27.02.1933
Neðri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. leggur til, að þetta frv. verði samþ., og ber hún engar brtt. fram við það. En eins og getið er um í nál., þá áskilja einstakir menn sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv. Og nú eru fram komnar brtt. á þskj. 58 frá einum nm., hv. þm. N.-Ísf. En af því að n. hefir ekki tekið afstöðu til þeirra, þá mun ég ekki ræða um þær að svo stöddu.

Aðalatriði þessa frv. er að framlengja l. um bifreiðaskatt o. fl. frá síðasta þingi.

Ég býst við, að flestum sé það ljóst, að ríkissjóður má ekki við því að missa þær tekjur, sem lögin veita eins og ástæður hans eru nú, og ef þær yrðu rýrðar, þá mundi það koma niður á vegaviðhaldinu og vegabótum í landinu, og væri það sannarlega vafasamur gróði fyrir þá, sem greiða þennan skatt.

Ég skal geta þess, að n. sá ekki, hvaða þýðingu það ákvæði hefði í 3. gr. frv., að 10. gr. 1. frá í fyrra félli niður. En þessi 10. gr. l. ákveður, að 1. frá 1921 séu úr gildi numin með l. frá síðasta þingi. Þó að 10. gr. sé felld niður nú, þá öðlast lögin frá 1921 ekki gildi aftur, enda mun það ekki hafa verið tilgangurinn. Hinsvegar virðist þetta ákvæði skaðlaust og engri breyt. valda, svo að n. sá ekki ástæðu til að flytja brtt. um að fella þessa 3. gr. úr frv. Það kom til tals í n., að einhver óánægja hefði átt sér stað út af framkvæmd á 7. gr. l. frá síðasta þingi, um endurgreiðslu á benzíntolli, sem þar um ræðir, og að ýmsum hefði gengið illa að fá þá greiðslu. Að vísu sá n. ekki ástæðu til að bera fram neinar brtt. út af þessu, en ég vildi beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann sjái ástæðu til þess að gefa hv. þdm. upplýsingar um þetta atriði. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frv. frekar, það var svo mikið um þetta mál fjallað á síðasta þingi.