12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. (Jón Jónsson):

Þessi ræða hv. 2. landsk. var nú heldur lítil gagnrýni á frv., og ég hefði satt að segja búizt við stærra skoti. Allt, sem hann sagði, snerist um þáltill. þá, er hann flutti hér sjálfur um ríkiskaup á jörðum. Vildi hann beina því að mér, að ég væri orðinn fylgismaður hans í þessu máli og að Framsfl. hefði tjáð sig samþykkan till. hans, og mun hann þar hafa átt við flokksþing framsóknarmanna. Ég verð nú að hryggja hv. 2. landsk. með því, að ég stend alveg í sömu sporum gagnvart till. hans og áður, og að ég hefi hvorki fengið umboð né áskorun frá flokki mínum um að fylgja till. hans, og ég verð líka að hryggja hann með því, að mér er ekki kunnugt um, að nein slík samþykkt, sem hv. þm. talar um, hafi verið gerð á flokksþinginu, og mun ég ekki leggja trúnað á slíkt fyrr en ég sé það svart á hvítu. Að vísu munu nokkrir bændur hafa hreyft því, að komið gæti til mála sem bjargráðaráðstöfun, að ríkið keypti jarðir af illa stöddum bændum, en ég ætla, að enginn hafi verið fylgjandi slíku sem almennri leið. Hvorki ég né minn flokkur mun því fylgja till. hans eftir fremur en áður. Ég get geymt að ræða till. hans þangað til hún kemur hér fyrir aftur. En ég tel hæpið, jafnvel frá sjónarmiði hans sjálfs, að beita sér gegn þessu frv., þó að efni till. hans yrði einhverntíma að veruleika, sem ég efast um, að verði, þar sem mikill meiri hl. í landinu mun vera henni andvígur. Framkvæmd hennar hlyti ávallt að taka svo langan tíma, að ég tel óforsvaranlegt að hindra þangað til umbætur á kjörum þeirra manna, sem núv. ábúðarlöggjöf leikur hart. Ég vænti því, að hv. 2. landsk. átti sig og greiði frv. atkv.