01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (4248)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Vilmundur Jónsson:

Ég vil þakka hv. allshn. fyrir undirtektir hennar við þetta frv., þótt hún hefði mátt afgreiða það nokkru fyrr. Ég tel það að sjálfsögðu galla á nál., að hv. n. hefir lagt til að fella niður ákvæðin um yfirsetukonurnar, þar sem það er nokkuð algengt, að víða gengur illa að hafa þau störf skipuð eins og vera ber. Þó gæti ég til samkomulags fallizt á, að niður verði felld ákvæði 3. gr. frv. um að verja megi fé úr læknishéraðasjóði til þess að greiða uppbót á laun yfirsetukvenna, og mun ég nú þegar við þessa umr. flytja skrifl. brtt. við 3. gr. um þetta.

Ástæðan til þess, að tekin voru upp í frv. ákvæði um það, að laun yfirsetukvenna í þeim umdæmum, er auð kunna að verða, falli til þessara sjóða, er sú, að það þykir bera á því, að sýslunefndir og sveitarhöfðingjar séu ekki svo duglegir sem skyldi að útvega konur til þessara starfa, og er eðlilega á það bent, að menn vilji gjarnan spara sér að greiða laun yfirsetukvennanna. Aftur á móti, ef samþ. yrði ákvæði l. gr. frv. um þetta efni, mundu menn aldrei sjá sér beinan hag í því að hafa einstök umdæmi yfirsetukonulaus, og síður verða andvaralausir um að fá stöðurnar skipaðar. Vænti ég, að hv. þd. skilji þetta og samþ. 1. gr. frv. óbreytta, líka með tilliti til þeirrar skrifl. brtt., er ég flyt við 3. gr., um að orðin um uppbót á laun ljósmæðra falli niður.