21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

3. mál, landsreikninga 1931

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Um 1.—4. og 6. lið 24. aths. endurskoðenda LR. get ég látið mér nægja að vísa til þess, sem hæstv. fjmrh. hefir sagt, enda hefir hv. 3. þm. Reykv. undirskrifað og samþ. úrskurði fjmrn. sem yfirskoðunarmaður. Þau atriði eru því úr sögunni. Um 5. lið er það að segja, að tvö hælin hafa þegar endurgreitt tækin, og hjá tveimur, Kópavogs- og Kristneshæli, eru þau í innheimtu, og býst ég við, að þær stofnanir inni greiðsluna af hendi á þessu ári. Þá Viðvíkjandi almennum sparnaði við útvarpið vil ég geta þess, að stjórnin mun reyna að gæta sparnaðar eftir föngum við þessa stofnun sem aðrar. Ég vil geta þess, að þegar útvarpsráðið sendi mér fjárhagsáætlunina í haust, lækkaði ég hana um 10 þús. kr. Þetta er auðvitað bein fyrirskipun um að gæta sparnaðar.

Ég ætla ekki að gefa útvarpsstjóra fremur en hv. þm. sjálfum neitt allsherjarvottorð um sparsemi. Ég vil aðeins geta þess, að útvarpsstjóri hefir sýnt áhuga um tekjuöflun handa útvarpinu bæði með fréttasölu til blaða og öflun auglýsinga. Í fjárl. frv. sést, að gert er ráð fyrir allmiklum tekjum af auglýsingum. Til dæmis um sparnaðarhug stj. í sambandi við þessa stofnun í framtíðinni vil ég henda hv. 3. þm. Reykv. á, að í fjárlfrv. eru gjöldin til útvarpsins færð niður úr 27 þús. kr. í 11 þús. kr. Ef fjárveitinganefndir verða á sama máli, er sparnaðarhugur þings og stjórnar á þessu sviði augljós.

Hv. þm. Dal. benti á, að skýrslur hinnar umboðslegu endurskoðunar hefðu átt að liggja fyrir yfirskoðunarmönnum áður en þeir gerðu aths. sínar.

Ég get tekið það fram um þetta atriði, að ég held, að yfirskoðunarmenn hafi verið byrjaðir á endurskoðuninni áður en úrskurðir fjmrn. voru kveðnir upp, en þó munu þeir eigi hafa verið svo langt komnir, að þeir hefðu getað kynnt sér þá, og ég ætla, að þeim hafi verið þeir kunnugir, a. m. k. eftir munnlegri frásögn.