31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (3965)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Jón Baldvinsson:

Mér þykir það dálítið hastarlegt, sem farið er fram á í þessu frv., en það er að banna innflutning niðursoðinnar mjólkur til landsins. Það er kunnugt, að til skamms tíma hefir talsvert verið flutt inn af niðursoðinni mjólk, og er sjálfsagt óhjákvæmilegt vegna útgerðarinnar. Skipin nota þessa mjólk, þegar þau fara í lengri ferðir og geta ekki haft með sér nýmjólk, sem auðvitað væri æskilegast. Botnvörpuskip flytja inn mikið af þessu, og þótt verksmiðja sé nú risin upp í landinu og geti framleitt mikið af því, sem þarf, þá er ekki verðið hjá þeirri verksmiðju sambærilegt við verð á erlendri mjólk, og innlendur iðnaður á ekki að þrífast í skjóli hárra tolla eða innflutningsbanns, ef það er rétt, að munurinn séu um 20-30%, sem íslenzka mjólkin er hærri. Ég sé að vísu, að hér er ætlazt til, að sett sé hámarksverð á mjólkina, en ég trúi ekki, að það verði gert á þann hátt, að verðið verði samt ekki alltaf talsvert hærra en á erlendri mjólk, og ef ég þekki rétt þann anda, sem nú er í mörgum, þá sé ekki spursmálið, hvað það kostar, heldur að láta kaupstaðafólkið greiða það, sem upp er sett. Þessu get ég því ekki fallizt á að greiða atkv.

Landbn. leggur til, að mjólkurduftið falli burt, og er það sjálfsagt, því að það er ekki búið til hér á landi. En það er ekki aðalatriði í þessu máli, heldur niðursoðna mjólkin. Ég hefi ekki spurt um, hve mikið er flutt inn af þessari vöru, en ég veit, að það er sótt eftir henni, og þegar bornar eru saman skýrslur um verð innlendrar og erlendrar framleiðslu af þessu tægi, því að þrátt fyrir það, að sett hefir verið niður dálítið innlenda niðursoðna mjólkin, þá er hún samt hærri en hin erlenda, og meira munu þeir ekki geta sett hana niður í verði en orðið er; í skjóli þess á ekki að haldast við iðnaður hér á landi. Ég vil því leggja á móti því, að þetta frv. fái afgreiðslu.