07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., á þskj. 338, og í henni felst það eitt, að þessi löggjöf skuli ekki ná til bæjarfélaga, heldur eingöngu til hreppsfélaga. Það eru ekki svo margir kaupstaðir eða bæjarfélög hér á landi, að nokkur ástæða sé til að setja um þetta almenna löggjöf þeirra vegna. Ég tel, að það væri ofviða fyrir löggjafarvaldið að gera sérstakar ráðstafanir með lögum, ef eitthvert bæjarfélag þyrfti að gefast upp eða gæti ekki staðið í skilum við sína lánardrottna. Jafnframt skal ég taka það fram, að það er auðséð á ýmsum atriðum frv., að það er upphaflega eingöngu sniðið með hreppsfélögin fyrir augum, og skal ég henda á dæmi því til sönnunar. Í niðurlagi 5. gr. frv. stendur: „Ráðherra sker þá úr, hvort fylgja skuli tillögum aðstoðarmanns að nokkru eða öllu leyti eða hvort hreppnum skuli látin í té frekari aðstoð eftir lögum þessum“. Ef frv. væri samið jöfnum höndum fyrir hreppsfélög og bæjarfélög og hvorttveggja höfð fyrir augum, þá hefði auðvitað átt að standa þarna: hreppum og bæjarfélögum.

Annað dæmi skal ég nefna, sem ég tel þó þýðingarmeira, í 13. gr. frv., þar sem talað er um eftirgjafir til sveitarfélaga, og hlutaðeigandi sýslufélagi er gert að greiða jafnmikið og ríkissjóði af hinu eftirgefna. Mér skilst, að um það gæti ekki verið að ræða, ef í hlut ætti bæjarfélag, sem ekki telst til sýslufélags.

Ég hefi lesið allt frv. með tilliti til þess, að brtt. mín verði samþ., og get ekki séð, að hún raski neitt efni þess, nema á tveimur stöðum í 1. og 2. gr., þar sem ég legg til, að orðin: .,Bæjarfélag eða“ og „bæjarstjórnar eða“ falli burt.

Höfuðástæða mín fyrir flutningi þessarar brtt. er sú, sem ég tók fram við 2. umr., að ég er hræddur um, að ef svona almenn löggjöf er látin ná til bæjarfélaga, þá muni það fremur spilla lánstrausti þeirra og rýra álit þeirra og tiltrú í augum lánveitenda. En kaupstaðirnir mega ekki við því, þar sem þeir þurfa sífellt á mikilli fjáröflun að halda til stofnunar og rekstrar stórra fyrirtækja. Bæjarfélög eru venjulega bundin margvíslegri viðskiptaflækjum við lánsstofnanir heldur en sveitarfélög. Og þess vegna er nauðsynlegt, að löggjöfinni sé þannig háttað, að lánardrottnar þurfi ekki að líta bæjarfélögin tortryggnisaugum að óreyndu. En slík löggjöf gerir hreppsfélögum miklu minni óþægindi. Ég vona, að hæstv. dómsmrh. og hv. þd. geti fallizt á þessa brtt. mína, sérstaklega þegar á málið er litið frá því sjónarmiði, að löggjafarvaldinu sé ekki ofvaxið að setja sérstök lagaákvæði í einstökum tilfellum, ef til þess kæmi, að einstök bæjarfélög þyrftu á því að halda.