29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Ólafur Thors):

Fjhn. hefir athugað þetta frv. og gefið út um það sameiginlegt nál., þó að það kunni að vera, að einstakir nm. hafi sérstöðu um það, og þar á meðal form. n., sem hefir nú lýst sinni skoðun á þessu máli með því að bera fram sérstakt frv. á þskj. 824.

Þegar þetta mál var rætt í n., þótti nokkuð orka tvímælis um það, hver nauðsyn væri að hraða afgreiðslu þess nú á þessu þingi. Ég hefi seinna leitað mér upplýsinga um það, hvað það þýðir, ef málið verður ekki afgr. fyrr en á næsta þingi.

Ég hefi talað um það við borgarstjórann í Rvík, hv. 1. landsk., og fengið þær upplýsingar, að það skiptir miklu máli, hvort frv. er samþ. nú eða látið bíða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja drög þessa máls almennt; það hefir svo mikið verið um það talað, að það ætti að vera hv. dm. kunnugt. En ég vil skýra frá því, hvaða rök liggja til þess, að það er æskilegt, að málið fái afgreiðslu nú á þessu þingi.

Eins og hv. þdm. sjá, er í 3: gr. frv. gert ráð fyrir því, að lagður verði vegur meðfram Þingvallavatni í sambandi við nauðsynlega flutninga vegna virkjunar Sogsins. Það má gera ráð fyrir því, að ef frv. nær staðfestingu Alþingis, þá verði þegar á þessu sumri hafizt handa um að leggja þennan veg. Eins og nú horfir um atvinnu almennings í landinu, orkar það ekki tvímælis, að það út af fyrir sig mælir mjög með því, að frv. nái samþykki þingsins nú þegar. Ég vil ennfremur geta þess, að auk þess, sem það er nauðsynlegt vegna virkjunar Sogsins, að leggja þennan veg, þá er það engu síður nauðsynlegt, hvar svo sem það verður virkjað, eingöngu vegna ferðamanna. Auk þess, sem lagning þessa vegar skiptir verulegu máli, vil ég benda á það, að nái þetta frv. samþykki þessa Alþingis, þá verður þegar hafizt handa um lánsumleitanir. Það er gert ráð fyrir því, að bæjarstj. verði búin að fá áætlun sérfræðinganna um virkjunina um næstu áramót. Ef leyfið verður þá fyrir hendi, verður þegar hægt að bjóða út verkið og samtímis undirbúa lántökuna. Verði þetta gert upp úr áramótunum næstu, verður hægt að hefjast handa með fullum krafti á næsta sumri. En verði horfið að því ráði að fresta afgreiðslu þessa máls þangað til á næsta þingi, þá verður þetta ekki hægt, því að þá verður of naumur tíminn með að bjóða út verkið og leita fyrir sér um lántöku. Það er álit þeirra manna, sem kunnugastir eru, að það sé ekki hægt að leita tilboða um lántökuna, nema fyrir liggi skýlaus lagafyrirmæli þessu til staðfestingar. Það hefir einu sinni verið gert, og það þykir ekki tiltækilegt að fara þess á leit aftur án þess að ábyrgðarheimild sé fyrir hendi.

Ég vil ennfremur benda á það, að eins og kunnugt er, er peningamarkaðurinn hagstæður eins og stendur. Það getur skipt miklu fyrir Rvík, hvort hún fær að njóta þessarar aðstöðu, eða að málinu verði seinkað um eitt ár, og þá má vera, að peningamarkaðurinn verði breyttur. Þess vegna er það ákjósanlegast, að Alþingi sjái sér fært að afgr. þetta mál nú þegar.

Ég býst við, að það sé hv. dm. kunnugt, að Eimskipafélag Íslands hefir verið að leita fyrir sér um lán erlendis. Framkvæmdarstjóri þess hefir nú tekið lán fyrir félagið með óvenjulega hagstæðum kjörum. Úr því að einstök félög geta fengið svona hagstæð kjör, þá er engin ástæða til að ætla, að bæjarstj. Rvíkur geti ekki fengið slík kjör, ef ábyrgð ríkissjóðs stendur á bak við.

Ég vil því leyfa mér að mælast til þess, að d. sjái sér fært að afgr. þetta mál tafarlaust, en sé ekki ástæðu að öðru leyti að fjölyrða mikið um efni þess.