21.02.1933
Efri deild: 6. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

13. mál, heimild til að afmá veðskuldbindingar úr veðmálabókum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Lög, svipuð þeim, sem ráðgert er að setja með þessu frv., hafa tvisvar verið sett hér á landi áður, sem sé 1893 og 1897. Lög eins og þessi má telja einskonar endurskoðun á veðmálabókum landsins. Og þar sem 35 ár eru nú liðin síðan slík endurskoðun fór fram, sýnist tímabært að láta hana fara fram að nýju. Veðmálabækurnar eru mjög mikilsverður þáttur í fasteignaveðlánastarfseminni, og flestir, sem eitthvað hafa verið við þá starfsemi riðnir, munu hafa rekið sig á, að það kemur ekki sjaldan fyrir, að veðmálabækurnar sýna ekki rétta mynd af, hvað í raun og veru hvílir á fasteignum. Þetta er þó ekki því að kenna yfirleitt, að bækurnar og veðmálaskrárnar séu ekki rétt færðar, heldur því að ýmsir, sem greiða þinglýstar veðskuldir, eru ekki nægilega hirðusamir um að láta aflýsa hinum greiddu bréfum. Oft og tíðum kemur þetta ekki í ljós eða kemur ekki að sök fyrr en löngu seinna, og þá lendir kostnaður og óþægindi af þessu oft og tíðum á þeim, sem litla eða enga sök eiga á þessu. Úr þessu er tæpast hægt að bæta á annan hátt en þann, sem frv. ráðgerir. Vona ég, að ekki verði ágreiningur um, að rétt sé að fara þá leið til að bæta úr þessu, sem í frv. er stungið upp á.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til hv. allshn.