17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3632)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. taldi þetta ekki stórt fjárhagsmál, en taldi, að það væri stórt sanngirnismál. - Það er rétt, að þetta er ekki stórt fjárhagsmál, ef litið er eingöngu til hagsmuna þeirra manna, sem á að létta þessum skatti af. Það eru víst ekki nema 10 aurar á skrokk. Munar það ekki miklu og er því ekki stórt fjárhagsmál fyrir bændur. En eigi að skoða þetta sem sanngirnismál, þá getur það orðið stórt fjárhagsmál fyrir ríkissjóðinn. Sé frv. samþ. á þeim grundvelli, þá má búast við, að sjávarútvegurinn komi með samskonar sanngirniskröfu. Hann mundi þá með sömu rökum geta gert þá kröfu, að létt yrði af þeim 20-30% skatti, sem nú er á útfluttri síld, og 5-7% skatti, sem er á síldarmjöli því, sem út er flutt. Ef því sanngirnismáli verður sinnt, þá fer það að verða stórt fjárhagsmál fyrir ríkissjóðinn, þótt bændur hafi hinsvegar sáralítið gagn af þessari vesaldartill., þó samþ. verði, sem ekki er til annars en að gera bændur hlægilega, en snertir sáralítið þeirra hagsmuni.

Þótt frá því sé skýrt og það fært fram sem ástæða fyrir því, að samþ. beri þetta frv., að þessi tollur leggist á þá bændur eingöngu, sem framleiði til sölu á erlendum markaði og fái því minna verð fyrir framleiðslu sína, þá get ég nú sagt hv. frsm. meiri hl., að nýr fiskur er líka seldur hér innanlands fyrir 4-5 sinnum hærra verð heldur en fyrir hann fæst saltaðan og verkaðan á erlendum markaði í Miðjarðarhafslöndunum. Þeir, sem selja fisk sinn til neyzlu innanlands, sleppa við útflutningsgjöld, en við, sem flytjum fiskinn út og fáum margfalt lægra verð, verðum að gjalda þennan háa toll. Við getum því komið með sömu kröfur og sloppið við útflutningsgjaldið með nákvæmlega sömu rökum. Þetta frv. er því ekkert nema loddaraleikur og rófudingl framan í bændur, borið fram í þeim einum tilgangi að sýnast, enda dæmt svo af flestum flokksbræðrum hv. meiri hl. fjhn. í Ed. Og það eru engar getsakir í þeirra garð, þótt sagt sé, að þeir óski helzt allir eftir því, að þetta mál sofni, og telji það alveg skaðlaust, þótt frv. gangi ekki fram. Ég endurtek það, að bændum er enginn greiði gerður með slíkri bónorðsför til löggjafans. Þetta gjald er svo lítið, að það snertir ekki þeirra pyngju svo neinu nemi. Minni hl. fjhn. leggur því til, að frv. verði fellt. Er það lagt til út frá því sjónarmiði sérstaklega, að ef frv. verður samþ., þá geta þeir, sem sérstaklega bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti og notið hafa stuðnings þeirra manna um fjárframlög til hans, sem sjálfir borga hin þungu útflutningsgjöld af sjávarafurðum, eða eru umboðsmenn þeirra manna, sem gjalda þau, - þeir menn geta ekki staðið á móti samskonar kröfu frá sjávarútveginum og í frv. felst. Umbjóðendur sjávarútvegsins fara að eiga drjúga réttlætiskröfu um, að felld verði niður gjöld af sjávarútveginum, ef samskonar gjald af landbúnaðarafurðum verður fellt alveg niður. Þetta er því hættulegur leikur, sem hér er leikinn, og eftirleikurinn getur orðið hættulegur.