01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (4786)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Páll Hermannsson [óyfirl.]:

Ég hefi skrifað undir þetta mál með fyrirvara, og þykir mér rétt að gera grein fyrir hvers vegna.

Hv. þm. Hafnf. sagði rétt þegar hann settist niður, að hann vonaðist eftir, að þetta mál fengi fljótari og betri afgreiðslu á næsta þingi heldur en það hefir fengið nú. Í sambandi við þessi ummæli hans þykir mér rétt að benda fyrst á það, að í raun og veru hefi ég litið svo á síðan ég fór að kynna mér þetta mál, að ekki yrði hægt að afgr. það viðunanlega á þessu þingi. Ég hefi álitið, að það væri heppilegast fyrir málið í heild, að það væri undirbúið til næsta þings. Nú lítur hv. þm. Hafnf. svo á, að frestur muni fást á þann hátt, að tími muni varla vinnast til að afgr. málið á þessu þingi. Ber að því leyti að sama brunni eins og þó fallizt hefði verið á mína skoðun og málinu vísað til stj. til frekari rannsóknar og undirbúnings. Það, sem olli því, að ég áleit þá leið heppilegasta, voru hinar afarmismunandi uppástungur, sem gerðar höfðu verið í málinu.

Það er kunnugt, að auk þess frv., sem hér liggur fyrir, hafa komið fram tvö önnur frv. í sambandi við landþörf Hafnfirðinga og hvernig skuli úr henni bæta. Er það frv. á þskj. 99, um eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti á nokkrum býlum á Hvaleyri við Hafnarfjörð, og svo frv. á þskj. 88, um eignarnám á þeim löndum, sem um ræðir í hinum frv. báðum, auk nokkurra annara jarða.

Nú verð ég að játa, að ég tel það óráðið mál, hvernig framtíðin snýst við því að, fullnægja mjólkurþörf kaupstaðanna Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hvort bætt verður úr mjólkurþörfinni á þann hátt, að sveitirnar framleiði mjólkina og selji til kaupstaðanna, eða að bæirnir, að meira eða minna leyti, eða einstakir menn í bæjunum sjái um þessa framleiðslu. Nú býst ég ekki við, þó að málið verði rannsakað til næsta þings, að þessi gáta verði leyst, en þó mætti verða nokkuð betri aðstaða til að athuga, hvor leiðin væri líklegust í þessu máli. Þess vegna hefði ég talið það heppilegasta lausn á málinu að vísa því til stj., í því trausti, að henni tækist að leggja fram skynsamlegri till. en kostur er á að leggja fram nú á þessu þingi. Ég man ekki, hvort hv. frsm. gat um það, að n. hefir leitað upplýsinga í málinu úr ýmsum áttum, t. d. frá Búnaðarfél. Íslands. Þaðan fékk hún upplýsingar í tveimur eða þremur útgáfum, sem alls ekki bar saman, svo n. átti allerfitt með að átta sig á því, hvað réttast mundi vera í málinu. Það varð þó ofan á, að n. skilaði því áliti og brtt., sem hér liggja fyrir. Ég gekk inn á að skila málinu í þessu formi, en við till. n. hefi ég þó það að athuga, að mér þykir með þeim allt of lítið að því gert að hafa til ræktanlegt land handa Hafnarfjarðarkaupstað, með því ég tel það mjög undir hælinn lagt, hvað mikið land það verður, sem Hafnfirðingar fá frá þessum þremur mönnum, sem nefndir hafa verið. Ég skal að vísu játa, að ekki er hlaupið að því að gera till. um þetta efni, enda er með þessum brtt. n. engin fullnaðarlausn fengin. Þá þykir mér rétt að játa það, að það land, sem liggur rétt við Hafnarfjarðarbæinn, Hvaleyrin, er ekki nema að hálfu leyti eign bæjarins. Það hefir verið bent á, að þetta land er að mestu leyti ræktað tún, en ég hefi sjálfur séð það, og mér virðist, þó það sé tún nú, þá sé það betur fallið til annarar ræktunar en túnræktar. Hvaleyri er tangi, sem liggur að ég ætla frá suðri til norðurs, hann er hæstur í miðjunni og myndar þannig ávalan hrygg. Sú hliðin, sem liggur mót vestri, er minni og sýnist mjög illa löguð til túnræktar, en er að líkindum vel fallin til garðræktar, einkum kartöfluræktunar. Þetta land liggur að sandi, sem fýkur á það, og þegar ég skoðaði það ásamt hinum hv. þm. landbn. og hv. þm. Hafnf., virtist mér sem landið væri yfirrokið af sandi. Nú er ég ekki í vafa um það, að ef Hafnfirðingar nota sjálfir þetta land sitt til ræktunar, þá er það bezt fallið til garðræktar fyrir þá, þegar einnig er á það litið, að þeir eiga lítið af garðalandi. Ég held því, að þeir fái margfaldar tekjur af þessu landi, ef þeir breyta því í garða. Að vísu má búast við því, ef Hafnfirðingar líta svo á, að þetta beri að gera, að þeir geti fengið þetta land án þess að sérstök löggjöf sé um það sett. Mér hefir skilizt, að hv. þm. Hafnf. líti svo á, að hlut Hafnarfjarðar sé sæmilega ráðið eins og till. landbn. mæla fyrir, en jafnvel þó að hv. þm. telji þetta nóg, þá mun ég við 3. umr. bera fram brtt. um að heimila eignarnám á þeim hluta af Hvaleyrinni, sem bærinn á ekki. Þetta tvennt gerði það að verkum, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, að ég hefði fremur kosið, eins og sakir standa í málinu, að afgreiðslu þess yrði frestað til næsta þings, svo betri athugun geti farið fram, og í öðru lagi, að mér finnst of lítið séð fyrir landþörf kaupstaðarins með brtt. landbn., ef hann á annað borð vill taka land til ræktunar svo nokkru nemur.