22.03.1933
Efri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3548)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Brtt. mín fer fram á það, að 2. gr. frv. verði breytt þannig, að hún hljóði aðeins um, að niður falli l. frá 1925 um hækkun útflutningsgjalds. Er óþarft að taka þetta fram um l. frá 1921, því að þau falla úr gildi af sjálfu sér með þessari lagasetningu, að því er snertir landbúnaðarafurðir. Ákvæði 1. gr. tekur af allan vafa um það, að þau eru úr gildi fallin. En jafnframt fer brtt. fram á nýtt atriði, sem sé það, að l. frá 1925 falli ekki einasta úr gildi að því er snertir landbúnaðarafurðir, heldur sé líka felld úr gildi hækkun á útflutningsgjaldi af öðrum afurðum. Vil ég vekja athygli á því, að öll sanngirni mælir með því, að ef létt er hækkun útflutningsgjaldsins af landbúnaðarafurðum, þá nái það einnig til sjávarafurða. Hér er um það eitt að ræða, að niður falli hækkun sú á útflutningsgjaldi, sem gerð var 1925. Í frv. er farið fram á það, að allt útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum falli niður, og yrði þá að sjá ræktunarsjóði fyrir því fé, er hann á að fá, af öðrum tekjum ríkisins. Mælir þá sama sanngirni með því, að ríkinu sé séð fyrir því fé, er til verður að kosta, er þessar tekjur falla niður.

Ég veit, að mönnum mun verða það ljóst, að ástæður sjávarútvegsins, ekki síður en landbúnaðarins, eru þannig, að hann þarf aðstoðar við. Reykjavík hefir gert mikið til þess að létta gjöldum af sjávarútveginum, t. d. með því að lækka til muna hafnargjöld. Færi vel á því, að ríkið veitti slíka aðstoð líka. Geri ég ráð fyrir því, samkv. áætlun fjárl. um þessar tekjur, að verið geti að ræða um allt að 250 þús. kr., sem ríkissjóður missir við með lækkun útflutningsgjaldsins. Yrði þá að sjá honum fyrir öðrum tekjum til að bæta þetta upp, ef það er ekki hægt með auknum sparnaði, sem ég held þó, að sé fær leið. Vænti ég svo þess, að hv. d. samþ. till.