29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (3541)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það var rétt, að þegar ég talaði um milljón króna höfuðstól ræktunarsjóðs, átti ég við framlag ríkissjóðs. Ég skal ekki fara út í deilur um það, hvort rétt sé að fella niður framlagið. En hitt vil ég leggja áherzlu á, að ósæmilegt sé að hafa landbúnaðarvörur sem skattstofn.

Hitt er annað mál, að ég tel eðlilegra, að staðið verði við samningana um framlagið, en mér finnst, að komið gæti til greina, ef hv. 1. landsk. tæki brtt. sína aftur, að fresta þessu framlagi ríkissjóðs um stund.

Ég vil ekki mótmæla hv. 1. þm. Reykv. um það, að útflutningsgjald á sjávarafurðum sé ekki skemmtilegur skattstofn heldur, en markaðurinn er þó ekki lokaður fyrir þeim vörum og verðið ekki sem verst, og heldur batnandi.

Í öðru lagi er það eðlilegt fyrir það, að sjávarútvegurinn hefir að sumu leyti betri aðstöðu en landbúnaðurinn, þar sem sjávarútvegurinn byggist á rányrkju. Hann tekur fiskinn í hafinu án þess að kosta nokkru til þess að ala hann upp handa sér, en landbúnaðurinn þarf aftur á móti að afborga og standa undir 50 millj. kr. höfuðstóli í hinu nýtilega landi. Þess vegna er það ekki hyggilegt fyrir þá, sem vilja afnema útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, að samþ. brtt. 182. Hitt er annað mál, að hægt væri að fresta um eitt ár styrkveitingu til ræktunarsjóðsins, ef mönnum sýndist það svara fyrirhöfn.