30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (4233)

48. mál, lögreglustjóra í Bolungavík

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vildi ekki láta ómótmælt því, sem hv. frsm. meiri hl. ( SvbH ) sagði - sem reyndar er nú ekki neinn meiri hl., þar sem það eru aðeins tveir á móti - , um þetta frv., að það mundu koma svo margir á eftir með slíka beiðni. Það er ekki hugsanlegt, að það geti komið fram beiðni nema frá þessu héraði og Keflavík. Það er búið að setja lögreglustjóra á Akranesi og bæjarfógeta á Norðfirði. Hinsvegar eru sýslumenn (lögreglustjórar) í öllum stærri kauptúnum og þorpum, t. d. á Húsavík, Sauðárkróki, Blönduósi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Borgarnesi og Eyrarbakka. Það er ekki hugsanlegt, að sveitirnar kæmu á eftir, því hvaða sveit á þessu landi mundi óska að fé sérstakan lögreglustjóra og þurfa að borga honum 3- 4 þús. kr. til þess að annast innheimtu sveitargjalda?

Þarna stendur svo sérstaklega á, eins og ég hefi áður getið um, að það hefir reynzt ótækt að innheimta. Oddvitar hafa gengið frá því hver á eftir öðrum. Og mér er spurn: Hvað ætlar ríkisstj. að gera til þess að innheimta ríkistekjurnar? Um síðustu áramót var óinnheimtur 1/3 hluti af ríkistekjum og um helmingur af tekjum hreppsins, af því að fólkið er ekki stöðugt í þessu plássi. Það leitar sér atvinnu til og frá í landinu, og er því erfitt að ná í gjöld hjá því.

Það væri meira en lítil óbilgirni við hérað, sem hefir borgað á hverju ári undanfarið um 100 þús. kr. beint í ríkissjóð, að neita því um þetta. Ég veit, að þetta mál nær fram að ganga, þó að það verði ekki að þessu sinni, því hvað ætlar ríkisvaldið að gera, þegar borgararnir treysta sér ekki til þess að annast þetta starf'? Það væri ekki kostnaðarminna fyrir ríkissjóð að setja sérstakan innheimtumann á þessum stað. Það væri til meiri óþæginda fyrir hreppsbúa og áreiðanlega kostnaðarmeira fyrir ríkissjóð. En þegar saman fara hagsmunir ríkissjóðs og héraðsins, þá vil ég segja, að það sé nokkuð mikil óbilgirni að neita um þetta, þegar búið er að setja bæjarfógeta á Norðfirði með 5 þús. kr. launum, kostaðan að öllu af ríkissjóði, í þorpi, sem hefir rétt að segja sama mannfjölda og Bolungavík.