02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Magnús Jónsson:

Þetta frv. hefir orðið fyrir þeirri breyt. í hv. Ed., að helmingurinn hefir verið sniðinn af því, þannig að þessi nýju bannlög eiga ekki að ná nema til þessa hættulega vökva, í stað þess að áfengið er bannað í öllum myndum, jafnvel þó að hægt væri að koma því fyrir í fastri mynd. Mjólkin er ekki álitin eins skaðleg, því að það er óhætt að flytja hana inn, ef henni er komið fyrir í dufti, svo að að þessu leyti hefir hv. Ed. dregið ofurlítið úr þessum nýju bannlögum. Ég sé, að því miður hefir hv. Ed. ekki gert þá sjálfsögðu breyt. á frv., sem hún hefði átt að gera, úr því að hún vildi á annað borð afgr. frv. og breytti því, að láta andvirði fyrir innflutta mjólk og sektir renna í menningarsjóð, enda hefði verið sjálfsagt að láta það, sem kemur fyrir ólöglega innfluttar bannvörur, renna í þennan sjóð. Ég er auðvitað á móti þessu frv. jafnt eftir sem áður. Tilgangurinn er alveg jafnaugljós: að láta sjávarútveginn, sem verður að nota þessa vöru, borga hana hærra verði. Þetta er ekkert annað en einn skatturinn, sem lagður er á sjávarútveginn fyrir landbúnaðinn. Ég álít það miklu hreinlegra að leggja slíka skatta hreint og beint á og greiða þá svo út aftur, heldur en að gera beina ráðstöfun til að efla annan atvinnuveginn með því að láta hinn borga, því að tilgangurinn er ekki annar en sá, að mjólkurframleiðendurnir geti fengið meira fyrir sína vöru á kostnað sjávarútvegsins.

Ég vil líka benda á annað atriði. Það er það, að ég held, að hér verði um tap að ræða fyrir ríkissjóðinn, að því leyti, að það má búast við, að þau skip, sem þurfa að nota talsvert af niðursoðinni mjólk, muni reyna að komast hjá að flytja birgðir í land; þau munu nota sína aðstöðu til þess að hafa birgðir sínar í skipinu og nota þær svo án þess að borga nokkurn toll.

Ef það þykir nauðsynlegt að vernda þessa innlendu mjólkurframleiðslu verulega, þá finnst mér nokkru nær að hafa þá aðferð, að leggja toll á þessa vöru. Hitt er hrein og bein háðung, að banna innflutning á henni. Það er svoleiðis braut, að ef farið er inn á hana, þá sé ég ekki betur en að við megum í ýmsum tilfellum öðrum banna innflutning á, vöru, sem er alveg óskaðleg. Þá erum við komnir inn í þá bannlagaflækju, að við yrðum bara að athlægi hvar sem það fréttist, að hér lifði þjóð, sem mætti ekki flytja inn í landið nema einhverjar vissar vörutegundir, vegna þess að hér sé verndartollastefnan svo miklu sterkari heldur en annarsstaðar, að hér dugi ekki einu sinni að leggja tolla á vörurnar, heldur bara að setja blátt bann við innflutningi, til þess að hægt sé ótakmarkað að okra með hinar innlendu vörur.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta, af því að ég þykist vita, að forlög þessa máls séu ráðin. Það er yfirleitt ekki mikið farið eftir rökum í svona málum, heldur bara farið eftir því, hvað menn taka í sig að gera. En það getur vel verið, að gerð verði tilraun til að leggja svipaðan prófstein á þessa menn, sem þetta flytja, og sjá þá, hvort velvildin er sú sama, hvaða atvinnuvegur það er, sem verið er að vernda.