07.04.1933
Efri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er dálítið erfitt að tala um þetta mál. Hæstv. dómsmrh. reyndi ekki að hnekkja með einu orði því, að síðasta málsgr. 10. gr. frv. muni gera kaupstöðunum það alveg ómögulegt að byggja upp framfarafyrirtæki sín með eigin lánum gegn tryggingu í fyrirtækinu sjálfu. Hæstv. ráðh. segir bara: Það er ekki mér að kenna, að þetta stendur í frv. Og hv. 2. þm. Árn. segir hið sama um annað atriði þess. En ég verð nú að ræða frv. eins og það er. Og þótt hæstv. ráðh. segi, að það sé ekki tilgangur frv. að rýra lánstraust sveitarfélaganna, þá er þó ómögulegt að loka augunum fyrir því að sjá, að ekki verður hægt vegna ákvæða frv. að veðsetja hús, sem ætluð eru til almenningsþarfa, fyrir lánum til sveitarfélaga. Lögin hafa áreiðanlega komizt út fyrir tilgang sinn, því með þeim er verið að hnekkja þeim bæjarfélögum, er standa sig vel og eru sjálfstæð, til að koma í framkvæmd nauðsynlegum fyrirtækjum. Það verður ekki hrakið, að það er ekki lengur neinn veðréttur í eign, ef einn maður getur sagt við lánardrottnana: Þetta fáið þið og ekki meira. Nú getur veðhafi, ef sveitarfélag kemst í þrot með rafmagnsveitu eða önnur slík fyrirtæki, látið leggja sér eignina út og þá tekið fyrirtækið til rekstrar og látið það bera sig. En samkv. þessu frv. er það ekki hægt, og er það alveg ótækt ákvæði. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að ég hefði of litla trú á því opinbera. Þetta er nú alveg hið sama og að segja: góðan daginn og agarskaft. Það, sem ég segi, er það, að kaupstaðir, sem eru á framfarabraut, eiga að fá að vera í friði fyrir svona ákvæðum.