15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Halldór Steinsson:

Það er rétt hjá hv. 2. landsk. að það eru tvær hliðar á þessu frv. Önnur þeirra sú, að frv. á að flytja með sér hollustubætur fyrir þá, sem neyta þessarar vöru. Það er náttúrlega þarft mál út af fyrir sig, en hinu má ekki gleyma, að kostnaðurinn við þessar endurbætur á vörunni hlýtur að koma niður á neytendunum. Eins og menn vita, þá er nú framleitt miklu meira smjör í landinu heldur en markaður er fyrir, en þó menn viti það, að smjör er hollara en smjörlíki, og mikið er framleitt af því, þá kaupa menn smjörlíkið heldur, vegna þess að það er ódýrara. Hinsvegar er það alveg víst, ef frv. verður að lögum, að smjörlíkið hlýtur að hækka í verði. Þess vegna mun aukast innflutningur á erlendu smjörlíki svo framarlega sem engar skorður verða settar við innflutningi þess, og þá kemur þetta frv. ekki að þeim notum, sem ætlað er, því allur fjöldinn mun, vegna efnaskorts, horfa á verðmuninn og kaupa heldur þá vöruna, sem ódýrari er, þó hún sé ekki eins holl.

Ég veit ekki, hvort þessi hlið málsins hefir verið hv. n. nægilega ljós, og vildi því. ef svo væri ekki, benda á þetta henni til athugunar.