20.02.1933
Efri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (4222)

22. mál, vegarstæði og götulóðir í kaupstöðum og kauptúnum og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það er þegar viðurkennt í lögum, að eigendur lands, sem tekið er undir vegi eða aðrar opinberar framkvæmdir, eigi bætur skilið fyrir það land, sem tekið er. Þegar um land undir opinbera vegi er að ræða, greiðast bæturnar vegna þjóðvega úr sýslusjóðum, en ella úr sjóðum bæjar eða sveitar.

Það hefir komið í ljós, að þetta er ekki að öllu leyti sanngjarnt fyrirkomulag. Oft hefir farið svo, sérstaklega í bæjum og kauptúnum, að réttlátara hefði verið, að bæturnar fyrir landið væru greiddar af einstaklingum þeim, sem mestan bera hagnað úr býtum vegna þessara opinberu framkvæmda, heldur en úr sjóðum almennings. Ég skal taka sem dæmi veg, sem lagður er á lóðamörkum, en þó aðeins öðrumegin við lóðamörkin. Land það, sem þannig liggur að hinum nýja vegi og ekkert hefir verið tekið af undir veginn, hækkar venjulega og oft mikið í verði fyrir það, að vegurinn var lagður. Sýnist ekki ósanngjarnt, að eigandi þess lands greiði hluta af skaðabótum þeim, er hið opinbera verður af hendi að láta fyrir það land, sem tekið var undir veginn.

Annað dæmi get ég nefnt um hafnarmannvirki eða lendingarbót eins og bryggju, sem lögð er fram af lítilli landspildu, þar sem beggja megin eru miklar lóðir, sem stórhækka, ef til vill tífaldast eða tvítugfaldast að verði vegna þessara opinberu aðgerða. Ég tel sanngjarnt, að þeir, sem þannig græða á slíkum opinberum mannvirkjum, taki, að því leyti sem þörf krefur, þátt í greiðslu þeirra skaðabóta, er láta verður fyrir land það, sem tekið er, en ekki, að slíkar byrðar séu lagðar á herðar almennings, sem engan þvílíkan hagnað hefir af mannvirkjunum.

Markmið þessa frv. er að koma í veg fyrir það, að bæjarsjóðir og sveitarsjóðir séu látnir greiða að öllu skaðabætur fyrir tekið land í slíkum tilfellum og þessum, þegar hækkun landsins umhverfis mannvirkin nemur meiru en skaðabæturnar, svo sem oft er.

Oft er það, að hagnaður einstaklinga þeirra, sem þessarar verðhækkunar njóta, kemur ekki þegar í ljós, og stundum ekki fyrr en eftir nokkur ár. Því getur það stundum verið ósanngjarnt að gera hlutaðeigendum að greiða sinn hluta skaðabótanna strax, heldur síðar, jafnóðum og það kemur í ljós, hver verðhækkunin verður. Í frv. er og gert ráð fyrir því, að skaðabætur fyrir land, sem tekið er eignarnámi, séu greiddar eiganda landsins strax, þó að verðhækkun á landinu umhverfis komi ekki fram fyrr en síðar. Vitanlega verða þá bæjar- eða sveitarsjóðir að greiða skaðabæturnar í fyrstu, en fá þær svo endurgreiddar síðar. Þegar um háar upphæðir er að ræða, sem eiga að endurgreiðast bæjar- eða sveitarsjóðum, er vitanlega sjálfsagt, að bæjar- og sveitarfélögin veiti gjaldfrest, því það getur verið hagkvæmt fyrir þau sjálf að sýna sanngirni í þessum efnum, hver sem í hlut á. Í frv. eru svo nánari reglur um mat á landi, sem bætur eiga að greiðast fyrir, og annað, er þar að lýtur, en sem ég hirði eigi að fara nánar út í að þessu sinni.

Ég skal taka það fram, að ég ætlast til, að frv. nái ekki aðeins til kaupstaðanna og þeirra kauptúna, sem hafa staðfest skipulag, heldur einnig til þeirra kauptúna, sem skipulagslögin ná ekki til.

Hitt væri nauðsynlegt, að fá síðar sérstök lög sett um sérstaka gjaldstofna fyrir kaupstaðina og þau kauptún, sem skipulagslögin ná til, svo að unnt verði að stofna sérstaka skipulagssjóði til að bera þann mikla kostnað, sem víða mun leiða af framkvæmd laganna um skipulag bæja.