22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það kom mér ekki á óvart, að hv. 5. landsk. þyrfti að ávarpa mig, og það kemur mér ekki heldur á óvart, þó að hann þjóti burt úr deildinni þegar á að fara að svara honum. Hann byrjaði ræðu sína með því að lýsa yfir, að hann væri algerlega mótfallinn minni stefnu í dómsmálum. Hamingjunni sé lof fyrir, að hann lét þetta uppi, og ég vona, að hann haldi því striki sem lengst, því að ef ég yrði á einhvern hátt var við, að hv. 5. landsk. væri farinn að hallast til mín, þá mundi ég alvarlega taka til athugunar, á hvaða leið ég væri.

Það var ekki nema sanngjarnt af hv. 5. landsk. að verja bílanotkun útvarpsstjórans. Því að sú eyðsla var ekki nema örlítið brot af því óhófi, sem hv. 5. landsk. notaði bíla þau árin, sem hann var ráðh. Útgjöldin við það bílahald nema minnst 10 þús. kr. á ári þau 5 ár, sem hann sat í ráðherrasessi. Hv. þm. er því ekki nema rétt og skylt að verja sinn góða vin og nafna, því að eigi útvarpsstjórinn skilið einhverja tiltekt út af þessu máli, þá á hv. 5. landsk. margfalt meira skilið. Eins og vant er hældi hann sjálfum sér á hvert reipi af dómsmálastjórn sinni. En nú mun því vera svo komið, að hann er eini maðurinn, sem dettur í hug að gera slíkt, og þeim fer daglega fækkandi, sem ekki sjá það, hve svívirðilega hann leysti sínar skyldur af hendi. Enginn ráðherra., hvorki fyrr né síðar, hefir notað eða mun nota sér aðstöðu sína sem slíkur á líkan hátt og hann. Það eina dæmi mun nægja, að þegar hann átti að fara frá, þá lét hann höfða sakamál á hendur 10 eða 12 pólitískum andstæðingum sínum, og valdi helzt þá úr, sem líklegastir þóttu til að verða eftirmenn hans, og á ég þar við Sigurð Eggerz og mig. Tilgangurinn með þessu athæfi var að gera Sjálfstæðisflokknum ófært að gera okkur að ráðh. En sú vonin brást, því að sem vænta mátti og vitanlegt var tók flokkurinn ekki minnsta tillit til þessa æðiskasts, sem hljóp í hv. 5. landsk., þegar honum varð ljóst, að hann gat hvorki með illu né góðu fengið að sitja áfram í ráðherrasessi. Það hefir verið hljótt um 5. landsk. síðustu vikurnar, og það er ekki laust við, að hann virðist vera að missa tökin á stóriðju sinni, róginum, sem hann annars hefir verið svo iðinn og flinkur við. Blaðið, sem hefir verið hans málgagn, er heldur ekki nema svipur hjá sjón, sem von er til, þegar fylgið tálgast af hv. 5. landsk. um land allt. — Hann hældi sér líka yfir að hafa stofnsett letigarðinn eða vinnuhælið fyrir austan. Ég hefi nú áður bent á það, hve gífurlegur kostnaðurinn við hælið er orðinn og eins er það sett á svo óhentugan stað, að það getur aldrei komið að þeim notum sem skyldi. Þarna er ekkert annað en stórfelld mistök á mistök ofan. Það kemur varla til mála, að staðurinn verði nokkurntíma nothæfur sem almennilegt fangelsi eða letigarður, svo að það er langt frá því, að hv. þm. geti hælzt um af þeim hrakförum.

Hv. 5. landsk. talaði mjög digurbarkalega um, að hann vildi játa lögin ganga jafnt yfir alla. Ég verð að segja: heyr á endemi! Þetta lætur sá maður sér um munn fara, sem vitað er um, að notaði aðstöðu sína með örgustu hlutdrægni og tók sér í hönd það vopnið, sem bitrast er, og beitti því svo, að engum sómasamlegum manni hefði dottið slíkt í hug, hvað þá gert það. Þó sagði hann, að við Sjálfstæðismenn hefðum í fyrra hætt við að koma stjórnarskrármálinu í gegn til þess eins að geta komið mér að sem dómsmrh. í stjórnina, sem þá var mynduð. Hann veit vel, að eins og ég tók fram í dag, þá var stjórnarskrármálið alveg óleysanlegt um þær mundir og ekkert annað að gera en að bíða og vita, hvort samkomulag fengist ekki. Og ég vona, að ekki þurfi að líða margir dagar þangað til það kemur í ljós, að samkomulag sé um málið.

Hv. 5. landsk. má ekki ímynda sér, að þessi mál, sem ég sagði áður, að hann hefði búið til á hendur pólitískum andstæðingum sínum, hafi skotið nokkrum manni skelk í bringu. Nei, það er öðru nær, og ég ætla nú að færa rök fyrir því. Þá er fyrst mál framkvæmdarstjóranna í Kveldúlfi. Hv. 5 landsk. talaði um, að ekki hefði verið neitt aðhafzt í því máli. En þá vil ég upplýsa það, að dómur hefir gengið í málinu, og dómarinn, sem það framkvæmdi, var einmitt skipaður af hv. 5. landsk. sjálfum. Það skiptir mig engu, þótt 5. landsk. ráðist nú á þennan dómara og segi, að hann hafi dæmt móti betri vitund. Það kom fram í málinu, að ekkert var óheiðarlegt í fari framkvæmdarstjóranna, það er margsannað með vitnisburði fjölda vitna. Þá segir hv. 5. landsk., að það sé undarlegt, að málið hefir ekki verið sýnt hæstarétti. Ja, ég veit ekki, hvort hann hefir nokkra hugmynd um, hvort það eigi að gera eða ekki að gera, ég man ekki eftir að hafa frætt hann um það. Annars hefir það verið viðkvæðið hjá hv. 5. landsk., að hæstiréttur sé ekki sérstaklega mikill réttlætisdómstóll. En nú virðist svo komið, að hann ber meira traust til hans en til þeirra dómara, sem hann hefir sjálfur skipað. Og þá ætti hv. 5. landsk. heldur ekki að leita sér daglegrar svölunar í því að kveða hæstarétt niður bæði í ræðu og riti. Ég efast alls ekki um, að dómararnir í hæstarétti beri langt af þessum unga dómara, sem hv. 5. landsk. hefir skipað. Ég segi þetta alls ekki til neinnar hneisu fyrir hann, því að það er eðlilegt, að munur sé á, þar sem hinir eru miklu eldri í starfinu og hafa mikla reynslu til að bera.

Það er nógu gaman að minna á það viðvíkjandi hæstarétti, að þegar okkar fulltrúar voru við samningaumleitanir í Englandi í haust, var rætt um ágreining nokkurn út af togaratöku hér við land. Okkar menn sögðu þá við Bretana, að þeir gætu farið í mál út af því. Og svarið var, að Bretar væru ánægðir með það, því að þeir treystu hæstarétti Íslendinga fyllilega. Þetta segir nú brezka heimsveldið. En svo kemur hv. 5. landsk., þessi pólitíski undanvillingur, og segir, að dómar hæstaréttar séu að engu hafandi. Það er gott að hafa þetta álit Breta og geta borið það út um allt land á augabragði gegnum útvarpið. Hver vill verða til þess að trúa hv. 5. landsk. Hver vill telja hans álit meira virði en álit brezka heimsveldisins? Líklegast enginn nema hann sjálfur. Nei, hv. 5. landsk. þarf ekki að kvarta undan meðferðinni á Kveldúlfsmálunum. Rannsóknin var rekin eins og hann lagði fyrir, en úrslitin urðu ekki eins og hann vildi. En mikið var fyrir haft. T. d. þegar hann tók eitt af varðskipunum úr lægi og sendi það með dómara, sem ekkert vissi, hvað hann átti að fara. því að hann var með lokaða „ordru“ að því er sagt var. Kostnaðurinn við þetta varð um 10—11000 kr., en brotið, sem um var að ræða, gat í mesta lagi varðað 100—200 kr. sekt. Þetta ber einna skýrastan vott um hlutdrægni hv. 5. landsk. sem dómsmrh. Vegna þess að hann áleit, að þarna byðist tækifæri fyrir hann til þess að ná sér niðri á nokkrum pólitískum andstæðingum, eyðir hann 10-11000 kr. af ríkisfé, af því að hann vissi ekki meira í lögum en að hann hélt, að brotið gæti varðað mikilli refsingu.

Þá er annað málið, mál borgarstjórans í Rvík. Það er eitthvað það hlægilegasta mál, sem ég hefi séð eða heyrt getið um. Það kom fyrst upp um veturinn 1930 í janúarmán. Hv. 5. landsk. var þá dómsmrh. og gegndi því embætti þangað til um sumarið 1932. Þá var málið orðið hálfs þriðja árs gamalt. En það var ekki fyrr en hann átti að fara frá, að hann fyrirskipaði málshöfðun gegn borgarstj. En alltaf hefir málið logað upp um kosningar til þings eða bæjarstjórnar. Fyrst var upphæð sú, sem borgarstjóri átti að hafa dregið undan, um millj., en að lokum var upphæðin komin niður í 7—8 hundruð kr. Fyrir þeirri upphæð var sagt, að vantaði kvittun. Borgarstj. var aldrei spurður eftir kvittun fyrir upphæðinni. Þá kvittun hafði hann samt til taks, og hefir fyrir mér sannað að hafa innt þessa greiðslu af hendi. Og svo ætti ég að halda áfram sakamálsrannsókn út af þessu, bara af því að annar eins maður og hv. 5. landsk. hefir fyrirskipað það, eftir að hafa hangið aðgerðarlaus yfir málinu á þriðja ár. Þá vildi hann líka láta líta svo út sem borgarstj. hefði látið af opinberum störfum vegna þessa, en það er jafnfjarri sanni og annað hjá hv. 5. landsk., því að það var vegna vanheilsu að borgarstjóri dró sig í hlé.

Þá er þriðja málið, hið svo nefnda Íslandsbankamál. Ég tók það fram í dag, að ég hefði áður skýrt það svo nákvæmlega, að ekki væri þörf á að fjölyrða um það frekar. Ég sýndi fram á það við eldhúsumræður í Nd., að engin ástæða eða réttlæti væri að halda þeim málum áfram. En úr því að hv. 5. landsk. er alltaf að klifa á þessu, þá vil ég leggja eina spurningu fyrir hann: Hvers vegna hefir hann ekki sjálfur komið þessu máli af stað og leitt það til lykta? Það er staðreynd, að hann situr við völd frá því í jan. 1930, þegar fyrst fer að brydda á þessu máli, og þangað til í júní 1932, eða hálft þriðja ár. Af hverju gerði hann ekkert í málinu fyrr en hann fer frá embætti? Ég heimta, að hann geri grein fyrir því. Hvernig gat þessi logandi réttlætishrifning hans þolað að sofa á þessu í hálft þriðja ár? Nei, þetta var ekki til annars gert en að setja eftirmann sinn í vanda, og nota það svo sem uppistöðu í lygavefinn og róginn. En hann gætir þess ekki, að þessi vanræksla af hans hálfu kemur eingöngu niður á honum sjálfum, og blettinn getur hann aldrei afmáð.

Þá nefndi hv. 5. landsk. prófessoradóminn og vildi leggja mikið upp úr honum. En þeim dómstóli var aldrei ætlað að hafa úrskurðarvald í sakamálum, heldur einungis í launagreiðslumálinu. Og þótt hv. 5. landsk. viti lítið í lögum, eftir að hafa samt setið í 5 ár í dómsmrh. sessi, þá ætti hann að hafa einhverja hugmynd um, að það er sitt hvað, einkamál og sakamál. Annars get ég varla verið að endurtaka þau rök, sem ég hefi þegar flutt í þessu máli, og get vísað til fyrri ræðu minnar, sem prentuð verður í þingtíðindunum. En það er hinsvegar hv. 5. landsk., sem hér á að þvo af sér sektina, að hafa dregið þetta mál í hálft þriðja ár. — Þá kem ég að mínu eigin máli. Ég get verið fáorður um það, en ég vil bara segja það, að þar er um þesskonar drenglyndi að ræða, sem ég þekki ekki frá neinum öðrum en hv. 5. landsk. Aðra eins hlutdrægni og svívirðingu verður að telja algert einsdæmi, og öll þau ósannindi, sem þar er hlaðið upp. Þau eru nú alkunn. Eins og t. d., að einn hv. þm. hefði kært mig. Það hefir nú komið í ljós, að þetta er helber lygi. Það hefir engin kæra komið fram, og kærandinn er enginn annar en hv. 5. landsk. sjálfur. Og enginn annar en hann hefir fyrirskipað, að rannsókn skuli fram fara, hann, sem ekkert kann í lögum og hefir aldrei vitað neitt í þeim efnum og aldrei lesið neitt. Hann er þarna kærandi og ákærandi og svo ætlar hann líka að vera dómari. Það er þetta réttlæti, sem hann segir, að þjóðin megi ekki missa, sem hann segir, að þjóðin sé dauðadæmd, ef tekið er frá henni. Meiri öfugmæli og vitleysu hefi ég aldrei heyrt og get ekki hugsað mér. — Þá talar hann um það sem einhvern óskaplegan glæp hjá Behrens að eiga ekki fyrir skuldum. Við skulum nú athuga, hvað það er, sem gerist hér á þingi einmitt þessa dagana. Skv. skýrslum, sem safnað hefir verið um allt land, þá er fjöldi bænda, sem ekki á fyrir skuldum. En hvað er það, sem við ætlum að gera við þá? Ætlum við að höfða sakamálsrannsóknir á hendur þeim? Nei, við ætlum að hjálpa þeim. (JónasJ: Þeir draga ekki undan.) Nei það hefi ég heldur aldrei sagt. (JónasJ: Það gerði Behrens. Það var það, sem var rangt hjá honum). Nei, það gerði Behrens alls ekki. Þetta er einber vitleysa og ósannindi. Hv. 5. landsk. ætti að þekkja svo vel til málsins, að hann geti farið rétt með, hann, sem já í mánuð austur á Laugavatni yfir samningu dómsins. (JónasJ: Það er líka alltaf vandamál með svo góðan dóm). Vitaskuld hefir hann verið lagfærður, því að þó að hann væri vitlaus þegar hann var uppkveðinn, þá er ekki vafi á, að hann hefir verið enn vitlausari, eins og hv. 5. landsk. gekk frá honum. Hans orð um þennan dóm voru vitleysan tóm, en hinsvegar sáu allir lögfróðir menn í bænum, hver mundu verða afdrif hans.

En þó kórónar hv. 5. landsk. allt saman, þegar hann segir, að allir málfærslumenn, sem hafa haft afskipti af málinu, séu líka sekir. Það er skrítið að vilja koma sakamannsorði á alla stéttina. (JónasJ: Ég sagði ekki „allir“.) Nei, hv. 5. landsk. tekur víst einn út úr, sækjanda málsins. Þetta sakamálaæði hv. þm. er alþekkt. Fyrir 2 dögum vildi hann í sambandi við störf sín í Þingvallanefnd láta tvo bændur í Þingvallasveitinni sæta sakamálsákæru án þess að fá nokkrar upplýsingar hjá þeim. (JónasJ: Á að tala fyrst við sökudólgana?). Já, það á að tala við þá. Vita hvað þeir hafa fram að bera sér til varnar, áður en sakamálsrannsókn er fyrirskipuð. En þetta hefir verið gagnstætt reglum hv. þm. Hann gaf borgarstjóranum hér engan kost þess að skýra sinn málstað. Og í Íslandsbankamálinu var aðferðin sú, að bankastjórarnir fengu engin skjöl eða skilríki að sjá og fengu þess engan kost að bera hönd fyrir höfuð sér. Nei, hv. 5. landsk. hafði þá reglu að fyrirskipa sakamálsrannsóknir, án þess nokkuð að hafa kynnt sér málefnin. Ég öfunda þm. ekkert af þeirri aðferð. Hann má gjarna syngja sjálfum sér lof og dýrð fyrir hana. Hann syngur þar áreiðanlega einn. Það öfundar hann enginn af því.

Hv. þm. taldi, að okkur hefði verið orðið mál á að fá nýtt réttarfar. Já, sannarlega var öllum orðið mál á því, að þessi eini maður, sem notað hafði vald sitt svo herfilega ranglega og misbeitt því pólitískt, væri sviptur því.

Þá áleit hv. þm. að rangt hefði verið að setja kommúnistana í fangelsi og sleppa þeim svo þegar þeir neituðu að svara. Ja, það væri réttast að spyrja dómarann um þetta. Það var hann, sem setti þá inn og honum, sem þeir vildu ekki svara. En vitanlega var þeim sleppt, vegna þess að það sem um var spurt, fékkst upplýst á annan hátt. Það verður gaman að heyra, hvort hv. þm. endurtekur ekki þessa sömu vitleysu aftur.

Þá talaði hv. þm. um, að Einar Arnórsson hefði átt að víkja sæti í máli mínu vegna þess, að ég hefði skipað hann. En er þá ekki spurning, hvort lögreglustjórinn hefði ekki átt að víkja líka í sama máli, því hv. 5. landsk. hafði skipað hann. Ef út frá því á að ganga, að einn dómari dæmi manni í vil, þá verður það að ganga jafnt yfir alla dómara. Það hefði verið bezt fyrir hv. 5. landsk. að draga þetta ekki fram, einkum ef hann nú er minntur á í þessu sambandi hundrað þúsund króna mýrina hans Hermanns, sem vel mætti álíta, að stæði í sambandi við þetta mál.

Þá vék hv. þm. að veitingu Sigurðar Eggerz. Ég hefi hið sama um það að segja og ég sagði áður. Þótt hv. þm. hefði sett hann undir sakamálsrannsókn, þá var það engin gild ástæða til að eyðileggja allt hans líf. Og enginn maður, sem þekkir Sig. Eggerz, fellir verð á honum fyrir þá kæru. Ekki einu sinni hv. 5. landsk. sjálfur. Hann veit, sem allir aðrir, að Sig. Eggerz er strangheiðarlegur maður, sem í engu vill vamm sitt vita. Og þótt hann yrði ekki þm. hér í Rvík, þá er það hlutur, sem þessu máli er með öllu óviðkomandi.

Þá eru það náðanirnar. Ég gæti nú líka lesið upp pistil, sem fjallar um náðanir hv. 5. landsk., og það á honum sjálfum. Það er í almæli, að þessi hv. þm. hafi náðað sjálfan sig, þegar hann var dómsmrh. Það var út af grein, sem kom í Tímanum, og hann hafði að allra áliti sjálfur skrifað. Sú náðun mun vera algert einsdæmi. Hann ætti því sannarlega ekki að finna að náðunum annara. Það situr allra manna sízt á honum. Annars er gaman að rifja upp afstöðu hv. 5. landsk. til náðunar Þórðar Flygenring. Hv. 5. landsk. sendi annan mann af stað með þetta í Nd. En þá kom fram bréf, sem bar þess vott, að hv.5. landsk. hafði sjálfur lofað Þórði Flygenring náðun, ef honum hefði enzt aldur í embætti til þess. Ég get máske áður en lýkur hér náð í þetta bréf og lesið það upp aftur, sjálfum honum og útvarpshlustendum til skemmtunar.

Hv. þm. nefndi fleiri náðanir. En ég nenni ekki að eltast við að svara því öllu, enda hefi ég gert það áður í Nd. Ég sé nú, að hv. þm. Seyðf. hefir þar haft lítið annað fram að færa en það, sem hv. 5. landsk. hefir spúið í hann. Er þá óneitanlega mjög mikill skortur á ásökunarefni í minn garð, er þessir tveir hv. þm. verða að tyggja hvor upp eftir annan. Það gleður mig, að ekki skuli vera meira til eftir heilt ár.

Þá taldi hv. þm., að það hefði verið ósamræmi hjá mér að krefjast þess í fyrravetur, að Lárus H. Bjarnason yrði veitt dómarasæti í hæstarétti, en veita honum það svo ekki, er ég hafði sjálfur ráð á þessu sæti. Hv. þm. veit það vel, að ég bauð Lárusi H. Bjarnason sætið. En svar hans var það, að þegar búið væri að launa sér langa og — að hans eigin og annara áliti — dygga þjónustu í þarfir ríkisins með því að sparka sér úr stöðunni, þá vildi hann ekki við henni taka aftur, einkum vegna þess, að hann vissi, hver sótti, og var mjög ánægður með hann.

Þá var það nú landhelgisgæzlan. Af framkvæmd sinni á því sviði hefir nú hv. 5. landsk. hælt sér meira en af nokkru öðru. En vitanlega hæla engir aðrir honum fyrir það. Enginn annar en hann hefir notað varðskipin til snattferða með sjálfan sig vikunum saman og eytt í það tugum þúsunda króna. Og það er hart að heyra slíkan mann spila sig sem siðameistara yfir þeim mönnum, sem aldrei hafa aðhafzt neitt slíkt. Og í sambandi við þetta skal ég segja það, að mér dettur ekki í hug að ámæla hv. 5. landsk., þótt hann hafi sett mann af fyrir drykkjuskap. Ég hygg nú reyndar, að ástæðan fyrir afsetningunni hafi verið sú, að maðurinn hafi verið eitthvað hvassyrtur við hv. þm., þegar hann var á einni af hinum mörgu snattferðum.

Þá blandaði hv. þm. því inn í umr., að ég væri ekki sérlega skeleggur í áfengismálunum. Ja, sá má nú öðrum um bregða. Þarf ekki á annað að benda í því sambandi en það, hversu vel Höskuldur blómgaðist og dafnaði undir handleiðslu hv. þm. meðan hann var dómsmrh. Höskuldur verður þá svo frægur, að allt brugg yfir þvert og endilangt Ísland er kennt við hann. Nei, hv. þm. þarf sannarlega ekki að hæla sér af sínum dugnaði í áfengismálunum.

Þá vil ég vísa frá mér sem algerlega ósönnum áburði, að ég hafi ofsótt Einar Einarsson. Veit ég, að slíkt er mælt í algerðri óþökk Einars sjálfs. Hann hefir aðeins verið látinn hætta starfi meðan kæra sú, er fram kom gegn honum, er í rannsókn. Hv. þm. Seyðf., sem kom með þetta í Nd. eins og önnur þau atriði, sem spúð hafði verið í hann af hv. 5. landsk., sagði m. a. s. þar, að sjálfsagt hefði verið að láta rannsókn þessa fram fara. Ég þykist vita, að hv. 5. landsk. sárni það mjög, að varðskipin eru nú ekki lengur höfð til snattferða og fiskveiða, sem bakaði ríkissjóði tap, sem hundruðum þúsunda kr. skipti. En ég fer nú ekki að því. Og þess má geta, að kostnaður vegna varðskipanna varð ¼ millj. kr. minni 1932 en hann var 1931. Og þó var það ekki það ár, sem hv. 5. landsk. ferðaðist mest með varðskipunum. Og hann, sem gefur erlendum sökudólgum upp sakir, sem þeir höfðu verið dæmdir í vegna ólöglegra veiða í landhelgi, ætti ekki að koma hér fram með gorgeir og átelja aðra fyrir slælegt eftirlit.

Mér dettur ekki í hug að elta allt, sem hv. þm. sagði um landhelgisgæzluna. Það var allt á eina bók lært. Hann sagði, að hún svæfi nú. Hann veit þó vel, að tveir ágætir varðskipsforingjar annast hana. Er það ekki sagt neitt til lasts þeim Einari Einarssyni og Eiríki Kristóferssyni. Þeir geta verið góðir fyrir því, þótt hinum sé unnt sannmælis. En með því að segja að landhelgisgæzlan sofi, þá eru það skammir á varðskipsforingjana, sem hafa gæzluna á hendi, en ekki mig. Ég get þó ekki verið á ferðinni úti um allan sjó að líta eftir landhelgisgæzlunni. Hvað stj. varðskipanna viðvíkur, þá hygg ég, að nokkur munur sé á því að borga fyrir starf, sem er unnið, eins og ég hefi gert, eða að borga fyrir starf, sem ekki er unnið, eins og hv. 5. landsk. gerði. Hann greiddi þessi 4 þús. kr. árlega öll sín ráðh.ár, hvort sem starfið var innt af hendi eða ekki. Hann segir að vísu, að hann hafi látið þessi 4 þús. kr. sem veikindastyrk. En hvaða heimild hafði hann til að greiða þennan veikindastyrk? Má ég spyrja? Eða er kannske betra að borga fyrir starf, sem ekki hefir verið unnið, en starf, sem hefir þó verið unnið?

Ég læt nú hér staðar numið. Ég geri ráð fyrir því, að hv. 5. landsk. muni buna úr sér meiru. En ég finn hann þá kannske í fjöru síðar.