16.03.1933
Neðri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það var einungis vegna þess, að mér virtist frv. og till. hv. n. gefa tilefni til þess, að ég sagði hér nokkur orð almennt um málið, og skal ég víkja nokkuð nánar að einstökum atriðum í ræðu hv. frsm., sem ég tel rétt, að séu gagnrýnd áður en gengið er til atkv. um frv. — Hv. frsm. benti mér á, að hér væri ekki um neinn fjárstyrk að ræða frá ríkinu. Ég skal játa, að hér er ekki um neinn þann fjárstyrk að ræða, sem greiddur er fyrirfram. En hv. þm. á eftir að sannfæra mig um, að þetta geti ekki kostað ríkissjóð mjög alvarleg útgjöld eftir á, því að það eru ekki lítil hlunnindi, sem þessum félagsskap eru áskilin úr ríkissjóði, enda væri ástæðulaust að setja slík l. sem þessi, ef ætlazt er til, að þeir hagnýti sér það ekki. Ég álít, að menn hefðu átt að játa sér nægja veðdeild Landsbankans og styrkja hana heldur. Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að bak við veðdeildarlánin stendur ábyrgð ríkissjóðs, en það er þó alls ekki sambærilegt við byggingarsamvinnufélögin, því að ábyrgð veðdeildarinnar nær aldrei til meira en 40% af matsverði eignanna, en hjá byggingarsamvinnufélögum nær ábyrgðin til 80% af matsverðinu. Og ekki er nóg með það, heldur má heita, að með 1. þessum hafi félögunum verið veitt fjárveitingarvald og yfirráð yfir ríkissjóðnum. Hverjir 15 menn, sem koma sér saman um myndun svona félags, fá þar með þau réttindi, sem l. veita, og þau réttindi eru ákaflega mikil. Ef breyt. þær, sem hér er farið fram á, næðu samþ., þá þarf að vísu staðfestingu atvmrh. á samþykktum félaganna, en þegar því er lokið, stendur leiðin opin í ríkissjóðinn. Ég verð því að segja, að ég álít ekki eins og hv. frsm., að hér sé farið inn á mjög heppilega braut og mjög tryggilega frá öllu gengið. Ég vildi þvert á móti segja, að hér sé mjög ótryggilega frá gengið, og er enginn vafi á því, að ríkissjóður muni á sínum tíma hafa mikla ábyrgð og áhættu af þessu öllu saman. Hv. frsm. lagði mikið upp úr því, að bannað væri að veðsetja þessi hús samvinnufélagsmanna fyrir meira en 80% kostnaðarverðs. Ég verð að segja það, að ég sé ekki mikið samband milli þessa og ábyrgðar ríkissjóðs. Ég vil leyfa mér að benda hv. frsm. á, að þótt hús, sem veðdeildarlán hvíla á, séu veðsett fyrir tvöfalt fasteignamat, þá kemur ábyrgð ríkissjóðs í gegnum veðdeildina alls ekki til í því sambandi. Slíkt eykur alls ekki ábyrgð ríkissjóðs og myndi ekki auka, þótt veðsett væri fyrir allt, sem hægt væri. — Hv. frsm. segir, að veðdeildin sé ekki til eftirbreytni. Sú eftirbreytni verður a. m. k. ekki til tjóns meðan ekki er gengið lengra en veðdeildin gerir.

Ég varð stórlega undrandi, þegar hv. frsm. sagði, að veðdeildin væri yfirleitt ekki notuð til þess að koma upp nýjum byggingum, heldur hafi fé hennar mestmegnis farið í gömul hús. Ég get ekki séð, að þetta sé neitt ásökunarefni á Landsbankann fyrir meðferð hans á fé veðdeildarinnar. Og ég skil ekki annað en að hann sé mér sammála, ef hann athugar það nánar, að það er ekkert ásökunarefni; þó að veðdeildin láni út á eldri hús, þegar þau eru vel veðhæf. Byggingarsamvinnufélög eru ætluð til þess, segir hv. frsm., að koma upp ódýrum byggingum og hentugum. Og að svo miklu leyti sem þetta er aðaltilgangur 1., svipað eins og um verkamannabústaðina, þá er það innan takmarka, sem mætti tala um. En þegar á að víkka svo verksvið þessa samvinnufélags, að skylt sé ríkissjóði að ábyrgjast 80% af lánum til félagsmanna, hvað stór hús sem þeir vilja byggja, þá er a. m. k. komin ástæða til að ætla, að hér sé komið inn á hættulega braut. Það var líka eftirtektarvert, að í fyrsta skipti, sem átti að hagnýta þessi l., þá kemur strax í ljós, að það eru ekki þeir menn, sem hugsa sér að hagnýta sér 1., sem þurfa á smærri íbúðum að halda og geta látið sér nægja það, sem 1. ákveða, heldur menn, sem þurfa stórar íbúðir með mörgum herbergjum og íburðarmiklum, og þeir þurfa svo strax að fá 1. breytt, til þess að þessir ágætu borgarar, efnaðir menn, sem vilja hafa stórar og góðar íbúðir, geti komizt inn undir þessi 1. og orðið á þann hátt þeirra miklu fríðinda aðnjótandi, sem þau hafa nú að bjóða. Hv. frsm. lagði mikið upp úr því skilyrði, að þeir ættu að eiga dálítið sjálfir, sem stofnuðu þessi samvinnubyggingarfélög. Ég verð nú að álíta, að það skipti löggjafann engu, hvort maður kemur upp yfir sig sínu húsi og á 1/5 part af andvirðinu eða ekkert, ef hann getur fengið lán og borgað það smátt og smátt af eigin tekjum. Ég get ekki gert greinarmun á þessu. En það kemur strax í ljós, þegar á að framkvæma þessi l. hér í Rvík, — og sennilega verða þau aldrei framkvæmd nema hér í Rvík, — að þeir menn, sem ætla að hagnýta sér þessi lög, gera meiri kröfur en þeir, sem upphaflega var ætlað að hjálpa. Þeir sjá, að það eru stórkostleg hlunnindi, sem þeir verða aðnjótandi, ef þeir komast inn undir þessi l., hlunnindi, sem að mínu áliti enginn borgari á að verða aðnjótandi, nema allir viti, að það sé verið að gefa honum, að hann sé að þiggja gjöf frá ríkissjóði og hann sé verðugur þeirrar gjafar.

En með þessum l. er verið að reyna að draga dul yfir það, að hér sé verið að gefa fáum mönnum hlunnindi, sem ekki geta allir fengið að njóta, og því verra verður þetta, sem þeir eru betur efnum búnir og þurftarfrekari, sem hlunnindanna ætla sér að njóta, og sérstaklega fyndist mér það óviðeigandi, að þingið og ríkissjóður fari að hjálpa þeim til að byggja yfir sig dýr og vönduð hús, sem alls ekki þurfa á slíkri hjálp að halda.

Ég sagði við 1. umr., að þetta væri ekki rétt braut, sem hér væri komið inn á, og spurði, hvort nú væri meining löggjafarvaldsins að hætta að aðstoða þá, sem þurfa að fá fasteignalán í gegnum veðdeildina, en taka upp fyrir þá, sem lakar eru settir, fyrirkomulag eins og nú er á samvinnufélagi verkamannabústaðanna, og að þeir, sem betur eru settir, geti komið undir ákvæði byggingarsamvinnufélaga. Þetta hvorttveggja gæti verið gott, ef í nægilega stórum mæli væri framboðið af ríkissjóði og þingi. Þá játa ég, að ekki væri þörf fyrir veðdeildina. Og ég spurði þess vegna, hvort meiningin væri að loka fyrir veðdeildina, hætta að aðstoða gegnum hana, þar sem allir eru jafnfrjálsir að fá sín fasteignalán, en taka upp þetta í staðinn. Ég held, að þetta sé varhugaverð leið, og þess vegna tók ég til máls og benti á þetta.