22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi ekki tekið mikinn þátt í þessum umr., og hefi ekki mörgu að svara.

Hv. 2. landsk. talaði um norsku samningana og taldi þá þannig úr garði gerða, að vegna þeirra yrði nú verð á síldarafurðum mjög lágt, og illar horfur um allar framkvæmdir útvegsins í sumar. Ef hv. þm. á við það, að erfiðlega horfi um rekstur síldarverksmiðjanna, þá er honum kunnugt, að orsakir eru allt aðrar en norski samningurinn. Það þekkir hann sem bankastjóri. Hins vegar vil ég vonast til þess, að hann geti lagt sitt lið til þess, að a. m. k. ein af þessum verksmiðjum geti gengið í sumar. Og ef hann á sem bankastjóri erfitt með slíkt nú, þá vil ég ráða honum til að snúa sér til Alþ., áður en því er slitið. Það mun reynt að skella öllu á norska samninginn. En norski samningurinn er rétt áþekkur því ástandi, sem ríkti frá 1924. Það hefir illa litið út með síldveiðar og erfiðlegar um verðlag, án þess að þessum samningi væri um að kenna. Og ég vara menn við því, þó að eitthvað bjáti á í þeirri atvinnugrein hér eftir eins og hingað til, að fullyrða þegar, að það sé þessum samningi að kenna. Hann bjargar miklu af kjötinu á góðan markað, sem annars er óseljanlegt. Stj. var falið það verkefni á síðasta þingi að leysa þetta mál á líkum grundvelli og áður. Og þeir þm., sem fólu henni það verkefni, hafa á þessu þingi samþ. samninginn með miklum meiri hl. atkv. í háðum deildum.

Hv. þm. kvartaði um, að enn væru óleyst viss mál, og virtist áhugamál að telja mönnum trú um, að engu miðaði, þrátt fyrir fagurt tal. Það sem ég sagði um þau mál, hefir ekki átt að tákna annað en það, að stj. hefði fullan vilja á að leysa höfuðmálin, og að stj. telur sig eygja möguleika, svo að ég noti sama orðtæki og í fyrra, sem ekki séu langt fram undan.

Nú standa eldhúsumr. á mjög óvenjulegum tíma, í þinglok, þegar um annað er að hugsa en að rifja upp gamlar væringar. Þessa dagana bíður þjóðin með sérstakri eftirvæntingu eftir lausn þeirra stóru og miklu mála, sem fyrir liggja. Og ég veit, að það verður virt til vorkunnar, þótt ekki séu haldnir stórir þingmálafundir í eldhúsdagsformi, en meir gefið sig við hinu, að leita árangurs af því mikla starfi, sem búið er að leggja í þau stórmál, sem komin eru í burðarliðinn. Ég hefi því ekki hirt um að taka ríkan þátt í eldhúsumr., sem háðar eru á óvenjulegum tíma, þegar annað liggur fyrir en að deila hver á annan svo sem mest má verða. Þjóðin bíður helzt eftir að heyra árangur frá þessu þingi, og það verður við hana talað þegar sá árangur er í ljós kominn. Þá verða væntanlega margir fundir og miklu útvarpað. Ég fyrir mitt leyti býð góða nótt og tek ekki frekar til máls, verði ekki gefið óhjákvæmilegt tilefni.