19.04.1933
Neðri deild: 53. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

34. mál, fjárþröng hreppsfélaga

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er ekki hægt að segja, að hreppsfélögin séu undir eftirliti stj. Það eina eftirlit, sem fram fer, er það, að þau senda sinn árlega reikning til hagstofunnar. Stj. getur ekki haft eftirlit með fjárreiðum allra sveitarfélaga á landinu. Það er alveg víst, að ýms sveitarfélög geta ekki staðið í skilum. Eru þegar liðin 10 ár síðan fyrsta sveitarfélagið kom til þingsins með hjálparbeiðni. Hefir þingið síðan oftsinnis hlaupið undir bagga með þurfandi sveitarfélögum. En eins og nú er ástatt, er ekki hægt að hjálpa þeim öllum. Ætti heldur ekki að gilda annað um sveitarfélög, sem ekki geta greitt skuldir sínar, en aðra skuldunauta. Ef fé lánardrottnanna er tapað, þá verða þeir að sætta sig við það. Er ekki rétt að fara að gefa þeim fé, þótt þeir eigi eitthvað inni hjá sveitarfélögum. Vandinn er aðeins sá, að ekki verði í þessu efni gengið lengra en hæfilegt er, og hygg ég, að þetta frv. tryggi það.