04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Ég býst við því, að hv. dm. hafi veitt því eftirtekt, að hv. 1. landsk. hefir ekki séð sér fært að skýra frá því, hvers vegna hann treysti sér að leggja út í virkjunina 1931, en treystir sér ekki til þess nú. Þessi „atvinnulausi verkfræðingur“ virðist vera eina skýringin á þeim till., sem hann hefir komið fram með. Sömuleiðis býst ég ekki við, að það sé nein tilviljun, að hv. þm. vill ekki minnast á, hvernig stóð á því, að það þurfti endilega að virkja Elliðaárnar, þegar það var dýrast og hvers vegna hefir tekizt að gera rafmagnið í Rvík óeðlilega dýrt. Ennfremur hefir ekki komið fram nein þolanleg skýring á því, hvers vegna hann heimtar helmingi meiri ríkisábyrgð en þörf virðist vera fyrir. Þetta eru ekkert annað en vífilengjur, sem hv. þm. hefir sagt í þessu máli. Hv. 6. landsk. var að fimbulfamba í sambandi við þessa virkjun, að það ætti að bæta atvinnuna og hjálpa fjarlægum landshlutum, en það virðist eins og þm. hafi ekki fylgzt með því, að einmitt „forgöngumennirnir“ vita ekki, hvernig þeir vilja taka á þessu máli. Þeir vilja fá stærri ábyrgð en þeir þurfa, og geyma hana svo til betri tíma; a. m. k. er það fullvíst, að þessir aðstandendur sjö milljónanna kæra sig ekkert um, að byrjað sé á neinni virkjun í sumar. Hv. þm. hefir þess vegna játað með þögninni sinn vanmátt til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins áður, kröfunum um ábyrgð þá og kröfunum um ábyrgð nú, og ráðaleysinu, sem enn er í sambandi við þetta mál. Það er mjög óheppilegt fyrir þm. að reyna að gera lítið úr þeim þýzka verkfræðingi, sem hér á hlut að máli, með því að það er mála sannast, að það eru hans till., sem hafa snúið við öllum bollaleggingum þm., svo að hann og hans samherjar þora ekki að halda áfram með sín plön. Nú stendur þannig á, að í vetur, þegar Knud Zimsen sagði af sér, leit út fyrir, að það myndi verða samkomulag í bæjarstj. milli nokkurs hluta Sjálfstfl., sócíalista og framsóknarmanna um bráðabirgðastj. á bænum, til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Þá vita allir, hvað gerðist, að hv. þm., sem var atvinnulaus þá, eins og þessi þýzki verkfræðingur, bauð sig fram til þess að vera borgarstjóri í eitt ár í því einu skyni að hindra það, að Sogið yrði virkjað í sumar. Það var víst, að þessi virkjun hefði verið knúin áfram, ef hv. þm. hefði ekki orðið borgarstjóri, og það er sennilega bezt, til þess að koma ekki of miklu óorði á pólitískt líf hér í bænum, að fara ekki frekar út í það, hvernig þessi hv. þm. fór að hindra það, að Sogsvirkjunin yrði framkvæmd. Þessi sorglegi atburður gerðist, þegar verið var að hrinda virkjun Sogsins í framkvæmd eftir ódýrara plani en áður lá fyrir, og sú synd er öll á ábyrgð þess flokks, sem hefir kosið hv. 1. landsk. hér inn á þingið. (JónÞ: Þar með h/f Sogsvirkjunar). H/f Sogsvirkjun hefir engar aktíur í mér og ég engar aktíur í neinu rafmagnsfyrirtæki. Þess vegna get ég verið óháður gagnvart mönnum eins og hv. 1. landsk. og hans samherjum, sem braska á rafmagnsvirkjunum. Ég þarf ekki að játa mitt atkv. miðast við það, að það þurfi að gera stór mannvirki, af því að ég geti komið til með að geta selt efni, sement eða annað í bygginguna. Þess vegna eru öll þessi ólæti í hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. um þetta frv. eingöngu til þess að draga málið. Þeir vita, að þingið getur ekki verið svo frámunalega heimskt að veita þessa ábyrgð, þegar það sést, að þessir menn eru aðeins að lokka fólkið og láta eins og þeir vilji gera eitthvað í þessu máli, a. m. k. hv. 1. landsk., en ég vil ekki segja það um hinn, því hann er ekki eins ákveðinn í að tefja framkvæmdir. Ég vil fyrst og fremst leiðrétta það, sem hv. þm. (JónÞ) sagði viðvíkjandi þeim lögfræðingi hér í bænum, Sigurði Jónassyni, sem í mörg ár hefir beitt sér mest fyrir því að hrinda Sogsmálinu áfram. Það er sannanlegt, að hann hefir myndað félag til þess að hrinda þessu máli áfram, m. a. látið gera rannsókn á virkjunarmöguleikum í Soginu, og honum á málið og bærinn fyrst og fremst að þakka, að virkjunin verður nokkrum millj. kr. ódýrari en annars hefði orðið. Það er fullvíst, að þessi maður er engan veginn að hugsa um það, nema út úr neyð, að félagið virki. Hann bauð það í vetur af því, að það leit út fyrir, að bærinn vildi það ekki. Hann vildi fyrst og fremst, að bærinn virkjaði og landið hjálpaði til þess. Það er þess vegna ómakleg aðdróttun að þessum manni frá hv. 1. landsk. um hlutafélagabrask hans, því að hann hefir aðeins notað hlutafélagið til þess að hrinda málinu áfram, þannig að það geti orðið bænum að liði, og það hefir alltaf verið aðalatriðið fyrir honum, að það væri bærinn og því næst landið, sem virkjaði. — Ég álít, að ekki geti komið til mála að veita nema þá minnstu ábyrgð, sem hægt er að komast af með til þess að koma fyrirtækinu þolanlega í framkvæmd.

Þá reyndi hv. 1. landsk. að tortryggja þennan þýzka verkfræðing, sem hefir snúið málinu við í höndunum á honum og hans fólki. Hv. þm. sagði m. a., að þessi maður hefði verið atvinnulaus. Þessi maður hefir verið starfsmaður hjá einu stærsta rafmagnsfyrirtæki í heiminum, sem hefir með höndum stórar virkjanir. Ástæðan til þess, að hann var ekki mjög upptekinn, þegar hann kom heim, var sú, að eins og allir vita, hafa verið stórkostlegir örðugleikar í Þýzkalandi, ekki síður hjá útflytjendum og stóriðnaðarfyrirtækjum en öðrum. Þetta var þess vegna nokkurskonar millibilsástand hjá þessum manni. Annars álít ég, að hv. 1. landsk. ætti ekki að tala mikið um atvinnuleysi verkfræðinganna. Það er kunnugt, að haustið 1927 var hann atvinnulaus. Hann bauð þá landsstj. að rannsaka mál, sem var mátulega illa undirbúið, síldarverksmiðjuna, og gerði það með þeim margumtalaða árangri, sem oft hefir verið minnzt á hér í þinginu; svo ef hann hefir álitið sig góðan í síldarrannsóknina 1927, meðan hann var atvinnulaus, býst ég við, að þessi Þjóðverji hafi getað dugað, og hann hefir sýnt það, þó að hann hafi verið atvinnulaus, þegar hann kom hingað. Hv. þm. var að spotta till. þessa manns, af því að þær voru sparsamar. Áður var ætlazt til þess að gera ákaflega dýran veg austan Þingvallavatns, og átti að leggja í það stórkostlegt fé, til þess að koma rafvélum að efri fossunum. Eitt af því, sem þessi maður gerir ráð fyrir, er það, að ekki þurfi að leggja veg, nema þessa stuttu línu frá Þrastalundi að Syðribrú, eftir mjög góðu vegarstæði. Annars hefir hann miðað sínar till. við okkar kringumstæður, okkar vegi og okkar fátækt, eins og sparsamir menn hljóta að gera. Hitt er ekki annað en flottræfilsháttur, að vilja eyða meiru til hlutanna en þörf er á, en sem víða hefir þó komið fyrir. Dylgjurnar um sérleyfið í 25 ár falla niður að sjálfu sér, því að það er vitað, að þeir menn, sem stóðu að þessu, buðust aðeins til að reka þetta fyrirtæki með föstum verðsamningi við bæinn, af því að ekki var hægt að fá bæinn til þess að hreyfa sig, og hafa getað útvegað bænum helming af því fé, sem þarf til þess að virkja Efra-Sogið. Það var aðeins verið að bíða eftir því, að hægt væri að fá bæinn til þess að virkja.

Þá hélt hv. 1. landsk. enn dálitla ræðu um raforku í sveitum. Menn munu sjálfsagt, að fyrir fáeinum árum, meðan hv. þm. var ennþá að mæla til vináttu við bændurna, kom hann með till. um að fara að raflýsa sveitirnar um allt Ísland. Þetta reyndist nú svo, að bændastéttin sá í gegnum þetta plan. Þó var það í einu héraði, sem einstöku menn trúðu þessum hv. þm. Það gerðu nokkrir íhaldsbændur. Þeir trúðu, að hv. 1. landsk. væri það viti borinn verkfræðingur, að eitthvað væri hægt að treysta á hans orð og ráðagerðir. Þeir héldu, að þeir hefðu nokkuð góða aðstöðu til þess að fara að undirbúa raflagnir frá fossi, sem liggur allvel við í héraðinu. Það var farið að undirbúa og rannsaka, og það hafði verið gerð áætlun um þetta mannvirki. En hún var samin svo lág eins og hægt var. M. a. var haft helmingi lengra milli staura en nokkurt vit er í að hafa í slíkum leiðslum. Samt sem áður varð þessi áætlun jafnvel svo há, að bændurnir gátu ekki litið við henni. Rafmagnsmálið er dautt í Skagafirði. Flokksbræður hv. þm. minnast með sársauka, að hann hefir reynt að blekkja þá, og vita, að þetta voru kosningabrellur og ekkert annað. Hv. þm. hefir þagað um þetta síðan. Hann gat talið bændunum trú um, að hægt væri að ráða við þetta, en tók svo hitt ráðið, að gera samning við sócíalista um að taka atkv. frá þessum mönnum. Það, sem hv. þm. kallar svartasta íhald, er því það, að segja beizkan sannleikann eins og hann er, að það er ómögulegt með þeirri tækni, sem nú er í heiminum, að láta leiðslur um allar sveitir á Íslandi bera sig. Hitt er annað mál, að með breyttri tækni getur þetta orðið, en sú tækni er ekki komin enn. Alstaðar hefir orðið sama niðurstaðan og í Skagafirði, að menn hafa komizt að raun um, að það voru blekkingar einar, sem þeir menn höfðu í frammi, sem voru að ráðleggja bændunum þetta, og sýnir það sig bezt í því, að þessi hv. þm. treystir sér ekki til að mæla á móti því, að jafnvel í Rvík er ekki gert ráð fyrir að nota rafmagnið til þess að hita húsin, af því að það er of dýrt; en það er einmitt hitaspursmálið í sveitunum, sem er aðalatriðið þar, jafnvel meira en ljós og suða. Þess vegna má hv. 6. landsk. fara heim og lesa betur.

Þm. ætti að spyrja skagfirzku bændurna um, hvaða reynslu þeir hafi í þessum efnum. Hv. þm. (JónÞ) hélt því fram vestur í Ólafsvík vorið 1931, þar sem við vorum saman á fundi, að það væri ekki útilokað, að rafmagninu væri veitt til þeirra vestur eftir. Þar er foss svona ½ km. frá bænum, og honum datt þó í hug, þessum ágæta verkfræðingi, að það væri farið að leiða rafmagnið þessa löngu leið, austan úr Sogi, til þeirra, en auðvitið hefir hann aldrei talað um að raflýsa Ólafsvíkina, nema þegar hann var staddur hjá þeim og var að biðja um atkv. Hv. 1. landsk. og hans flokksbræður standa þannig að vígi í þessu máli, að þm., sem berst fyrir þessu máli, hefir gert sig að borgarstjóra í því einu skyni að hindra það, að Sogið væri virkjað í ár. Ef hann hefði ekki verið kosinn borgarstjóri, hefði það verið virkjað í ár; og ef það væri ekki hindrað af borgarstjóranum, er ekkert sennilegra en að þingið hefði gengið í ábyrgð fyrir 3 millj. kr. láni handa Rvík og Hafnarfirði. Þegar þingið veit áhugaleysi forgöngumannanna í þessu máli, get ég ekki skilið, að menn hafi mikla löngun til þess að heimila ábyrgð nú strax handa manni, sem stendur í trúnaðarstöðu bæjarins, til þess að hindra það, að málið gangi fram og leggur á það hið mesta ofurkapp. Það er ekki nema eðlilegt, að þm. líti á þetta mál eins og hv. 2. þm. S.-M., að það sé ástæðulaust að vera að gefa stj. ábyrgðarheimild, meðan ekki er vilji til þess að leysa málið hjá meiri hl. bæjarstj. Ég er aftur á móti það liðlegri, en það er kannske af því, að ég er innanbæjarmaður, að ég vil vera með í því að veita ábyrgð á þeirri upphæð, sem full vissa er fyrir, að bæjarstj. þyrfti, ef hún ætlaði að leysa málið, en ekki meira.