01.06.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (4003)

125. mál, víxillög

Jón Baldvinsson:

Það hefir nú sjálfsagt verið vandað til undirbúnings þessa frv. Mér er sagt, að próf. Ólafur Lárusson hafi um það fjallað, sem hefir vafalaust gengið vel frá því og farið eftir þeim erlendu fyrirmyndum, sem nýbúið er að lögtaka, og þá líklega þeim skandinavisku.

En það er dálítið erfitt fyrir okkur í Ed.samþ. slíkan lagabálk, þegar n. getur ekki ábyrgzt um frágang málsins í einstökum atriðum, sökum þess að ekki var tími til að vinna að málinu. Hinsvegar hefir málið sjálfsagt fengið rækilegan undirbúning í Nd., og þó er nú ekki búið að upplýsa mig um breyt., sem þar var gerð, hvort hún er þörf eða á rökum byggð.

Nú er á það að líta, að þessi lög eiga að ganga í gildi 1. jan. næstk., og þau verða þegar þýdd og send um heim allan, til þess að menn geti eftir þeim farið í viðskiptum við Ísland. Þykir mér þá nokkuð varhugavert að samþ. slíkan lagabálk, ef svo færi, að við þyrftum að breyta honum á næsta þingi og senda þær breyt. út um allar jarðir. Það er nú svo, að þeir menn, sem um þetta mál hafa fjallað, vilja enga ábyrgð taka um afgreiðslu þess. Og þetta mál er að því leyti erfiðara viðfangs en önnur, að það er alþjóðamálefni, miklu erfiðara að gera breyt. á slíkri löggjöf en almennri löggjöf, sem snertir aðeins landsmenn eina. Þess vegna væri kannske réttara að fresta samþykkt þessa lagabálks um eitt ár, þangað til a. m. k. nefndir þær, sem þingið kýs til að fjalla um slík mál, geta látið það frá sér fara eftir rækilega íhugun. Ég tel erfitt fyrir okkur að greiða atkv. um þessa löggjöf að svo stöddu.