03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

32. mál, ullarmat

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. hefir gengið í gegnum hv. Nd. og verið samþ. þar mótatkvæðalaust. Það eru nú ekki miklar breyt., sem frv. ætlast til, að verði á 1. um ullarmat frá 1915. Aðalbreyt. er innifalin í því, að frv. gerir ráð fyrir, að einn af fjórum yfirullarmatsmönnunum verði yfirmaður hinna og verði jafnframt ráðunautur stj. í þessum efnum. Það er gert ráð fyrir, að hækka þurfi dálítið laun þessa eina manns, eins og sést í 3. gr. frv., úr 400 kr. upp í 800 kr. Hinsvegar er þá líka gert ráð fyrir, að það muni ekki reynast kleift framvegis frekar en hingað til að halda við ákvæðinu um 200 kr. upphæðina til ferðakostnaðar, og er því ákvæði þess vegna sleppt. Landbn. hefir athugað þetta frv. og leitað umsagnar Sambands ísl. samvinnufélaga um það. Sambandið lagði til, að frv. yrði samþ., og n. vill líka mæla með því, en n. ber þó fram fáeinar brtt., sem er að finna í nál. á þskj. 305, og eru þessar brtt. bornar fram með sérstakri hliðsjón af því, að S. Í. S. óskaði eftir þeim. Fyrsta brtt. er í tveimur stafl. Stafl. a. er um það, að framvegis skuli óþvegin haustull, sem flutt er út, verða metin. Eftir gildandi 1. er ætlazt til þess, að öll vorull, sem flutt er út, og öll þvegin haustull sé metin. Nú er flutt út úr landinu dálítið af óþveginni haustull, og þá er komin fram nauðsyn að meta hana líka, enda hefir það verið gert að undanförnu, þótt lagafyrirmæli hafi eigi krafizt þess.

Þá er gert ráð fyrir, að samrit af matsvottorðinu sé ritað á farmskrána. Þetta þykir óþægindi og hefir ekki verið framkvæmt. Þessu hefir verið sleppt, án þess að komið hafi að sök, og leggur n. því til, að þetta ákvæði verði numið úr 1.

Í 2. brtt. er heimild til atvmrh. um að setja reglugerðarákvæði, sem mæli svo fyrir, að kaupsýslumönnum sé óheimilt að kaupa ómetna ull. Það mun hafa átt sér stað ekki svo lítið, að kaupsýslumenn hafi keypt ull ómetna og svo orðið að láta meta hana á eftir. Þetta getur ýtt undir framleiðendur og seljendur um óvandvirkni í meðferð ullar. Það getur borið við, að leikið sé á kaupmenn, þegar þeir kaupa ullina, og telja kunnugir menn, að þetta hafi oft spillt fyrir góðri verkun ullarinnar. Það hefir líka tíðkast sumstaðar, að ull hafi verið seld kaupsýslumönnum óþvegin og ómetin. Hér er gert ráð fyrir, að alla ull skuli meta, og kaupmenn og kaupfélög hafi því aðeins leyfi til að kaupa hana óþvegna, að fyrir hendi séu tæki til að þvo hana og verka þannig, að hvorttveggja geti verið í góðu lagi að dómi ullarmatsformanns. Kaup á ómetinni og óþveginni ull hefir oft verið Þrándur í Götu þess, að verkunin hafi verið góð.

3. brtt. er aðeins leiðrétting, eins og menn sjá, sem ekki er þörf að fjölyrða um. Ég leyfi mér að leggja til f. h. landbn., að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefir á því gert.