30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. fyrri kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Ég vil láta þess getið, að fjvn. hefir ekki haft tækifæri til að athuga þær brtt., sem fyrir liggja, og hafa verið að koma fram allt til þessa. Í byrjun umr. var það till. fjvn., að gengið yrði að frv. eins og það liggur fyrir. Er hún byggð á þeirri reynslu, að hver umr. hækki jafnan útgjöld fjárl., sé annars við þeim hreyft. Og líka á þeim sparnaðarhug!, sem kom í ljós við fyrri umr. hér í hv. d. Er því þessi till. fjvn. gerð í þeim sparnaðaranda, er hún taldi sig hafa sýnt við afgreiðslu frv. Till. hefir ekki verið vel tekið og nú liggja fyrir allmiklar till. bæði til hækkunar og lækkunar, og eru meira að segja sumar þeirra bornar fram af tveim mönnum úr fjvn., sín till. frá hvorum, og þannig sýnt, að n. stendur ekki lengur saman um till. sína áður nefnda. Eftir umtali við nm. get ég samt skýrt frá því, að skoðun meiri hl. n. mun vera óbreytt um það, að réttast sé að breyta sem minnstu, og sérstaklega mælir hann mjög eindregið á móti öllum hækkunartill.

Viðvíkjandi hinni nær óskiljanlegu bjartsýni á tekjuútkomu ríkisins, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh., er það að segja, að vitanlega vildi ég mjög óska eftir, að þær vonir rættust. En hinsvegar vil ég geta þess, að skoðun n. er allt önnur á því efni, eins og ljóst kom fram í till. hennar um lækkun ýmissa tekjuliða, sem hv. d. hefir samþ. Og er skoðun n. óbreytt síðan þær till. voru gerðar. Þó hún vitanlega vildi mjög svo gjarnan, að tekjuvonir hæstv. fjmrh. megi rætast sem bezt, þá telur hún ekki horfa þannig við núna, að mikil líkindi séu til þess.