19.05.1933
Efri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (3532)

123. mál, lýðskóla með skylduvinnu nemenda

Halldór Steinsson:

Ég skil ekki óvild hæstv. ráðh. gegn þessu frv. Hann og aðrir viðurkenna, að hugmyndin sé góð, og þó eru þeir hinir sömu með allskonar útúrdúra til þess að koma henni fyrir kattarnef. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri ástæða til þess að samþ. Þessa rökstuddu dagskrá, þar sem þessi þáltill. lægi nú fyrir Nd. En það eru einmitt líkur fyrir því, að sú þáltill. verði samþ., og þó að hún næði ekki samþ., þá er samt hart að heyra úr ráðh.stóli amazt við því, að einhverju máli sé vísað til stj. til athugunar.“

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að með þessu yrði áþján leidd yfir unglinga landsins. Get ég ekki verið honum sammála um það. Annars er það undarlegt, að flestir, sem taka til máls um þetta, viðurkenna, að hugmyndin sé góð, en vilja þó reyna að koma henni fyrir kattarnef.