13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (4125)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir athugað þetta frv., eins og nál. á þskj. 671 ber með sér, og hefir n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með einni tiltölulega lítilli breyt. Er þessi brtt. n. við 2. gr. frv. aðallega orðalagsbreyt., en þó efnisbreyting að því leyti, að n. leggur til, að samtakasvæðið verði fært út, þannig að það geti náð 150 km. frá sölustað, í stað 130 km. í frv. Er þessi breyt. gerð með tilliti til búanna hér eystra og viðskiptasvæðis þeirra. Þá þótti og n. rétt að taka það skýrt fram, hvað lagt væri til grundvallar, þar sem talað er um vegarlengd frá sölustað, — að hér væri átt við venjulegan flutningaveg milli sölustaðarins og hlutaðeigandi héraðs. Óttaðist n., að ágreiningur gæti risið út af þessu, ef það væri ekki tekið skýrt fram, menn gætu farið að tala jafnvel um loftleiðina í þessu sambandi og einhverjar aðrar óeðlilegar leiðir, ef þetta væri látið óákveðið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu að bæta fleiri orðum við það, sem hv. þm. G.-K. mælti fyrir þessu máli við 1. umr., þegar frv. var lagt hér fram, og get ég því látið máli mínu lokið.