22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Jónsson:

Ég dró enga dul á það í fyrra, þegar núverandi stj. var mynduð, að ég teldi mig engan veginn stuðningsmann þess ráðherra, sem Íhaldsflokkurinn útnefndi, Magnúsar Guðmundssonar. Ég vil því fara nokkrum orðum um ýms þau mál, er heyra undir ráðuneyti það, er þessi maður veitir forstöðu. Áður vildi ég þó nota tækifærið til þess að benda á undarlegt ósamræmi, sem var á milli ræðu hv. 1. landsk. í dag, og ræðu, er sami maður, sem líka er borgarstjóri Rvíkur, flutti nýlega um bæjarmálefni hér. Í þeirri ræðu taldi borgarstjóri Rvíkur fjárhag bæjarins ágætlega borgið, ekki sízt vegna þess hagnaðar, er leiddi af ýmsum bæjarreknum fyrirtækjum, svo sem rafveitu, vatnsveitu o. s. frv. En í dag hellir sami maður, hv. 1. landsk., úr skálum reiði sinnar yfir samskonar gróðalindir ríkissjóðs, ríkisprentsmiðjuna, landssmiðjuna o. fl., og krefst þess, að þær verði lagðar niður. Og þó eru þetta stórkostleg gróðafyrirtæki, sem hafa auk þess sparað ríkissjóði fleiri tugi þús. kr. árlega nú síðustu árin. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að þessi hv. þm. sé í vandræðum með hvorttveggja, bæði hvernig hann á að lofa fjárhag Rvíkurbæjar, og hvernig hann á að ráðast á ríkisstofnanirnar, og þar af komi þetta leiðinlega ósamræmi.

Þá vil ég nota tækifærið til þess að fara nokkrum orðum um þá ríkisstofnunina, sem mest hefir verið deilt á, en það er útvarpið og viðtækjaverzlun ríkisins. Það er vitað af öllum, að hefðu verið keyptar inn í landið einar 50—60 tegundir af móttökutækjum í frjálsri samkeppni, þá hefði það þýtt stórmikil fjárútlát og óþægindi fyrir landsmenn, sökum þess, hve erfitt hefði orðið að endurnýja tækin og gera við þau. Þessi ríkisstofnun hefir því gert tvennt í einu, sparað stórfé og skapað landsmönnum mikil þægindi. Þessa stofnun vill hv. 1. landsk. leggja niður, hann er æstur í það að leggja þessa stofnun niður, því að hann vill, að hagnaðurinn renni í vasa einhverra kaupmanna. En ég vil út af orðum hv. 1. landsk. taka það fram, sem sjaldan er minnzt á, og það er það, hvað mikið útvarpið á að þakka þeim manni, sem hefir stjórnað því frá byrjun. Og ég vil vekja athygli á því, að nú á þessum erfiðu tímum hefir tekizt að gera okkar íslenzka útvarp svo úr garði, að það stendur ótrúlega hátt að efni til, samanborið við aðrar evrópískar stöðvar. Hér hefir þessu litla fyrirtæki tekizt, fyrir andlega yfirburði og stjórnarhæfileika þess manns, er því stýrir, að afla stofnuninni almennra vinsælda um allt land, og þess trausts, að mönnum dettur ekki í hug að rengja fregnir þess. En einmitt áreiðanleiki þess hefir orsakað hatur sorpblaða íhaldsins. Það er almennt álítið, að hinar hlutlausu fregnir útvarpsins hafi skaðað mjög Íhaldsflokkinn. Og þrátt fyrir allan róginn hefir aldrei tekizt að sýna fram á eitt dæmi, þar sem fregnir útvarpsins hafi verið hlutdrægar, eða sagt vísvitandi rangt frá. Og þetta hefir mikil áhrif á þjóðaruppeldið. Áður fyrr höfðu íhaldsblöðin, sem gefin voru út í öllum kaupstöðum landsins, sérstaklega góða aðstöðu til að breiða út litaðar fregnir. Þessi óheiðarlegu blöð harma það mjög, að útvarpið skuli mega, að því skuli vera leyft að flytja hlutlausar fregnir, og verða af því svo vinsælt sem raun er á. Og því er rógsherferðin farin gegn útvarpinu og forstjóra þess. Það er áreiðanlegt, að hefði Íhaldsflokkurinn mátt ráða, hefði gróðinn af viðtækjaverzluninni verið látinn renna í vasa umboðssalanna. Og þá er sennilegt, að útvarpið hefði verið tekið í þjónustu æsingaflokka, eins og við sjáum nú, að blöð íhaldsins eru opnuð upp á gátt, og taka fagnandi á móti æsingaflokki, sem verið er að reyna að mynda hér eftir þýzkum fyrirmyndum. Og slíkt útvarp hefði ekki verið í miklum metum hjá þjóðinni. Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að hér var stofnað til útvarps áður en ríkisútvarpið kom til sögunnar. Einum nánum vini hv. 1. landsk. var gefið einkaleyfi á því að reka hér útvarp. En hvernig fór? Þetta útvarp varð sjálfdautt, valt út af við lítinn orðstír. Það fyrirtæki og endalok þess gefa manni góða hugmynd um það, hvað mikinn dugnað, hvað mikla andlega krafta Íhaldsflokkurinn hefði getað lagt í útvarpsstarfsemi.

Hv. 1. landsk. lét sér sæma að ráðast persónulega á hv. þm. Dal., sem ekki hefir nein tækifæri til þess að svara fyrir sig hér í deildinni. Ég veit ekki betur en að stj. berist oft og tíðum reikningar, sem þarf að endurskoða og oft eru lækkaðir meira eða minna. Þetta hlýtur hv. þm. að þekkja frá því að hann var ráðh. Það er líka í meira lagi undarlegt, hvernig það hefir verið notað sem ofsóknarefni á útvarpsstjórann, að útvegaður var fréttaritari frá einu af stórblöðum Ameríku og borgaður nokkur hluti af ferðakostnaði hans. Þá hefir talsvert verið ritað og rætt um bílakostnaðinn og það talinn hreinn og beinn þjófnaður. Það var undarleg tilviljun, að áðan þegar ég gekk út úr þinghúsinu, mætti ég vegamálastjóra í landssjóðsbílnum hér á götum bæjarins. Og mér datt ekki í hug að fara að þjófkenna hann fyrir það, og þó var það jafngilt því árásarefni, sem borið er fram á útvarpsstjórann. Mér dettur ekki heldur í hug að kalla notkun póstmálastjórans á landssjóðsbílnum þjófnað. Þó er bílanotkun þessara starfsmanna algerlega sambærileg við bílanotkun útvarpsstjórans. En ég vil undirstrika það, að þjóðin má fagna því, að hafa svona gott útvarp og svo ágætan og mikilhæfan mann og núverandi útvarpsstjóri er, til þess að veita því forstöðu. (Hávaði á pöllunum ).

Ég hefi nú ekki langan tíma til umráða, og því vil ég aðeins taka tvennt til athugunar af því marga, sem fyllir syndamæli íhaldsins. En það er réttarfarið, eins og það hefir komið fram í tvennum myndum, réttarfarið á landi, og réttarfarið á sjó. Það er flestum kunnugt, að þegar stjórnarskiptin urðu 1927, var undir eins farið að láta gera við fangahúsið í Rvík, sem áður var í þvílíku ástandi, að heilsu fanganna var stórmikil hætta búin, og þá var farið að vinna að byggingu vinnuhælisins á Litla-Hrauni. Þessu stóð Íhaldsflokkurinn einhliða á móti. Og það er eðlileg afleiðing af réttarfari íhaldsins. Í þess stjórnartíð voru nefnilega ekki dæmdir nema smælingjar, og þeir máttu verða heilsulausir í fangelsum að dómi þessa siðferðislága flokks. Þá kom það fyrir, að menn urðu að bíða ein tvö ár eftir framkvæmd dóma, vegna þess að ekkert pláss var í fangahúsinu. Ástæður stj. til þessara umbóta á hegningarhúsum ríkisins eftir að hún tók við völdunum 1927, var fyrst og fremst það álít, að lögin ættu að ganga jafnt yfir alla, og að hegningarhúsin ættu að vera mönnum sæmandi. En aðalbreyt. á framkvæmd l. var þó sú, að nú gat fólk gert ráð fyrir, að þeir glæpamenn, sem áttu háttstandandi vini, yrðu líka dæmdir. En þetta fyrirkomulag var Íhaldsflokknum óþolandi. Og það var ástæðan til þess, að Íhaldsflokkurinn kastaði stjórnarskrármálinu fyrir borð á síðasta þingi. Flokknum reið á svo miklu að ná í sínar hendur dómsvaldinu til þess að geta ýmist stóðvað eða haft áhrif á mál stórglæpamanna, sem stóðu sumir hverjir framarlega í íhaldsflokknum, að þeir gengu á bak allra orða sinna um „réttlætismálið“ svo kallaða. Og það var ekki reynt að fara í felur með þetta. Síður en svo. Íhaldsflokkurinn undirstrikar þenna tilgang sinn með því að setja einn af sakamönnunum, einn af mönnunum, sem kærður hafði verið fyrir sviksamlega hlutdeild í gjaldþrotamáli, í ráðherrasæti. Það var fyrirfram vitað, að þessi ráðh. mundi annaðhvort svæfa eða hindra réttlátan dóm í ýmsum alvarlegum glæpaálum, sem flokksbræður hans voru þá flæktir í. Og þessi varð líka raunin á. Ég skal þá fyrst nefna Hesteyrarmálið. Það er sannað, að við stöð Kveldúlfs á Hesteyri voru notuð svikin síldarmál, og að 30 ólögleg síldarmál voru falin uppi á pakkhúslofti á Hesteyri, þegar rannsóknardómarinn kom þangað til að athuga um þetta. Honum er sagt ósatt um ýmislegt þarna í yfirhilmingarskyni. Og þegar þessi rannsóknardómari kemur svo hér til Rvíkur, er hann ofsóttur á alla lund af flokksbræðrum sínum, íhaldsmönnum. Hann er hrakinn úr félagi við þann málafærslumann, sem hann hafði unnið með, og óspart gefið í skyn, að reynt mundi verða að bægja honum frá vinnu vegna dugnaðar hans við frumrannsókn í Hesteyrarmálinu. Þessi maður hafði gengið prýðisvel fram í byrjunarrannsókninni, en eftir stjórnarskiptin virtist færast yfir hann sami svefn — eða réttara sagt sama vöntun á réttlætistilfinningu og er einkennandi fyrir hans nýja húsbónda, dómsmrh. íhaldsins, Magnús Guðmundsson. Það var ekkert gert í málinu fyrr en eftir 3 ársfjórðunga, og féll þá dómur, afar mildur dómur eftir málavöxtum. Það var játað, að um sekt væri að ræða, en gersamlega vikið frá þeim grundvelli, sem dómarinn hafði sjálfur lagt í frumrannsókninni. Dómsmálastjórnin áfrýjaði ekki. Dómsmálastjórnin var ánægð. Kveldúlfur hafði grætt 60000 kr. á sviknum síldarmálum. Það fé var tekið af fátækum sjómönnum.

Annað málið, sem ég ætlaði að tala um, og alveg var stöðvað, var viðvíkjandi óreiðunni á borgarstjóraskrifstofunni í Rvík. Endurskoðendurnir komust að því, að fyrrv. borgarstjóri gat ekki gert grein fyrir 7000 kr. útgjöldum, sem greidd höfðu verið í sambandi við lántöku erlendis. Margt benti á grunsamleg vinnubrögð í sambandi við þessa lántöku. En þetta mál var of skylt Íhaldsflokknum til þess að þorandi væri að láta fara fram rannsókn, sem enginn hefði þó átt að vera fúsari á en einmitt Íhaldsflokkurinn, sem taldi sig sannfærðan um það, að borgarstjórinn hefði hvítþvegna samvizku og yrði þarna fyrir ofsókn vondra manna. En því mátti rannsóknin ekki leiða sakleysi borgarstjórans í ljós? Nei, dómsmrh. íhaldsins stöðvaði þetta mál, en borgarstjórinn sagði af sér skömmu síðar og dró sig alveg út úr opinberu lífi.

Íslandsbanki var ein af stofnunum íhaldsins, ein af sterkustu máttarstoðum þess. Þar hafði einn ráðh. flokksins komið sér fyrir, nefnilega Sigurður Eggerz, og þegar bankinn svo strandaði árið 1930, þá sálaðist margt af blöðum íhaldsins. Það er alveg eins og þau hafi beinlínis lifað á bankanum. Einn bankastjórinn, sá, sem skemmst hafði verið við bankann, fór í mál við Útvegsbankann út af kaupi sínu. Því máli var síðan stefnt til hæstaréttar og hann felldi þann dóm, að þessi bankastjóri ætti ekki að fá neitt kaup, af því að hann hafði stjórnað bankanum þannig, að kaupgreiðsla væri óréttmæt. Í þessum dómi er því slegið föstu, að bankastjórarnir hafi ekki staðið vel í stöðu sínni, og þá vitanlega þeir, sem lengst höfðu verið, og þá sérstaklega sá, sem hafði verið lengst af öllum, sem sé Eggert Claessen, sem er einn af máttarviðum Íhaldsflokksins. Þeir, sem dæmdu þennan dóm, prófessoradóminn svokallaða, voru prófessorar háskólans: Einar Arnórsson, Ólafur Lárusson og Magnús Jónsson. Ástæðan til að þeir dæmdu ekki, Eggert Briem og Páll Einarsson, var sú, að þeir voru báðir venzlaðir bankastjórunum og komu þess vegna ekki til greina. Það var mikill ótti í íhaldinu þegar þessi dómur kom, því það var öllum vitanlegt, að stj. bankans hafði verið gölluð, svo gölluð, að einn bankastjóranna hafði haldið því fram, út af tapi Sæmundar í Stykkishólmi, sem var um 700 þús. kr., að þessum manni, sem var gersamlega eignalaus, var lánað og lánað, og bankinn þorði ekki að láta gera hann upp, af því að ef það hefði verið gert, þá hefði komið í ljós, hve bankinn var illa stæður. Þess vegna varð bankinn að hilma yfir þetta, til þess að játa ekki fjártjónið koma fram. Þetta hafði komið fram í bæklingi eftir Sigurð Eggerz. Hundruðum þúsunda af fé almennings var þannig kastað á glæ samkv. ráðstöfun bankastjórnarinnar, aðeins til að dylja hegningarvert athæfi. Svo framarlega, sem það hefir verið rétt hjá hæstarétti 1927 að dæma 3 sveitadrengi fyrir að taka 90 kr. verðmæti úr búð hér í nágrenni Rvíkur, þá er óhugsandi fyrir þjóðfélagið annað en að játa dæma stjórn þessa fjárþrota fyrirtækis, þar sem hún hafði lánað ár eftir ár svo vitanlegt sé öreiga mönnum hundruð þúsunda af fé. Þar var um engan misgáning að ræða, ekkert annað en vísvitandi, ólöglegt athæfi.

Eftir að prófessoradómurinn kom, þá sá íhaldið, að ef málunum var haldið áfram, þá var óhugsandi annað en að bankastjórarnir allir yrðu dæmdir líka. En það mátti það ekki láta á móti sér, af því að það voru ekki nokkrir umkomulausir drengir, sem átti að dæma, er máttu grotna í sundur í fangahúsinu við Skólavörðustiginn, eins og það var þegar íhaldið skildi við það 1927. Það var því Íslandsbankamálið, sem íhaldinu reið mest á að stöðva, og það var núverandi dómsmrh., sem stöðvaði það. Eftir 8 mán. athugun komst hann að þeirri niðurstöðu, að þessi mál væru orðin svo gömul, að það mætti ekki hreyfa við þeim. En þjóðin veit, að það var ekki af þeim ástæðum, heldur m. a. af því, að það hlaut að leiða til sektardóms.

Þá kem ég að því málinu, sem stjórnin sá sér ekki fært að stöðva, nefnilega Behrensmálið. Í því sambandi er vert að líta á það, að íhaldið sá sér ekki annað fært, eins og til þess að undirstrika þetta réttlætismál, en að velja í dómsmrh.sætið mann, sem stóð svo höllum fæti í þessu máli, eins og síðar kom í ljós, að hvergi meðal hvítra þjóða hefði maður, er hefði orðið fyrir því óhappi, verið látinn koma fram í þá stöðu, sem þar var um að ræða.

Til þess að sýna það, hvernig aðrar þjóðir líta á svona mál, er skemmst að minnast þess, þegar Raben greifi, sem var ráðherra í ráðuneyti I. C. Cristensens í Danmörku, sagði af sér út af Albertihneykslinu. Hann sagði, að þegar þetta hefði komið fyrir einn í ráðuneytinu, þá sæti hann ekki lengur, en það var ekki I. C. Ghristensen, sem sagði af sér, heldur var það Raben greifi, sem knúði það fram.

Þegar íhaldið þarf að leggja til mann í ráðuneyti, þá er það einmitt maður, sem svona stendur á fyrir. Maður, sem hafði verið viðriðinn stórfellt hneykslismál. Mönnum er svo kunnugt um það, hvernig þetta mál stóð, að það þarf ekki að rifja það upp. Maðurinn, sem hér var um að ræða, var gjaldþrota þegar hann byrjaði fyrirtækið og hafði síðan alltaf verið að tapa. Þegar svo málafærslumaðurinn, Magnús Guðmundsson, kom til hans og fór að semja fyrir hans hönd, hlaut honum að vera þetta kunnugt eins og öðrum. Honum tókst að koma þessu þannig fyrir, að einn skuldunauturinn fékk alla sína skuld greidda, en aðrir fengu ekkert. Svo vita menn, hverskonar bréf hann sendi hinum skuldunautunum, og hvernig það stóð í sambandi við riftunarfrestinn.

Ef þetta hefðu verið umkomulausir menn, sem þetta frömdu, eða að það hefði verið í landi, þar sem lögin ganga jafnt yfir alla, hefðu báðir þessir menn verið dæmdir. En þar sem allir vita, hvernig málavextir voru, skiptir það ekki miklu máli, hvernig niðurstaðan varð, það er fyrst og fremst undir því komið, hvernig þjóðin lítur á þetta, Það er sá ,,æðsti dómur“. En ekki bætir það úr þessari málsmeðferð, að hæstiréttur hefir tafið Belgaumsmálið í 3 ár, þó að allir vissu, að sekt þess var sönnuð, en tók fjársvikamál Behrens fram fyrir öll önnur og lauk því af á fáeinum vikum. Ekki var gætt þess velsæmis að taka málin í réttri röð, og m. a. s. í viðtali við útlenda blaðamenn sagði Morgunblaðið fyrir um niðurstöðu dómsins, alveg eins og hann hefði verið fyrirfram ákveðinn eða birtur. Það skiptir ekki miklu máli í þessu efni, en þó er rétt að taka það fram, að málafærslumaður Behrens naut samúðar meðal málafærslumanna, en það er líkt og sagt er á ensku, að „ketillinn eigi ekki að segja, að potturinn sé svartur“. Það er af því, að margir málafærslumenn hér vita, að þeir hafa ýmislegt á samvizkunni, náskylt þeirri sviksemi, sem kunnug er frá gjaldþroti hans. En þetta breytir engu, það sýnir aðeins það, hvað eftir er að gera í réttarfarinu í landinu, sem íhaldið hefir að nokkru leyti fellt niður síðan núverandi stjórn tók við. Ég skal aðeins nefna 3 afbrotamál hættulegs eðlis, sem stjórnin hefir fellt niður. Það fyrsta er, að það var tekinn maður í Keflavík í fyrravetur og fluttur með valdi. Þetta var rannsakað hér í Rvík og af sýslumanninum í Hafnarfirði, og ég fyrirskipaði endurrannsókn í því, áður en stjórnarskiptin urðu. Núverandi landsstjórn hefir látið þetta mál sofna. Litlu síðar var manni rænt vestur í Bolungavík, og ekkert var gert út af því. Í þriðja skiptið var manni á Siglufirði, ekki beinlínis rænt, heldur beittur valdi. Ríkisstjórnin lét varðskipið bíða eftir honum í 3 daga á Siglufirði og flytja hann burt, og síðan var ekkert gert í því.

Þetta er mjög hættulegt í landi, þar sem réttaröryggið ætti að vera á háu stigi, að borgararnir megi ekki fara frjálsir ferða sinna. (Dómsmrh.: Þetta kemur fyrir í því landi, þar sem hv. 5. landsk. er búinn að vera dómsmrh. í 5 ár.) Ég get sagt mínum eftirmanni það, að þessu hneyksli er veitt enn meiri eftirtekt fyrir það, að sá maður hefir verið dómsmrh. áður, sem lét lögin ná jafnt yfir alla, og að hann eða hans líkar hafa miklu erfiðari aðstöðu nú heldur en áður, þar sem menn hafa nú um 5 ára skeið lifað undir því skipulagi, að lögin nái jafnt yfir alla. Menn hafa orðið þess áskynja, að íhaldið hefir þurft þess með að knýja fram stjórnarskipti, af því að þeim var það áríðandi mál að fá aftur sitt gamla réttarfar. En það get ég sagt hæstv. dómsmrh., að þjóðin sættir sig ekki lengi við það réttarfar, sem nú er og hann hefir endurskapað.

Þá kem ég að því málinu, sem sýnir vel, hvernig atvinnuleysið hefir spillandi áhrif á þjóðfélagið, en það er kommúnistauppþotið í sumar. Kommúnistar réðust á bæjarstjórnina og um það er enginn í vafa, af hverju það var gert. Stj. lét handsama nokkra þeirra og yfirheyra, en þeir neituðu að svara. Dómsmálastjórnin ætlaði þá að vera ströng og setti þá í fangelsi, en þá tóku þeir upp á því að svelta sig, og þá var þeim sleppt eftir fáa daga! Annaðhvort átti ekki að taka mennina og setja þá í fangahús fyrir það að neita að svara, eða það átti að neyta þeirra ráða, sem allar menningarþjóðir hafa nú á dögum gegn slíku, og láta réttvísina hafa sinn gang. En kommúnistar ógnuðu ríkisvaldinu, þegar þeir vissu um þá sekt, sem lá á ýmsum háttsettum íhaldsmönnum, og þeir vissu, hvernig málin voru stöðvuð, og þeir hugsuðu sem svo, að þeim væri ekki vandara um en höfðingjunum í Íhaldsflokknum.

Á því er enginn vafi, að sá upphlaupaandi, sem nú gerir vart við sig í landinu, og sem hefir sýnt sig í uppþotum kommúnista, er sprottinn af þeirri réttarfarsspillingu, sem íhaldið hefir skapað í landinu. Ofan á þetta bætist svo, eins og til að kóróna í þessu efni, að stjórnin veitir Sigurði Eggerz, þeim manni, sem hafði átt næstmesta sök á Íslandsbankaóreiðunni, eitt með stærstu dómaraembættum landsins. Samhliða því, sem flokkur hans neitaði honum um að vera í kjöri hér í Rvík, er hann gerður að dómara á Ísafirði. Það, sem flokkurinn ekki vill handa sjálfum sér hér á þingi, álítur hann nógu gott í dómarasæti annarsstaðar, líka með þeim undanfara, sem þar var áður.

Þá eru nokkur atriði, kannske smá, en sem sýna á sama hátt, hvernig stjórnin beitir sínu náðunarvaldi, þegar vinir og vandamenn af hærri stigum eiga í hlut. Skal ég þá fyrst minnast á mann, sem stóð nærri helztu mönnum íhaldsins. Hann hafði gert sig sekan um hreina og beina skjalafölsun. Hann var dæmdur í fangelsi í undirrétti, en óskaði ekki eftir því að áfrýja dómnum. En þegar lögreglan átti að taka hann í sumar sem leið, kom einn frá Morgunblaðinu og sagði, að maðurinn mundi aldrei fara í fangelsi, því að dómsmrh. ætti að náða hann, og svo varð þeim dómi aldrei fullnægt frekar en það, að maðurinn var aðeins látinn vera nokkra daga á Litlahrauni og síðan sleppt. Það var ekki eins og væri verið að fara með umkomulausa drengi úr Þykkvabænum, eins og þá, sem ég minntist á áðan.

Þá kemur annað dæmi af manni, sem hafði sukkað allmikilli upphæð af annara fé, og fyrir það var hann dæmdur í meira en eins árs fangelsi. Hann var búinn að óska eftir náðun, þegar stjórnarskiptin urðu. Honum var sagt af stjórninni, að þegar væri kominn sá tími, að hann ætti rétt á því í hlutfalli við aðra fanga, að þá mundi honum, að öðru óbreyttu, verða tryggt það að fá náðun. Þegar stjórnarskiptin urðu, vantaði 1/3 af þeim tíma til þess að sæmilegt mætti teljast, að fanginn yrði náðaður, en undir eins eftir stjórnarskiptin var honum sleppt, aðeins fyrir það, að hann átti háttstandandi menn að í Íhaldsflokknum. —

Síðasta dæmið er af manni, sem var kannske ekki hátt settur í flokknum, en stóð í mjög nánu sambandi við ýmsa „betri menn“ í Íhaldsflokknum, en hann hafði smyglað inn í landið 500 whiskyflöskum. Enginn maður, sem er sæmilega reglusamur, neytir nema lítils hluta af slíkum forða handa sér. Þetta hlaut að vera pantað fyrir marga. Nú er það vitað, að það eru helzt „betri borgararnir“, svo kallaðir, sem drekka whisky. Fátæklingunum þykir að vísu whisky gott, en þeir hafa ekki efni á að veita sér það. Þennan mann náðaði dómsmálastjórnin af allri fangelsisvist. Þessi maður hafði talað við mig skömmu fyrir stjórnarskiptin og óskað eftir náðun. Ég sagði honum hreinskilnislega, að það gæti verið rétt fyrir hann að áfrýja málinu til hæstaréttar, því að eftir nokkurn tíma gæti komið önnur stj., sem liti svoleiðis á, að það ætti að náða hann, en ég liti þannig á, að það væri ekki hægt að náða hann, af því að hér væri ekki um neina óviljandi yfirsjón að ræða, heldur þvert á móti af ásettu ráði gerð og margir honum meðsekir, og það menn, sem væru vanir að fremja afbrot án þess að þeim væri hegnt. Þess vegna væri hættulegt fyrir stj., sem vildi hafa hreinan skjöld, að mæla með, að sekt hans félli niður. Málið var óafgert þegar stjórnarskiptin urðu og þá var maðurinn náðaður. Það hefir ef til vill verið nauðsynlegt að gera það, af því að margir hinna efnaðri manna í Íhaldsflokknum munu hafa átt hlutdeild í þessum forða, þessum 500 whiskyflöskum.

Þá vil ég minna á eitt atriði, sem snertir réttarfarið. Það var áskorun hæstv. dómsmrh. á mig að veita Lárusi H. Bjarnason dómaraemhætti við hæstarétt. Þessum manni var veitt lausn frá embætti vegna heilsubilunar meðan ég var dómsmrh. En hv. 2. þm. Skagf. uppástóð þá, að þessi maður væri fús til að taka við embætti aftur, það þyrfti ekkert annað en að bjóða honum að koma í embættið aftur. Nú hefir hæstv. ráðh. haft tækifæri til að gera það, en annaðhvort hefir hann aldrei boðið honum það, eða hann hefir ekki viljað taka við embættinu. En í stað þess að setja Lárus H. Bjarnason í embættið, veitir hann Einari Arnórssyni það, og það rétt áður en átti að dæma um mál ráðh. sjálfs. Þessi þm., sem bar pólitíska ábyrgð á ráðherranum, dæmdi í Behrensmálinu í hæstarétti, sýndi ekki þá sjálfsögðu kurteisi að víkja sæti, þar sem var svo náið samband á milli þeirra, að þingmaður kýs ráðherra og ráðherra skipar hæstaréttardómara og hæstaréttardómari sýknar í Behrensmálinu, og það svo duglega, að til þess þurfti ekki nema nokkrar vikur. En mál Björns Gíslasonar hefir sofið í hæstarétti í nokkur ár og fæst ekki dæmt í því, hvernig sem á því stendur.

Þá vil ég segja nokkur orð um réttarfarið á sjónum. Það er mjög það sama að segja um það og réttarfarið á landi. Ég vil þá fyrst geta þess, að í tíð fyrrv. stjórnar var mjög mikil áherzla lögð á strandvarnirnar, og byggt upp alhliða kerfi um strandvarnirnar. Þá var t. d. bætt nýju skipi til strandvarna, og svo voru m. a. settir varðmenn í helztu verstöðvunum, sem svo stóðu í sambandi við skipaútgerð ríkisins, og létu hana vita á dulmáli, ef eitthvað grunsamlegt var á seiði. Ennfremur var samið við erlend skipafélög að taka að sér björgun skipa með hagstæðum kjörum.

En hvað gerir svo þessi stjórn? Það fyrsta, sem hún gerir, er að setja á Vestfjarðabátinn gamlan starfsmann af varðskipum, sem reynt hafði verið til hins ýtrasta að halda frá ofdrykkju, en ekki tekizt. Þennan mann setti hún yfir Vestfjarðabátinn undir eins og hún komst að. Það má líka bæta því við í þessu sambandi, að það liggur hjá hæstv. dómsmrh. rökstudd kæra frá bæjarstjórnum tveggja kaupstaða hér á landi á héraðslæknana, og ummæli frá landlækni um að þeir ættu að hætta störfum vegna drykkjuskapar. En stjórnin segir ekki neitt um það, að þeir eigi að fara, þeir eru eins og maðurinn, sem stýrir Vestfjarðabátnum, ágætir til að vinna fyrir þjóðfélagið, þó að þeir drekki svo, að bæjarfélögin vilji þá ekki. Þetta eru nú ekki nema fá dæmi af mörgum um það, hvernig stj. lítur á þessi mál.

Það fyrsta, sem hún byrjar á, er að ofsækja duglegasta manninn, sem hefir verið í þjónustu landsins á sjónum, nefnilega Einar Einarsson skipstjóra, sem hefir gert hvert hreystiverkið eftir annað bæði sem varðskipstjóri og eins við björgun. Hann er sá maðurinn, sem mest frægðarorð hefir farið af fyrir vasklega framgöngu í björgun manna úr sjávarháska, og honum hafa verið gefin sterk meðmæli frá mönnum, sem mikið hafa fengizt við björgun, og það hefir komið kvörtun um það frá erlendu skipafélagi, sem samið hafði um björgun, að þessi maður skyldi vera kominn úr þjónustu landsins. Þessu hefir ekki verið á móti mælt, og blöðin, sem hafa ofsótt þennan mann, hafa orðið að beygja sig fyrir þessum óhlutdræga dómi þessara erlendu fagmanna. Síðan þessum manni var vikið frá hefir svo að segja ekkert skip verið tekið og engu skipi bjargað, nema einu skipi, sem eiginlega lá laust í fjöru fyrir vestan. Allt annað hefir mistekizt.

Til þess að sýna betur hug stjórnarinnar til þessara mála vil ég benda á það, að sjómenn við Ísafjarðardjúp tóku upp á því að senda útvarpinu skeyti, þegar þeir urðu varir við togara í landhelginni. En þegar fréttamaður útvarpsins spyr landsstjórnina að því, hvort megi birta þetta, þá neitar hún því. Ríkisstjórnin þorði ekki að láta koma fram opinberlega kvörtun yfir landhelgisgæzlunni, af því að þá mundi það koma í ljós, hve herfilega hún væri vanrækt. Ofan á þetta bætist svo, að stjórnin hefir tekið í sínar hendur yfirstjórn landhelgisgæzlunnar. Hæstv. dómsmrh. hefir tekið í sínar hendur þau mál, sem hann er alls ekki vaxinn og enginn á dómsmálaskrifstofunni. Það er enginn eins vel fær til að stjórna þessum málum og Pálmi Loftsson, sem sjálfur er sjómaður og þess vegna þaulkunnugur við allar strendur landsins. Það er alveg jafnsjálfsagt að hafa sjómann við þetta, eins og að hafa lækni til að lækna sjúkdóma. En fyrir yfirstjórn þessara mála er einum manni í dómsmálaráðuneytinu borgaðar 4000 kr., — fyrir að inna af hendi það starf, sem Pálmi Loftsson gat vel gert, og gerði miklu betur, án þess að fá nokkra aukaþóknun fyrir. — Og svo er gráu bætt ofan á svart í réttarfarsmálinu, þegar íhaldsblöðin hafa nú síðustu dagana vegsamað nokkra fáfróða og lítt menntaða unga menn, sem hafa verið að leika ofbeldisstefnuna þýzku. Þessir menn hafa auk þess farið með stórkostleg ósannindi í blaði sínu um Sambandið. Þeir hafa þar t. d. þrefaldað skuldir kaupfélaganna. Þessi liðsauki, sem íhaldið hefir dregið saman gegn hinum frjálsu samtökum samvinnufélaganna, er studdur af þeim sömu mönnum, þeirri sömu klíku, sem stóð að Behrensmálinu fræga, sem stóð að borgarstjóramálinu og fleiri stærstu hneykslismálum seinni ára.

Þetta er sú dökka hlið á siðferðislegu lifi þjóðarinnar. Þó að kommúnistar séu slæmir, þá er lítið betra að vita til þess, að einn er sá flokkur í landinu, sem ekki þolir við nema hann sé utan við lög og rétt í landinu, flokkur, sem heldur, að lýðræðinu megi halda við í landinu, að hér sé frjáls þjóð í frjálsu landi, þó það sé látið viðgangast, að borgararnir séu ójafnir fyrir lögunum, að sumir eigi óhegnt að geta brotið í bága við sem flest gildandi lög og reglur. Skoðun borgaranna, sem ekki verður við haggað, er auðvitað sú, að hver, sem brýtur landslögin, eigi að bæta fyrir afbrot sín, hver sem hann er og hvaða flokki, sem hann tilheyrir. Borgararnir gera þá kröfu til dómstólanna, að þeir séu réttlátir, að þeir séu a. m. k. ekki lakari en prófessoradómstóllinn sællar minningar. Það er barizt fyrir fleiru hér á landi en úrlausn kreppunnar, það er líka barizt fyrir andlegum verðmætum þjóðarinnar. Það er barizt um, hvort réttarfarinu eigi að vera svo hagað, að sæmandi sé og viðunanlegt fyrir heiðarlegt fólk, eða hvort það á að vera eins og í negralýðveldi.