08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (4907)

74. mál, eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti

Jón Baldvinsson:

Mér virðist ekki orðið ástæðulaust að leiða hv. dm. að aðalatriðum þessa máls, því að svo virðist, sem þeir hv. þm. Hafnf. og hv. 5. landsk. séu farnir að deila um ýmislegt, sem ekki kemur málinu við, - má vera til þess að leiða athygli frá því.

Aðalatriði þessa máls er það, að í fyrra vildi Alþingi, eða a. m. k. þessi hv. d., láta Hafnarfjarðarkaupstað fá land til ræktunar úr Garðalandi, sem þá lá fyrir að skipta. En þetta gerði hv. 5. landsk. ekki, sem þá var ráðherra, heldur leigði hann landið á sama tíma til einstakra manna, land, sem átti að leigja kaupstaðnum til ræktunar samkv. yfirlýstum vilja Ed. Þetta er aðalkjarni þessa máls. Viðbót sú, sem hv. 5. landsk. kemur nú fram með, um að heimila að taka eignarnámi ábúðar- og erfðafesturétt hjá bændunum á Hvaleyri, er ágæt, og vænti ég því, að hún gangi ekki síður fram heimildin um, að taka megi eignarnámi lönd þau, sem dómsmrh. afhenti í fyrra einstaklingi í Rvík og öðrum í nágrenni Rvíkur. Hv. flm. frv. þessa hefir látið prenta í grg. þess tvo samninga. Samning, sem hann gerði, og annan, sem gerður er af íhaldsmönnum í Hafnarfirði 1916. Það er sjálfsagt gott í augum hv. þm. að vera hvergi verri en íhaldið, en það er ekki víst, að svo sé í augum annara. Af því nú að þessi hv. þm. hefir hnýtt í meiri hl. bæjarstj. í Hafnarf. út af afskiptum hennar af ræktunarmálum bæjarins, þá hefði verið gott, að hann hefði látið prenta þriðja samninginn, samning, sem núv. bæjarstj. í Hafnarf. hefir gert, er sýnir, hvernig hún vill haga ræktunarmálum kaupstaðarins. Væri sá samningur borinn saman við samning íhaldsmannanna í Hafnarfirði frá 1916 eða samninga þá, sem hv. 5. landsk. gerði síðastl. vor við lögreglustjórann hér í Reykjavík og ráðsmanninn á Kleppi, myndu allir skynbærir menn sjá, að þar er framsýnin mest hjá núv. bæjarstjórn Hafnarfj. Þar er landið leigt til mjög skamms tíma (5 ára) og ákvæði um, að bærinn geti tekið það hvenær sem er. Þennan samning hefði hv. þm. átt að birta, heldur en að vera með slettur og ónot í garð meiri hl. bæjarstj., sem hagar sér rétt í þessu velferðarmáli bæjarins, í stað þess, sem bæði þessi hv. þm. og íhaldið vilja svipta bæinn því bezta ræktanlega landi, sem næst honum liggur og hann hefir mikla þörf fyrir.

Við atkvgr. mun ég fylgja frv. þessu, og sömuleiðis fylgi ég frv. hv. þm. Hafnf., sem hér var til umr. um daginn, þar sem farið var fram á, að taka mætti eignarnámi land það, sem hv. 5. landsk. lét af hendi í fyrra. Þá mun ég í þriðja lagi flytja brtt. um það, að taka megi og eignarnámi land það, sem Eyjólfur Jóhannsson framkvæmdarstjóri hefir áður fengið úr landi Garðahrepps og er á svipuðum slóðum og land lögreglustjórans og ráðsmannsins á Kleppi. Mér virðist rétt að halda sér við þessi aðalatriði, sem eru kjarni málsins og var vilji þingsins í fyrra, að auka land Hafnarfjarðarkaupstaðar, eins og Sig. Sigurðsson búnaðarmálastjóri lagði til í fyrra. Enda er vitanlegt, að jarðræktarframkvæmdir eru hvergi meiri en í nágrenni kaupstaðanna. Ber því að hlynna að kaupstöðunum eftir því sem föng eru til, láta þá fá það land til ræktunar, sem mögulegt er.

Hvað Garðhverfinga snertir, þá geta þeir tæplega sagt mikið, þó að Hafnfirðingar fái land frá þeim, því að þeir beinlínis lifa á Hafnfirðingum, sækja atvinnu þangað og selja þangað vörur sínar. Er því ekki hægt að taka til greina mótmæli þeirra.