27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (4428)

97. mál, veitingaskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég þakka meiri hl. hv. fjhn. fyrir afgreiðslu sína á þessu máli, bæði um það, að leggja til, að frv. verði samþ., og eins fyrir brtt., því að þær fara allar í rétta átt. Það er alveg réttilega fram tekið hjá hv. 1. landsk., að sá skattur, sem þetta frv. fjallar um, er principielt réttmætur. Hitt má vitanlega deila um, hversu tekst um framkvæmd þessara laga eða innheimtu skattsins. En ég hygg, að því verði tæplega mótmælt með rökum, að þessi skattur gefur töluverðar tekjur í ríkissjóð. Ég hygg, að það verði tiltölulega auðvelt fyrir innheimtumenn skattsins, lögreglustjórana, að ákveða skattskyldu hinna einstöku veitingahúsa; þeir eru svo kunnugir hver í sínu umdæmi. Hitt getur frekar komið til mála, að í byrjun verði dálítið örðugt að framkvæma eftirlitið og ákveða refsingar fyrir brot á ýmsum atriðum laganna, en sá vandi er vitanlega fyrir hendi á fleiri sviðum skattalaganna, og greiðist venjulega úr honum með vaxandi reynslu. Það er ekki víst, að tekizt hafi að ganga þannig frá refsiákvæðum þessara laga, að þau verði sem heppilegust í framkvæmd, en þá má gera endurbætur á þeim síðar, að fenginni reynslu. Það er sjaldan hægt að ganga svo frá skattalögum í upphafi, að þau þurfi eigi umbóta við síðar, þegar þau hafa verið reynd um nokkurt tímabil. Ég held, að það verði ekki talið óheppilegt að leggja þennan skatt á nú. Á þessum tímum er réttmætt að skattleggja þá eyðslu í landinu, sem borgararnir geta komizt hjá, að mestu leyti sér að meinalausu. Og þess vegna vænti ég, að frv. verði samþ. af hv. þd.