19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Hannes Jónsson:

Ég hafði ekki hugsað mér að tala meira, en af því að hv. þm. Ak. vék að mér nokkrum orðum í ræðu sinni, þá vildi ég svara honum og kvitta fyrir. Annars var þessi hv. þm. óvenjulega skáldlegur í ræðu sinni, setningarnar komu fram í svo ljóðrænum búningi, að ef ég hefði verið tónskáld, þá hefði ég samið undireins lag við ræðu hans. Hv. þm. talaði um það með miklum fjálgleik, hvað hann hefði mikla hæfileika til þess að vera bóndi og hvað hann bæri sterka þrá í brjósti til þess að verða bóndi í annað sinn. En hvað er það, sem hefir komið honum út af þeirri braut, sem hann þráir svo mikið, að hann getur ekki hugsað sér framtíðina öðruvísi en að vera bóndi? Ætli það hafi ekki verið það, að helzt til fáar kringlóttar komu í vasa hans af því að vera bóndi. Ekki geta allir bændur, sem illa stendur á fyrir, orðið fulltrúar bæjarfógetans á Akureyri eða sýslumenn í Húnavatnssýslu. Þar komast ekki allir að. En hv. þm. Ak. hafði möguleika til þess að komast burt úr því öngþveiti, sem flestir bændur eiga við að búa. Þegar honum gekk illa búskapurinn, fór hann bara í annað, og sagði þeim, sem eftir voru, að sitja á sínum þúfum og svelta, hann ætlaði að láta sér líða betur. Nei, þessi bændavinur, hv. þm. Ak., kemur ekki fram hér á þingi í neinum skrípabúningi. Hann kemur í einkennisbúningi sýslumannsins í Húnavatnssýslu.

Hv. þm. talaði langt mál til þess að sýna fram á, hvað þetta væri mikið ölmusuboð bændum til handa. En hvað eru kreppulánaráðstafanirnar? Eru þær ekki líka ölmusuboð, sem bændur eiga að telja neðar virðingu sinni að þiggja? Er ekki allt það, sem gert er til þess að auka gengi bændanna, ölmusuboð í þeirra garð? Ef svo er ekki, því þá sérstaklega þetta atriði? Hv. þm. gaf í skyn, að hann teldi þetta gjald óréttmætt. En því má þá ekki létta þessu óréttmæta gjaldi af? Það get ég ekki skilið.

Við ræðu hv. þm. Mýr. varð mér svo, að mér heyrðust Reykjakýrnar baula í gegnum hana. Þessi hv. þm. hefir tekið öllum þeim ráðstöfunum, sem Alþingi hefir gert til hagsbóta fyrir atvinnurekstur hans og þeirra, sem líkt eru settir, fegins hendi. En nú vill hann endilega, að beðið sé átekta, og helzt, að ekkert sé gert í þessu máli. Þar sést samræmið og sanngirnin út yfir eigin hagsmuni.

Hv. þm. G.-K. lét skína í gegnum ræðu sína, að gengi Alþ. að þessu frv., kæmu allir aðrir íslenzkir framleiðendur og heimtuðu, að útflutningsgjaldi væri einnig létt af þeirra afurðum. En ég ætla, að það standi talsvert öðruvísi á um flesta aðra framleiðendur hér á landi. Eða því er verið að gera stórfelldar ráðstafanir til hjálpar landbúnaðinum? Auðvitað af því, að sá atvinnuvegur stendur sérstaklega höllum fæti.

Ég sé, að hæstv. forseti er farinn að gefa mér bendingar um, að tími minn sé búinn, og sökum þess, að hæstv. forseti er stjórnsamur mjög, en ég löghlýðinn vel, vil ég nú láta máli mínu lokið, þótt ýmislegt sé eftir ósagt.