. þessari löggjöf stór hætta á því, að mikill hluti tapanna lendi á ríkissjóði. Skal ég þó ekki fara frekar út í þá sálma, því að það mun vera tilgangslaust, en mun aðeins gera grein fyrir efni till. minnar. Í stað orðalagsins í 3. gr., sem er þannig: „Skuldabréf kreppulánasjóðs skulu með nafnverði vera gildur gjaldeyrir til greiðslu á skuldum eldri en frá ...“ komi: „Skuldabréf kreppulánasjóðs skulu með nafnverði vera gildur gjaldeyrir til greiðslu á eigin skuldum þeirra manna, er lán fá úr sjóðnum, eldri en frá o. s. frv.“ Eftir orðalagi frv. geta þessi skuldabréf verið gildur gjaldeyrir til greiðslu á skuldum ekki aðeins bænda, heldur allra manna á landinu. Nær það auðvitað engri átt. Verður auðvitað að takmarka þetta við þá menn eina, sem hjálpa á, sem sé bændur. — Önnur breyt., sem í þessu felst, er sú, að þessi skuldabréf skuli ekki vera gildur gjaldeyrir til greiðslu nema til fyrsta lánardrottins. Þeim fyrsta manni sé gert að taka þessi skuldabréf með nafnverði, en svo verði sú keðja ekki lengri. Má gera ráð fyrir, að þetta verki að nokkru sem hemill á starfsemi þessa, en það er þó nauðsynlegur varnagli.

Það er gert of mikið úr hættunni við það, að þeir menn, sem hér ræðir um, verði látnir sæta sömu forlögum og þeir, sem við sjávarsíðuna búa. Þeir eru látnir deyja drottni sínum. Það er ekki verið að gera till. um lán úr ríkissjóði til þess að greiða skuldir þeirra, heldur eru þeir skammaðir fyrir að hafa tekið þessi lán. Ég ætlast ekki til þess, að bændur séu svívirtir fyrir að hafa tekið lán, en það er hinsvegar sjálfsagt, að með skuldir þeirra sé farið eins og annara manna. Væri þá hag þeirra eflaust betur borgið, og myndu lánveitendur þá líka fara varlegar í það að láta þeim meira en þeir geta staðið í skilum með.

Verði þessi till. ekki samþ., þá get ég ekki greitt atkv. með frv.