18.02.1933
Neðri deild: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (4191)

27. mál, fiskframleiðslu ársins 1933

Ólafur Thors:

Hv. þm. Seyðf. bar fram fyrirspurnir í sambandi við þessi 1., um það, hvort ástæður grg. fyrir nauðsyn þeirra væru enn fyrir hendi, en jafnframt taldi hann, að ekki hefðu verið gefnar nægilegar skýringar fyrir því, að l. voru sett.

Ég býst nú reyndar við því, að öllum hv. alþm. sé kunnugt um, hvers vegna bráðabirgðal. voru sett, og þá hv. þm. Seyðf. líka. Án þess að fara nákvæmlega út í það mál, vil ég þó skýra frá því, að það var stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem átti frumkvæðið að því, að l. voru sett. Stjórn Sölusambandsins kom öll á fund ríkisstj. og tjáði henni, að hún teldi nauðsynlegt, til þess að vernda samtök fiskiframleiðenda, að lögð yrðu höft á sölu nýju framleiðslunnar, meðan eldri birgðir væru að seljast. Ríkisstj. leit svo á, að væri þetta eingöngu gert til verndar gömlu framleiðslunni, þá væri vafasamt, hvort slíkt ætti að veita, og stjórnin ekki tilbúin til þess að taka afstöðu til þess principielt. En aðspurð um þetta, kvað stjórn Sölusambandsins nauðsyn slíkra bráðabirgðal. eins mikið felast í því að vernda áframhaldandi starfsemi Sölusambandsins og halda uppi verði á nýju framleiðslunni. - Stjórnin áleit lífsnauðsyn, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda héldi áfram starfsemi sinni. Og að fengnum framangreindum upplýsingum, ásamt skriflegri greinargerð, taldi ríkisstj. sig tilbúna að verða við tilmælum stjórnar Sölusambandsins og setti því bráðabirgðal. - Vænti ég svo, að ekki þurfi meira um þetta atriði málsins að ræða.

Um það atriði, hvort fella beri l. úr gildi nú þegar, er ekki mikið að segja. Það kann að orka tvímælis, hvort nauðsynlegt sé, að þau standi til 1. apríl. En það ætti þó að vera alveg skaðlaust. Stj. Sölusambandsins er vitandi þess, að nauðsynlegt er, að menn hafi sem frjálsastar hendur um sölu á framleiðslu sinni. Hún gerir það því alls ekki að gamni sínu að hindra sölu manna, þó það muni hafa verið gert í einstaka tilfelli. Þess má geta, að á aðalfundi Fiskifélagsins kom fram till. um að afnema 1. strax að því er snertir sölu á blautum fiski. Var sú till. rökrædd. En niðurstaðan varð sú, að allir, nema einn, greiddu atkv. gegn till. Bar sú afgreiðsla vott um, að annaðhvort hefir meiri hl. fundarins talið nauðsynlegt, að l. giltu áfram, eða a. m. k. að það skaðaði ekki. Ég tel og, að heppilegt geti verið, að bráðabirgðal. gildi til 1. apríl og að það sé a. m. k. alveg hættulaust.