17.03.1933
Neðri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (4619)

108. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Á öndverðu þessu þingi bar stj. fram frv. til l. um sérstaka heimild til að afmá veðskuldbindingar úr veðmálabókum. Það frv. er lagt fram til að ráða bót á þeim annmörkum, sem nú eru á afsals- og veðmálabókum og myndast við það, að menn vanrækja að láta aflýsa veðbréfum sínum. Þetta litla frv. um breyt. á aukatekjul. fer fram á, að aflýsingargjaldinu verði breytt þannig, að í stað þess að menn nú greiði mismunandi upphæð, frá 2- 12 kr., þá verði nú eitt gjald ákveðið fyrir öll bréfin, án tillits til upp hæðar, og sé það 3 kr. Þegar þess er gætt, að öll þau skjöl sem eru undir 5000 kr. að upphæð - og það er meginþorri allra þeirra skjala, sem aflýst er - , þá er auðséð, að flest skjöl lenda undir 3 kr. gjaldi. Aftur eru alltaf nokkur skjöl, sem eru hærri að upphæð, og stundum myndi því þurfa að greiða meira gjald. En hér er þó við að athuga, að ef fast lægra gjald væri ákveðið, þá er ég sannfærður um, að menn myndu almennt skila skjölum sínum til aflýsingar miklu frekar en nú er. Þannig myndi að miklu leyti hægt að ráða bót á því ólagi, sem nú er á afsals- og veðmálabókunum. Það er mjög bagalegt fyrir menn, þegar þeir þurfa að fá veðbókarvottorð, að þá skuli hvíla á eignunum allskonar veðbönd óaflýst. Það má auðvitað segja, að þetta sé þeirra sök og að þeir hafi vanrækt að láta aflýsa bréfunum, en oft er það, að þeir hafa alls ekki skjölin, og er þá ekki um annað að gera en fá þau ógilt með dómi, til þess að þeir geti notað eign sína til nýrra veðsetninga. Þetta getur valdið eigendum miklu óhagræði og óhæfilegum kostnaði. Ég held, að þetta nýja gjald, sem nú er stungið upp á, myndi festast fljótt í hugum manna og að þeir myndu frekar koma sér að því að senda bréfin til aflýsingar, þegar þeir vissu nákvæmlega, hvaða gjald skyldi fylgja. Svo væri og sýslumönnum og bæjarfógetum hægra um hönd að benda mönnum á nauðsyn aflýsingarinnar, bæði fyrir þá sjálfa og einnig til þess að embættismennirnir gætu haft bækur sínar í lagi. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að hér geti ekki verið um neitt verulegt tap fyrir ríkissjóð að ræða, því að þótt gjaldið yrði ákveðið lægra en það er nú í nokkrum tilfellum, þá myndi bréfunum, sem aflýst yrði, fjölga gífurlega.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vísa til grg. um hin einstöku atriði.