27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (4779)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég vil algerlega mótmæla því hjá hv. 5. landsk., að við Hafnfirðingar getum ekki unnað öðrum að njóta þessa lands, heldur viljum ná því undir okkur af þeim ástæðum. Það verður og auðveldlega sannað, að Hafnfirðingar höfðu hug á þessu landi, áður en þeir fengu það, Hermann Jónasson og Tryggvi Guðmundsson, því að á síðasta þingi flutti ég einmitt fyrst frv. og síðan þáltill. í þessu máli, og var þetta áður en þessir menn fengu landið. - Það má vera, að Garðhverfingar sumir hverjir hafi haft á móti því, að þetta land legðist undir Hafnarfjörð, en fyrir þeim vakir þá alls ekki það, að þeir vilji, að Hermann Jónasson og Tryggvi Guðmundsson fái landið, heldur vilja þeir notfæra sér það sjálfir, og væri það réttlætanlegra en að fá þetta land mönnum, sem ekki þurfa á því að halda, en aðeins ætla að hafa sér það til skemmtunar, eins og lögreglustjórinn segir um sig í bréfi sínu, er ég áður hefi getið um.

Hv. 5. landsk. er enn að klifa á því, að hann ætli við síðari meðferð þessa máls hér í d. að lesa hér upp ýmsa erfðafestusamninga Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar til samanburðar við þennan samning sinn við Hermann Jónasson. Skal hv. þm. sízt halda það, að mér sé nokkurt mein í því, þótt hann noti nú tækifærið til að festa þessa samninga í Alþt., en ég vil þó aðeins stinga því að hv. þm., að ekki er víst, að slíkur upplestur verði honum til framdráttar, fremur en varð upplestur hans á læknareikningunum á síðasta þingi, sællar minningar. (JónasJ: Ég gerði það aðeins til ergelsis fyrir þennan lækni). Þá fór hv. 5. landsk. að spá fram í tímann, og gerði ráð fyrir, að íhaldsmenn ættu eftir að komast í meiri hl. í Hafnarfirði. Er ég hv. þm. þakklátur fyrir þessa vingjarnlegu spá hans, þótt ekki sé hann nú spámannlega vaxinn, og til þess að gjalda honum í einhverju á móti, vil ég segja honum það, að ef ég ætti þá enn að sitja í bæjarstj. Hafnarfj., mundi ég eftir sem áður fylgja fram kröfunni um það, að þessu landi verði skipt í smábýli fyrir Hafnfirðinga.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Árn., að verið væri að taka þetta land af Garðahreppi, en þetta er að svo miklu leyti rangt, að hér er þvert á móti verið að taka þetta af mönnum utan Garðahverfis, en ekki af Garðhverfingum sjálfum, sem enda njóta einskis í, þótt þessir menn sitji að eignunum.

Hvort máli þessu verður vísað til allshn. eða landbn., læt ég mér í léttu rúmi liggja. Form. þessara n. hvor um sig kynoka sér við að fá málið til meðferðar, og kemur í þessu greinilega fram, hvílíkt vandræðamál þetta er fyrir Framsfl. Ég vænti meiri skilnings á málinu hjá landbn. en allshn., og af því jafnframt að ég álít, að málið heyri fremur undir hana, legg ég til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar.