27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. fyrri kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Hv. þm. V.-Húnv. virðist liggja n. nokkuð á hálsi fyrir það, að vilja ekki gera tilraun til þess að laga ýms missmíði, sem n. hefði talið, að væru á frv. Mér skildist á honum, að hann hefði þá skoðun, að það væru töluverðar líkur til þess, að hægt væri að breyta frv. til batnaðar. Mig hálffurðar í raun og veru á þessari skoðun hans. Ég hafði lýst því yfir, að n. væri mjög óánægð með ýmsa hluti í frv., og að það væri mjög hart að þurfa að ganga þannig frá því. Hinsvegar lýsti ég því yfir, að því aðeins legðum við þetta til, að við hefðum ekki vonir um, að bót fengist á því, þó að tilraun væri til þess gerð. Ég hefði nú haldið, að hv. þm. V.-Húnv. gæti fallizt á þessa skoðun n. Hann hafði þá aðstöðu á síðasta þingi að vera frsm. fjvn., og ég held, að hann hafi þá staðið í nokkuð svipuðum sporum og ég stend nú. Skal ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp það, sem hann sagði þá, einmitt um þessa hluti. Hann segir svo: „Það er þó engan veginn svo, að n. sé ánægð með afgreiðslu frv. frá Ed. Þar hefir aukizt talsvert halli sá, sem var á frv., svo að nú er hann um 600 þús. kr. En þrátt fyrir það, þótt hallinn sé þetta mikill og útgjöldum hafi verið bætt við í Ed., sem full ástæða væri til að taka út aftur, þá hefir n. ekki gert ráð fyrir því, að brtt. á frv. mundu fást, svo róttækar sem þyrfti, og því ekki ástæða til að lengja þingtímann þeirra hluta vegna“. Þetta segir hv. þm. þá, og mér finnst þau rök, sem hann þarna ber fram, vera mjög hin sömu og ég vildi hafa borið fram nú fyrir n. hönd. Ég vænti því, að hv. þm. taki tillit til ummæla þeirra, sem ég las upp, og að hann skilji frekar afstöðu n. nú og þurfi ekki svo mjög að liggja henni á hálsi, þó að hún treysti sér ekki að leggja til, að frv. sé opnað. Hvað hitt snertir, að tveir hv. þm., hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Rang., hafa óskað eftir, að frestað sé umr. um þetta frv. og afgreiðslu, til þess að þeim gæfist tækifæri til að athuga það betur og e. t. v. bera fram brtt. við það, þá þykir mér fyrir mitt leyti ekki ástæða til að amast við því. Ef svo horfir við, að miklar líkur, máske vissa, væri fyrir því, að hægt væri að fá lagfæringu á frv., þá hefði ég sízt á móti því, að umr. yrði frestað.