15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Þorláksson:

Í umr. hefir ekki verið minnzt á aðrar vörutegundir, sem frv. fjallar um, en smjörlíki. Þó er það svo, að með því virðist haft fyrir augum að greiða fyrir tilbúningi á þremur öðrum vörutegundum, er nefnast: ostlíki, rjómalíki og mjólkurlíki. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort ástæða sé til að greiða fyrir tilbúningi þessara vörutegunda í landinu, og jafnframt hvort vitanlegt sé, að til sé innlendur iðnaður á þessu sviði. Ef svo er ekki, þá get ég ekki komið auga á ástæðuna fyrir því að taka upp í löggjöfina ákvæði til þess að hlynna að þessari framleiðslu. Ég held, að hér á landi sé engin þörf fyrir mjólkurlíki, það er að segja vökva, sem líkist mjólk, en hefir inni að halda aðra feiti en mjólkurfeiti, og ég býst við, að hið sama megi segja um rjómalíki og jafnvel ostalíki. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh. og hv. landbn., hver tilgangur sé með þessum ákvæðum.