20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (4635)

112. mál, fasteignamat

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það má kannske líta svo á, að það sitji illa á mér sem fulltrúa fyrir Rvík að láta í ljós um þetta frv., að ég telji það ekki rétt, að það verði að lögum. Þegar fyrir fáum árum var breytt til um gjaldstofn fyrir bæjarsjóð Rvíkur á þann hátt, að fasteignir skyldu verða skattlagðar, var samþ. af bæjarstj. að fara þess á leit við Alþingi, að heimila að leggja allt að 2% minna á skattgreiðendur til bæjarsjóðs, þá var ég á móti þessu. Að vísu fór það svo, að eftir ósk bæjarstj. var samþ. af Alþingi princip fyrir þessu, en gjaldið færðist niður, svo það er nú, eins og hv. þm. gat um, 6‰ af lóðaverði og 8‰ af húsaverði í bænum.

Ég var á móti þessu af því, að ég áleit ekki hentugan tíma til að gera breytingar á skattstofni bæjarsjóðs, þar sem allar líkur voru til þess, að þetta yrði gert með svo stóru stökki, að það kæmi óþægilega við fasteignaeigendur í bænum. Nú varð þetta að lögum og bæjarsjóður hefir fengið vaxandi tekjur af þessu með ári hverju. Því mætti segja, að það væri undarlegt af mér sem fulltrúa fyrir Rvík að andmæla þessu frv., sem fer fram á að lækka greiðslur til ríkissjóðs af þessum gjaldstofni, og þá einnig til bæjarsjóðs, þar sem bæjarsjóður hefir fasteignirnar að gjaldstofni. En ég verð að segja, að hér sé fyrst og fremst um stefnumál að ræða, principmál, og það svo alvarlegt, að gjalda þarf varhuga við og athuga vandlega áður en gengið er inn á þá braut. Hér er farið fram á hvorki meira né minna en það, að þrátt fyrir löggilt mat á fasteignum landsmanna, þá sé hægt að ákveða hér á Alþingi, hvaða mat er lagt til grundvallar við útreikning skatts á fasteignir landsmanna. Ef Alþingi gengur inn á þá braut að taka í sínar hendur að ákveða sjálft verðið á fasteignum landsins, sem skattarnir eru miðaðir við, þá þykja mér allar líkur til þess, að þetta verði mikið frekar til kostnaðar fyrir fasteignaeigendur en að af því geti stafað hagsmunir fyrir þá, því að þó hér sé farið fram á að lækka, þá er hér um leið opnuð leið til þess, að á næsta ári eða árið þar á eftir verði gerð ráðstöfun til þess að hækka þennan gjaldstofn. Hvers vegna skyldi ekki mega hækka hann eins og lækka, ef þingið hugsar sér að taka sér það vald að ráða þessu sjálft? Þess vegna er varhugavert fyrir fasteignaeigendur að fara fram á það við Alþingi að breyta matinu. Ég held, að þingið eigi ekki að taka upp þá stefnu.

Nú er það alveg eins hægt og að gera ráð fyrir því, að það sé aðalástæðan til þess, að þessi ósk er komin fram af því, að fasteignaeigendur séu óánægðir, að láta sér detta í hug, að matið verði ennþá ósanngjarnara í einstökum tilfellum. Mér er kunnugt um ýms tilfelli hér í Rvík, þar sem matið er fjarri öllum sanni. En það má ekki líta á þetta í sambandi við það frv., sem hér er til umr., þó að hlutfallið milli mats á einstökum eignum sé ekki sanngjarnt og eigandinn sé óánægður með matið í þessu efni. Ég tók eftir því í ræðu hv. flm., að hann ætlaðist alls ekki til þess, að þessi breyt., sem hér er farið fram á, gilti öll þau 10 ár, sem framundan eru og þetta mat á að ná til, heldur er með því beinlínis brotið upp á því, að Alþingi breyti hvenær sem ástæða þykir til að fá nýjan grundvöll undir skattaálögurnar. Þess vegna held ég, að það megi ekki líta á það eingöngu, hvort það sé hentugt fyrir fasteignaeigendur nú að lækka gjaldstofninn eða ekki, heldur verði fyrst og fremst að líta á það, að með matinu er ákveðið af öðrum aðilum, hver grundvöllur er undir þessum gjaldstofni til ríkisins og sveitarfélaga, og við því megi ekki hreyfa.

En sama gildir að vísu ekki um sjálfan skattstigann, að því er snertir prócentutalið, sem heimtað er af fasteignum til ríkis og bæja. En ég held, að segja megi með vissu, að það sé hagsmunamál allra aðila, sérstaklega þó gjaldendanna í þessu sambandi, að ekki sé farið að lækka matið annað árið til þess að hækka það á næsta ári, eða sem sagt að rokka með það eins og þarfir ríkissjóðs í hvert skipti kunna að heimta. Þess vegna treysti ég mér ekki að svo komnu að greiða því mitt atkv. Ég held ég verði fyrst og fremst að líta á þetta sem principmál skattgjaldenda og Alþingis, en ekki hvort það spari gjaldendum nokkrar krónur að fá þetta lækkað að þessu sinni.