08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (4909)

74. mál, eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla fyrst að leiðrétta það, sem hv. 2. landsk. sagði síðast, að Hafnfirðingar væru velgerðarmenn Garðahreppsbúa, af því að þeir keyptu af þeim mjólk o. fl. Mér finnst nefnil., að með sama rétti megi segja, að Garðhverfingar séu velgerðarmenn Hafnfirðinga, með því að framleiða handa þeim mjólk og fleiri lífsnauðsynjar.

Þá sagði þessi hv. þm., að meiri hl. bæjarstj. í Hafnarf. hefði ekki leigt Hvaleyrartúnið nema til 5 ára. En hví gerðu þeir það þá ekki strax, að skipta landi þessu á milli hinna landhungruðu manna sinna? Annars býst ég við, að þeir séu ekki margir, sem vilja taka óræktað og húsalaust land til 5 ára. Það er aldrei nema virðingarvert, að Hafnfirðingar skuli ekki hafa látið smábletti þá, sem heima við eru, til lífstíðarábúðar, enda hefir legið við uppþot út af þeim, þar sem 60 leiguliðar, þrautpíndir undan byrðum, sem bæjarstj. leggur þeim á herðar, urðu uppvægir. Finnst mér því þurfa að koma á friði heima fyrir áður en hann vill leggja undir sig ný lönd.

Þá vil ég leiðrétta þann misskilning, er komið hefir fram hjá þessum hv. þm., að nauðsynlegt væri fyrir Hafnarfjörð að fá allt sitt ræktunarland frá Garðahreppi. Þessu hafa hreppsbúar í Garðahreppi mótmælt kröftuglega. Hefði því stj. átt að verða skilyrðislaust við kröfum Hafnfirðinga, varð hún að ganga á rétt hreppsins, níðast á hinum fátæka hreppi. En það gat hún með engu móti gert, og því fór hún þann milliveg að bjóða kaupstaðnum það land, er honum var hentast til kartöfluræktar, en láta Garðahrepp halda sínu landi að mestu.

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Hafnf. miklu, því að hann er nú „dauður“. En þó vil ég geta þess, að ég hefi fengið fulla vissu fyrir því, að hinum unga og dugandi bóndasyni á Hvaleyri var algerlega synjað um leyfi að rækta grjótmela þar.

Út af þeim ummælum hv. þm., að ég hefði kallað hann „asna“. vil ég taka það fram, að ég hefi aldrei haft og mun aldrei hafa þau orð um þm., hversu miklir verðleikar sem annars kunna að vera til þess, enda sé ég ekki annað en það gæti skoðazt sem móðgun við umrætt dýr, að slík samlíking væri borin fram.