29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (3560)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins í sambandi við brtt. hv. 1. þm. Reykv. rifja upp þau rök, sem ég hefi áður fært fram í þessu máli. Eftir lögunum frá 1925 er greinilegur eðlismunur á útflutningsgjaldinu af þessum tveimur tegundum framleiðsluvara, þar sem annarsvegar á að verja tekjunum til þess að standast varanlegan kostnað, sem ekki er hægt að gera ráð fyrir að falli niður, þar sem er hin dýra strandgæzla, er eingöngu er framkvæmd vegna sjávarútvegsins, sem á þess vegna að greiða skatt til hennar. Hinsvegar á útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum að renna til ræktunarsjóðs, þangað til hann er búinn að fá vissa, ákveðna upphæð. Ef haldið er svo áfram með þennan skatt af landbúnaðarafurðum, verður útkoman sú, að eftir nokkur ár fer landbúnaðurinn að borga í hinn varanlega kostnað strandgæzlunnar. Á það er ennfremur að líta, eins og hv. 3. landsk. tók fram, að með því að taka útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum er mikið ranglæti framið, þar sem það nær ekki til nema nokkurs hluta þeirra manna, sem framleiða landbúnaðarafurðir, og það einmitt þess hluta bænda, sem langverst fer út úr kreppunni. Það getur því varla verið alvara hv. 3. landsk., úr því hann skilur þennan órétt, að láta sér á sama standa, þó hann haldi áfram. Ef þörf er á því að leggja skatt á bændur til þess að styrkja ræktunarframkvæmdir, þá á það að vera almennur skattur, en ég hygg, að hv. 3. landsk. fái bændur aldrei til að líta svo á, að ranglátur skattur sé lítils virði.