15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Bjarni Snæbjörnsson:

Það er aðeins örlítil aths. Mér skilst, að við samning þessa frv. hafi aðallega tvennt vakað fyrir höfundinum. Annað það, að gera smjörlíkið heilnæmari vöru fyrir neytendurna, hitt að hjálpa landbúnaðinum með sölu á smjörinu. Ég er sammála um, að það er gróði að fá þetta ákvæði, ef ekki leiðir af því það, að smjörlíkið verði dýrara. En ég vil víkja að hinu atriðinu. Það hefir verið talað hér um eftirlíkingar, og það er gefinn hlutur, að þær koma fram á sjónarsviðið. Ef ákveðið verður, að smjörlíki hafi 5% af smjöri, en jafnframt er gefið lagaleyfi fyrir því, að framleiða megi mjólkurlíki og fleiri eftirlíkingar, þá getur vel hugsazt sá möguleiki, að hætt verði að nota mjólk í smjörlíkið, eins og hingað til hefir verið gert, en í þess stað verði notað mjólkurlíki í smjörlíkið. Gæti þá vel farið svo, að smjörlíkið hafi þá eftir allt saman ekki meira bætiefni inni að halda heldur en það hefir nú með þeim mjólkurskammti, sem nú er notaður. Nú er verið að semja lög um þetta efni, sem eiga að vera til frambúðar. Þegar lögin frá 1923 voru samin, var ekkert talað um bætiefni. Þetta er svo ný fræðigrein, að hún hefir eiginlega ekki verið uppi nema 5 síðastl. ár. Það er því afsakanlegt, þó að á henni hafi ekki verið byggt 1923, en nú hljóta allir að skilja, svo framarlega sem það er tilgangurinn að auka neyzlu bætiefna, að nú á að kippa því burt úr lögunum, sem getur orsakað það, að bætiefnið verði minna en áður. Það verður að útiloka möguleikann fyrir því, að hægt sé að framleiða og selja allskonar líki. Ef farið verður að nota ýmsar stælingar á mjólk, rjóma og ostum, samhliða því, að smjörlíkið verði bætt, þá getur farið svo, að við sitjum í sama fari þrátt fyrir þessi lög. Ég vil því árétta það, sem hv. 1. landsk. beindi til hv. n. til athugunar, hvort það mundi ekki vera ávinningur í því að fella þessi ákvæði um eftirlíkingar mjólkur- rjóma og osta úr frv., úr því á annað borð er verið að sjóða það upp með tilliti til þeirrar þekkingar, sem fengin er um bætiefnin síðan lögin frá 1923 voru samin.