21.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (4058)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vildi bara ekki láta hv. þm. N.-Þ. ómótmælt slá því hér föstu, þó ekki væri nema frá hans sjónarmiði séð, að með þessu frv. væri gefið fordæmi fyrir því, að öll mjólkurbú, sem stofnuð verða í framtíðinni, skuli fá helming stofnkostnaðar úr ríkissjóði. Þetta er svo fjarri öllu lagi, sem bezt sést á því, að það er látin halda áfram að standa í fjárl. sú heimild, sem þar hefir staðið nokkur ár, til að veita nýjum mjólkurbúum styrk, sem nemur ¼ kostnaðar. Það er hin almenna regla, sem gilt hefir og á að gilda áfram. En við hliðina á henni kemur nú fram frv. um að veita ákveðnum mjólkurbúum viðbótarstyrk, af því að þau hafa orðið fyrir því óláni, eins og mörg nýbyrjunar fyrirtæki í þessu landi, að stofnkostnaður þeirra varð helmingi hærri heldur en áætlað var. Þau hafa orðið fyrir ýmsum kostnaði, sem reynslan hefir sýnt, að komast hefði mátt hjá með annari tilhögun. Sú reynsla gerir aðstöðu þeirra mjólkurbúa, sem á eftir koma, miklu betri; þau geta forðast þau sker, sem brautryðjendurnir á þessu sviði steyttu á. Það kemur skýrt fram í frv., að einungis er um viðbótarstyrk að ræða handa ákveðnum mjólkurbúum, sem byggist alveg á sérstökum kringumstæðum. Þetta er svo augljóst mál, að í sjálfu sér er ekkert meira um það að segja.

Ég vil aðeins benda á það vegna samanburðar hv. þm. N.-Þ. á till. um styrk til frystihúsa og þeim till., sem hér liggja fyrir, að þær eru báðar í samræmi við þá afstöðu, sem þingið hefir áður tekið til þessara mála. Það hefir þótt sá munur á því að koma upp frystihúsi og mjólkurbúi, að Alþingi hefir talið nægilegt að veita hagfelld lán til frystihúsanna, en hinsvegar veitt bæði lán og nokkurn beinan styrk til mjólkurbúanna. Nákvæmlega sömu stefnu er fylgt nú, þegar gera þarf till. um sérstakar ráðstafanir til að bæta hag þessara fyrirtækja; á þeim er gerður hliðstæður munur og áður. Í þessu er ekkert ósamræmi, heldur fyllsta samræmi.

Ég skal ennfremur geta þess, að ekki mun hægt að benda á nein sérstök óhöpp í sambandi við byggingu frystihúsanna, eða að kostnaðurinn við þau hafi farið mikið fram úr áætlun; a. m. k. hefir hann ekki farið svipað því eins mikið fram úr áætlun eins og kostnaðurinn við mjólkúrbúin. Enda er miklu lengra síðan farið var að byggja frystihús hér á landi, og var því nokkur reynsla fengin á því sviði, þegar þau frystihús voru byggð, sem nú er talað um að styrkja.