01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er svo ákveðið í 7. gr. l. frá síðasta þingi um bifreiðaskatt o. fl., að um benzín, sem sannað er, að ekki hefir verið notað til bifreiða, megi stj. gefa út reglugerð um endurgreiðslu á tolli af því. Þó nær þessi heimild, um endurgreiðslu á tolli, aðeins til þeirra benzínnotenda, sem nota minnst 750 l. á ári af benzíni til annars en bílarekstrar. Hv. þm. N.-Ísf. minntist á þessa undanþáguheimild við 2. umr. þessa máls, en samkv. 1. er það lagt á vald stj. að gefa út reglugerð um það. Hv. þm. gat þess, að þessi reglugerð hefði ekki enn verið gefin út, og í tilefni af því lét hæstv. forsrh. þess getið, að verið væri að undirbúa reglugerðina, og að hún myndi bráðlega út gefin.

Í 1. er svo ákveðið, að lágmarkstakmark þeirrar benzíneyðslu, er endurgreiðsla fæst fyrir, skuli vera 750 1., og er það miðað við það, sem opnir vélbátar nota. Það er því augljóst, að fjöldi bátaeigenda þarf að greiða þennan benzínskatt, eins og þó þeir hefðu notað benzínið til bifreiða. Nú er það kunnugt, að þetta fé á eingöngu að notast til vegalagninga og viðhalds á vegum í landinu, en öllum má vera ljóst, að það er ekki réttlátt, að slík gjöld séu lögð á herðar þeirra manna, sem nota benzín til rekstrar vélbáta.

Það er einnig kunnugt, að allur fjöldi af smærri vélbátum notar ekki svo mikið benzín árlega, að nemi 750 l., og þess vegna yrðu þeir samkv. l. skattlagðir eins og bifreiðar. Við höfum því, nokkrir þdm., komið fram með brtt. á þskj. 64, þess efnis, að þegar benzínnotkun einstaklinga, til annars en bifreiðarekstrar, nær 250 1. árlega og þar yfir, þá skuli ríkissjóður endurgreiða þeim benzíntollinn. Náttúrlega er það eðlilegt og sjálfsagt, að þessi tollur sé endurgreiddur af öllu því benzíni, sem notað er til annars en bílarekstrar, hvað lítið sem það er, en vegna þess að það þótti hægara í meðferð við framkvæmd á slíkum endurgreiðslum, þá vildum við setja þetta lágmark. Enda er það ákveðið með tilliti til þess, að mestur hluti vélbáta mundi þá sleppa við skattinn. Við væntum, að þessi brtt. nái fram að ganga, af því að hún er svo sanngjörn.

Ég sé, að það er fram komin brtt. á þskj. 67, við þessa brtt. okkar, frá meiri hl. fjhn., þess efnis, að í stað 250 1. lágmarks komi 500 l., en um þá till. er hið sama að segja og það lágmark, sem nú er í l., að meiri hl. vélbáta mundi þá verða að greiða skattinn, og þarf ég ekki að skýra það nánar. Ég vænti því, að brtt. okkar á þskj. 64 verði tekin til greina.